Martha Gellhorn er sögð vera einn besti stríðsfréttaritari 20. aldar
Martha Gellhorn ólst upp í St. Louis. Faðir hennar var virtur læknir og móðir hennar var náin vinkona Eleanor Roosevelt forsetafrúar, sem kom alla tíð fram við Mörthu eins og dóttur sína. Ein af uppeldisaðferðum foreldranna var að banna Mörthu og þremur bræðrum hennar að slúðra og tala um peninga. Það átti einungis að ræða staðreyndir og ef ágreiningur kom upp var leitað í alfræðibækur.
Árið 1929 þegar Martha var tuttugu og eins árs ákvað hún að verða fréttaritari. Hún flutti til Parísar og gerðist ástkona ritstjórans Bertrand de Jouvenel sem var kvæntur þegar þau hittust. Hann var stjúpsonur skáldkonunnar Colette sem fullyrt var að hefði dregið hann á tálar þegar hann var ungur maður. Þegar Martha sneri aftur til Bandaríkjanna árið 1934 voru þau Bertrand skilin.
Martha ferðaðist um Bandaríkin og kynnti sér ömurleg kjör fátæks fólks, ræddi við það og skrifaði um upplifun sína. Hún talaði meðal annars við börn sem voru aðframkomin af næringarskorti. Hún skrifaði greinar um þann ömurleika sem bar fyrir augu hennar og síðan bókina The Trouble I’ve Seen. Rithöfundurinn H.G. Wells útvegaði Mörthu útgefanda að þeirri bók og skrifaði formála að henni. Bókin fékk frábæra dóma og færði Mörthu mikla frægð. Sagt er að Wells og Martha hafi verið elskendur en þegar sonur Wells vildi segja frá sambandi þeirra í ævisögu föður síns hótaði Martha honum lögsókn.
Martha var tuttugu og átta ára þegar hún kynntist rithöfundinum Ernest Hemingway sem hvatti hana til að koma með sér til Spánar þar sem hann ætlaði að vinna sem fréttaritari í borgarastríðinu. Martha slóst í för með honum og skrifaði áhrifamiklar og persónulegar greinar um borgarastríðið.
Eiginkona Hemingway, Pauline, komst að ástarsambandi manns síns og Mörthu þegar hún fann mynd af Mörthu í farangri hans eftir komu hans frá Spáni. Í þrjú ár neitaði Pauline honum um skilnað en lét loks undan. Hún giftist ekki aftur og var full beiskju. Hún lést árið 1951, 56 ára gömul. Hemingway sagði seinna að hann hefði verið fífl að yfirgefa hana og tvo syni þeirra fyrir Mörthu.
Hjónaband Mörthu og Hemingway var stormasamt. Hún var á stöðugum ferðalögum á stríðsárunum sem fréttaritari og Hemingway sakaði hana um að vera eigingjarna og of metnaðarfulla. Á þessum tíma skrifaði hún meðal annars áhrifamikla fréttaskýringu um heimsókn í Dachau í maímánuði 1945. Þar sagðist hún í fyrsta sinn hafa skilið hversu ill manneskjan gæti verið. Áður hafði hún trúað því að sannleikur, réttlæti og kærleikur myndi að lokum sigra allt. Nú trúði hún því ekki lengur. „Það var eins og ég hefði gengið inn í Dachau og fallið fram af klettum og hlotið varanlegan heilahristing án þess að vita af því,“ sagði hún.
Martha yfirgaf Hemingway eftir sjö ára samband. Hann skrifaði vini sínum og sagði að mestu mistök lífs síns hefðu verið að giftast henni. „Ég skil ekki hvað frægðin gerir fólki,“ sagði Martha seinna á ævinni. „Ernest var skemmtilegur. Svo hætti hann að vera það.“ Eftir skilnað þeirra brást hún venjulega illa við þegar nafn hennar var tengt við nafn Hemingway. Þegar hann framdi sjálfsmorð sagðist hún skilja að hann hefði ekki viljað halda áfram að lifa, þrotinn að andlegri og líkamlegri heilsu. Sjálf átti hún eftir að standa í sömu sporum.
Hún giftist fyrrverandi ritstjóra Times, Tom Matthews. Hjónabandinu lauk með skilnaði. Hún sagði vini sínum að hún iðraðist þess ekki að hafa gifst Hemingway sem hefði kennt henni ýmislegt en sæi eftir því að hafa sóað níu árum í hjónabandi með Matthews. Hún hafði ættleidd ítalskan dreng, Sandy, en gerði miklar kröfur til hans sem hann stóð ekki undir og samband þeirra varð afar stirt en skánaði mjög síðustu árin sem hún lifði.
Hún hafði metnað sem skáldsagnahöfundur og skrifaði skáldsögur en þær bækur hennar sem eru í mestum metum fjalla um reynslu hennar sem stríðsfréttaritari. Hún átti sextíu ára feril sem stríðsfréttaritari og einbeitti sér að því að lýsa örlögum saklausra borgara og áhrifum stríðs á þá en ferðaðist einnig með hermönnum og skrifaði um lífsreynslu þeirra. Með árunum fékk hún æ meiri óbeit á utanríkisstefnu Bandaríkjanna. Hún fór til Saigon árið 1966, heimsótti sjúkrahús og talaði við lækna og fólk sem hafði særst, misst útlimi og sjón í sprengjuárásum Bandaríkjamanna, fór í flóttamannabúðir og talaði við nunnur sem ráku munaðarleysingjahæli. Heimsókn hennar hleypti svo illu blóði í bandaríska herinn að henni var seinna neitaði um endurnýjaða vegabréfsáritun til Víetnam. Henni var skemmt þegar upplýst var að CIA og FBI héldu skrár um hana. Á áttræðisaldri var hún í Nicaragua og El Salvador og skrifaði gegn utanríkisstefnu Reagan-stjórnarinnar. En þegar borgarastyrjöld braust út í Bosníu sagðist hún vera orðin of gömul til að fara þangað.
Martha varð reið og erfið gömul kona en gat verið fyndin. Hún var önug í viðtölum og í einu þeirra sagði hún: „Þetta viðtal er svo leiðinlegt að ég held að það sé að líða yfir mig.“ Þegar góð vinkona hringdi í hana og sagðist vilja hitta hana sagði Martha: „Þú ert of leiðinleg.“ Þannig lauk þeirri vináttu.
Um ellina sagði hún: „Ef maður lifir nógu lengi verður maður minnismerki. Ég er nú orðin minnismerki.“ Heilsa hennar fór versnandi. Hún missti sjónina nær algjörlega, heyrnin versnaði verulega og hún þjáðist af bakverk. „Mér finnst ég vera mjög gömul, ljót og þreytt,“ sagði hún. Hún sagðist sakna tvenns úr lífi sínu, að hafa aldrei skrifað frábæra bók og hafa ekki kynnst fullkominni ást. Þegar hún fékk krabbamein fannst henni nóg komið og í febrúarmánuði 1998 framdi hún sjálfsmorð með því að taka inn blásýru. Hún var 89 ára gömul.