fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Eyjan

Kári hæðist að Katrínu og segir hugmyndir siðfræðingsins Vilhjálms hættulegar – „Innihaldslaust þvaður“

Ritstjórn Eyjunnar
Fimmtudaginn 7. nóvember 2019 09:12

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, fer stórum orðum um forsætisráðherra og  Vilhjálm Árnason, prófessor í heimsspeki og stjórnarformann Siðfræðistofnunar, í grein í Fréttablaðinu í dag.  Hann furðar sig þar á frumvarpi sem samþykkt var í sumar um vönduð vinnubrögð í vísindum, sem lagt var fram af Katrínu Jakobsdóttur.  Hann segir tilgang frumvarpsins óskilgreindan og vísindamenn furði sig á því:

„Frumvarp til laga um vönduð vinnubrögð í vísindum voru samþykkt af Alþingi þann 24. júní í ár án þess að fyrir liggi skilgreining á því hvað séu vönduð vinnubrögð í vísindum. Síðan ég frétti af lagasetningunni hef ég spurt um það bil 50 vísindamenn og konur hvað átt sé við með vönduðum vinnubrögðum í vísindum og enginn átti svar. Ég var ekki að spyrja um smáatriði heldur um grundvallarhugmyndina: Vönduð vinnubrögð í vísindum. Lögunum er sem sagt ætlað að sjá til þess að við gerum eitthvað sem enginn veit hvað er. Það má að vísu leiða að því rök að höfundar laganna hafi gert sér grein fyrir þessum galla af því að það eru engin viðurlög við því að brjóta þau.“

Vilhjálmur á vondri braut

Kári fer háðslegum orðum um undirbúning frumvarpsins, þar sem enginn vísindamaður kom nálægt því ferli. Þá skýtur hann föstum skotum á Vilhjálm Árnason, sem Kári segir að hafi átt hugmyndina að frumvarpinu:

„Ég hef það fyrir satt að hugmyndin að lögunum eigi rætur sínar hjá siðfræðingnum í nefndinni sem er Vilhjálmur Árnason sem Katrín Jakobsdóttir skipaði á sínum tíma sem sérstakan ráðgjafa sinn,“ segir Kári og bætir við Vilhjálmur hafi  „um árabil reynt að fylla upp í það ginnungagap sem varð til í íslenskri menningu við það að kaþólska lagðist af í landinu og það var enginn eftir til þess að segja okkur hvað væri sómasamleg hegðun á öllum sviðum mannlífs.“

Hættulegar hugmyndir

Kári lýsir Vilhjálmi líkt og íhaldssömum eldklerki frá fyrri öldum:

„Vilhjálmur hefur um árabil tjáð þá skoðun sína að vísindin eigi að hreyfa sig hægt vegna þess að það sé svo erfitt fyrir fólk að takast á við nýja þekkingu ef hana beri hratt að. Það er hins vegar þannig að uppgötvanir sem slíkar eru aldrei gerðar hægt heldur eru þær einfaldlega allt í einu komnar og þekkingin nýja gerir aldrei annað en að auka skilning á þeim heimi sem við búum í eða býr í okkur.“

Þá segir Kári hugmyndir Vilhjálms hættulegar:

„Sú hugmynd að það sé skynsamlegt að hemja uppgötvun nýrrar þekkingar er ekki bara slæm heldur hættuleg og mjög óað­laðandi. Það er hins vegar alveg ljóst að uppspretta laganna á rætur sínar í þeirri tilfinningu að það verði einhvern veginn að halda vísindum á Íslandi innan marka sem Siðfræðistofnun Háskóla Íslands setji þeim.“

Engin úrræði í frumvarpinu

Um frumvarpið segir Kári:

„Samkvæmt lögunum á að setja á laggirnar sjö manna nefnd af lögfræðingum og siðfræðingum og einhverjum fulltrúum vísinda og síðan sjö varamönnum. Nefndin á að vera með einstakling í fullu starfi. Hún á að gera tvennt. Hún á að leita að alþjóðlegum viðmiðunum um vönduð vinnubrögð í vísindum sem eru ekki til þannig að ekki verður við nefndina að sakast þegar hún finnur þau ekki. Síðan er nefndinni ætlað að fjalla um þau tilvik þegar álitið er að eitthvað ósæmilegt hafi átt sér stað í vísindum á Íslandi, menn hafi platað, stolið, svikið, prettað.“

Kári hefur tvennt við þetta að athuga, sem hann segir furðulegt. Í fyrsta lagi, að til þess að ákveða hvort eitthvað misjafnt hafi átt sér stað þurfi þekkingu á smáatriðum þeirra vísinda sem ræðir hverju sinni.

„Í annan stað eru mál af þessari gerð brotin til mergjar til þess að gera eitthvað í þeim, sjá til þess að vísindamaður sem hefur gerst uppvís að óheiðarleika sé rekinn frá háskóla, fái ekki styrki eða glati réttinum til þess að leiðbeina nemendum. Samkvæmt lögunum hefur nefndin fyrirhugaða engin slík úrræði.“

Innihaldslaust þvaður

Í lokin ber Kári þessi lög forsætisráðherra við bók Árna Einarssonar um garðhleðslur, sem hann segir stórkostlega:

„Lögin hennar Katrínar Jakobsdóttur um vönduð vinnubrögð í vísindum eru dæmi um hið andstæða, úr fjarlægð virðast þau vera til þess fallin að hysja vísindin upp á æðra plan en þegar betur er að gáð gera þau ekkert nema kannski að sólunda tíma og fé og láta hæstvirtan forsætisráðherra líta út eins og henni sé sama um allt annað en innihaldslaust þvaður.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Í gær

Arion banki sá að sér eftir að upp úr sauð á Fjármálatips

Arion banki sá að sér eftir að upp úr sauð á Fjármálatips
Eyjan
Í gær

Gunnar bendir á sláandi staðreynd um stýrivextina – „Hvergi í veröldinni er auður hinna ríku varinn af eins miklum ákafa“

Gunnar bendir á sláandi staðreynd um stýrivextina – „Hvergi í veröldinni er auður hinna ríku varinn af eins miklum ákafa“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Kosningar: Lilja og Alma takast á um skatta og innviðafjárfestingu

Kosningar: Lilja og Alma takast á um skatta og innviðafjárfestingu
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Bregðast við stjórnarskrárbroti Alþingis – „Þetta er hið raunverulega andlit og arfleifð Sjálfstæðisflokksins“

Bregðast við stjórnarskrárbroti Alþingis – „Þetta er hið raunverulega andlit og arfleifð Sjálfstæðisflokksins“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Ragnar segir tíma til kominn að þora að spyrja stóru spurninganna um lífeyrissjóðina – „Við erum þrælar eigin kerfis“

Ragnar segir tíma til kominn að þora að spyrja stóru spurninganna um lífeyrissjóðina – „Við erum þrælar eigin kerfis“
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Þingkosningar: Lilja segir ríkisstjórnina hafa fjárfest mikið í innviðum – Alma segir innviðskuldina ógna orkuskiptum

Þingkosningar: Lilja segir ríkisstjórnina hafa fjárfest mikið í innviðum – Alma segir innviðskuldina ógna orkuskiptum
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Grein 4 um ESB/evru: Þýzkaland tók evru fram yfir sitt ofursterka mark (DM) – hvað segir það okkur?

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Grein 4 um ESB/evru: Þýzkaland tók evru fram yfir sitt ofursterka mark (DM) – hvað segir það okkur?