Hluti þeirra fjárfesta sem komu með fé inn í landið í gengum fjárfestingaleið Seðlabankans árið 2012 hefur selt fjárfestingar sínar og flutt féið úr landi síðustu vikur, þetta gæti útskýrt skyndilega veikingu krónunnar að undanförnu. Greint er frá þessu í Fréttablaðinu í dag. Þeir sem rætt var við vita ekki um hversu háar fjárhæðir er að ræða en ljóst sé að einhverjir hafi notað tækifærið í kjölfar afléttingu gjaldeyrishaftanna. Seðlabankinn hafi svo gripið inn í með því að kaupa einn milljarð króna í samræmi við umleitanir bankans við að draga úr miklum sveiflum á genginu.
Þórður Snær Júlíusson ritstjóri Kjarnans segir á Fésbók í dag að þeir hafi keypt íbúðarhúsnæði árið 2012 með féi sem kom inn í landið með fjárfestingaleiðinni hafi hagnast gríðarlega á kostnað íslensks samfélags, þeir sem hafi skipt einni milljón evra árið 2012 væri nú að fá rúmlega 3,7 milljónir evra:
Þeir sem komu inn í gegnum leiðina á fyrstu mánuðum ársins 2012 og keyptu sér t.d. íbúðarhúsnæði hafa tekið út alls konar ágóða. Í fyrsta lagi hefur íbúðarverð hækkað um 72 prósent frá því í byrjun árs 2012. Miðað við útboðsverðið sem þeir fengu á evru, sem var 240 krónur, þá hefur virði krónanna sem Seðlabankinn leyfi þeim að skipta nánast tvöfaldast í evrum talið. Sá sem skipti t.d. einni milljón evra í krónur í febrúar 2012 í útboði fjárfestingarleiðarinnar, keypti sér íbúðarhúsnæði fyrir, seldi það síðan og skipti í evrur í mars 2017, hefur fengið 3,7 milljónir evra á heimleiðinni. Ágætis ávöxtun, í boði íslensks samfélags,
segir Þórður Snær og bætir við að veiking krónunnar sem gæti verið orsök fjármagnsflutninganna þýði skert kjör íslensks launafólks.