Tillögum borgarfulltrúa Flokks fólksins í borgarráði um að leigjendur taki sæti í stjórn húsfélags um íbúðir Félagsbústaða á Lindargötu 57-66, sem bornar voru upp í sumar, var vísað frá í morgun með þeim rökum að málið væri ekki á forræði borgarinnar. Kolbrún Baldursdóttir segir þetta koma á óvart, þar sem Félagsbústaðir séu í eigu Reykjavíkurborgar og meirihlutinn eigi þar mann í stjórn, sem vill svo til að er einnig formaður velferðarráðs:
„Þetta kom mjög á óvart þar sem formaður velferðarráðs, sem á sæti í borgarráði á einnig sæti í stjórn Félagsbústaða. Talað var um hjá meirihlutanum þegar ákveðið var að Heiða B. Hilmisdóttir, formaður velferðarráðs í stjórn Félagsbústaða, tæki þar sæti, að þá ætti að myndast betri tenging milli borgarinnar og Félagsbústaða, sem eru alfarið í eigu borgarinnar. Það hefur aldeilis ekki gerst. Og ég hlýt því að spyrja hvað hún sé að gera í stjórninni ef hún getur ekki komið þessu á. Þannig að leigjendur eru ekki velkomnir í stjórnir húsfélaga Félagsbústaða virðist vera,“
segir Kolbrún.
Í bókun hennar frá í morgun segir að allt sé málið sérkennilegt:
„Tillögunni hefur verið vísað frá og sagt að þetta sé ekkert á forræði borgarinnar. Borgarmeirihlutinn hefur hvorki kjark né þor til að bera tillöguna upp til atkvæða. Allt er þetta sérkennilegt þar sem formaður velferðarráðs, sem sæti á í borgarráði á einnig sæti í stjórn Félagsbústaða svo hæg ættu nú heimatökin að vera.“
Þar kemur einnig fram að Félagsbústaðir hafi ekki viljað svara tillögu Kolbrúnar:
„Borgarfulltrúi Flokks fólksins lagði til að fulltrúi leigjenda taki sæti í stjórn húsfélagsins á Lindargötu 57-66. Borist hefur umsögn frá Félagsbústöðum. Í svari segir að rétt sé að beina tillögunni til stjórnar húsfélagsins á Lindargötu. Þetta svar kemur reyndar einnig á óvart þar sem á fundi síðasta húsfélags stýrði framkvæmdarstjóri Félagsbústaðar fundi sem borgarfulltrúa finnst að hljóti að vera merki um hvar valdið liggur. Minna skal á að Félagsbústaðir eru í eigu borgarinnar.“
Þá kemur einnig fram að alls 81 íbúð húsfélagsins við Lindargötu er í eigu Félagsbústaða og 13 séu í einkaeigu. Hinsvegar eigi hvorki leigjendur Félagsbústaða né fulltrúi íbúðanna 13 sem eru í einkaeigu, fulltrúa í stjórn húsfélagsins:
„Það væri eðlilegur ferill og sanngirnismál að Félagsbústaðir tryggi fulltrúa leigjenda 81 íbúðar Félagsbústaða setu í stjórn. Það ætti að vera metnaður að sýna leigjendum Félagsbústaða þá virðingu að bjóða þeim sæti í stjórnum húsfélaga.“