Ritaði hjartnæmt afsökunarbréf úr fangelsi
Í viðtali við Howard Stern árið 2015 staðfesti söngkonan Madonna tveggja áratuga gamlan orðróm um að hún og rapparinn Tupac hefðu átt í ástarsambandi. Munu þau hafa verið í sambandi 1994–1995, en hvorugt þeirra gaf nokkuð upp opinberlega með það á sínum tíma, en Tupac var skotinn til bana árið 1996. Í viðtalinu við Stern gaf Madonna engar fleiri upplýsingar um samband þeirra.
Vefmiðillinn TMZ hefur nú birt brot úr bréfi sem Tupac skrifaði Madonnu meðan hann sat í fangelsi árið 1995 og samkvæmt því er ljóst að sambandið endaði þar sem Tupac sagði Madonnu upp þar sem hún er hvít. Í bréfinu biður hann hana innilega afsökunar og segir að þó að fólk hafi talið hana opna og frjálslynda fyrir að vera í sambandi með svörtum manni, hafi hann þvert á móti fundið fyrir pressu til að ljúka sambandinu til að verja ímynd sína. Hann nefnir einnig að hann sé ungur maður með takmarkaða reynslu, en hún heimsþekkt kyntákn. Þrettán ára aldursmunur var á parinu. Að lokum biðlar hann til Madonnu að koma og heimsækja hann í fangelsið og að reynslan hafi kennt honum að taka ekki tímann sem sjálfgefinn.
Bréfið mun fara á uppboð 19. júlí næstkomandi og er byrjunarboð 100 þúsund dollarar, eða ríflega 10 milljónir íslenskra króna. Talið er að það muni fara á mun hærra verði, en síðasta bréf Tupac sem selt var á uppboði fór á 170 þúsund dollara.