Uppgjör Adolfs Inga – Sigraði RÚV fyrir dómstólum
Adolf Ingi Erlingsson er flestum kunnur fyrir störf hans sem íþróttafréttamaður og var þekktur fyrir líflegar lýsingar og ýmis frumleg uppátæki í leik og starfi. Í huga flestra var Adolf alltaf brosandi, alltaf hress og alltaf til í fíflagang og grín. Síðustu ár í lífi Adolfs hafa hins vegar ekki verið neitt grín. Sigurvin Ólafsson bauð Adolf í kaffisopa og rakti úr honum garnirnar.
Þegar ég sæki Adolf er hann nýkominn í borgina eftir hringferð um landið. Hann stoppar þó stutt við því degi síðar heldur hann af stað í aðra þriggja daga ferð, en Adolf starfar sem leiðsögumaður hjá Arctic Adventures. Við sammælumst um að ég bjóði honum í kaffi og við keyrum af stað. Adolf er brúnn og sællegur, enda mikið úti í náttúrunni, með sólgleraugu og í bol merktum hljómsveitinni Ham. Á leiðinni fær hann símtal og ég heyri að viðmælandinn óskar Adolf til hamingju með sigurinn í dómsmáli hans gegn Ríkisútvarpinu á dögunum. Væntanlega er það eitt símtal af mörgum síðustu daga. Aðalástæða þess að DV leitaði eftir viðtali við Adolf er einmitt niðurstaða umrædds dómsmáls, þar sem RÚV var dæmt til að greiða honum skaða- og miskabætur fyrir einelti og ólögmæta uppsögn. Við Adolf ræðum þó margt annað enda hefur ýmislegt fleira gengið á í hans lífi síðustu árin.
Við komum okkur fyrir í eldhúsi í Vesturbænum með kaffi og köku. Adolf afþakkar reyndar kaffið, segist aldrei hafa drukkið kaffi. Ég byrja á að rifja upp með honum stórskemmtilegt viðtal sem DV tók við hann í upphafi árs 2013. Í því viðtali deildi Adolf þeirri lífsreglu með lesendum að maður skuli aldrei hafa móral yfir neinu, þó að maður geri sig að fífli. „Já, ég hef svo oft gert mig að fífli að ef ég ætlaði að hafa móral myndi ég ekki láta sjá mig úti á götum,“ segir Adolf hlæjandi. „Maður má ekki taka sig of alvarlega.“
Þegar umrætt viðtal var tekið var Adolf ennþá íþróttafréttamaður hjá RÚV en tæpu ári síðar var honum sagt upp störfum. Í viðtalinu árið 2013 mátti þó greina að ekki var allt með felldu því þar kom fram að hann saknaði þess að lýsa leikjum íslenska landsliðsins í handbolta, hafði þá ekki lýst nema einum leik í þrjú ár. Á sama tíma var hann einn þekktasti og reynslumesti íþróttalýsandi landsins. Hvað var hann þá látinn sýsla við hjá RÚV? „Það er ágæt spurning. Ég hef nú orðað það þannig að mér hafi verið ýtt út í horn. Svona jaðarsettur. Tekinn úr verkefnum eins og lýsingum á stórmótum og þess háttar. Ég var tekinn af sjónvarpsvöktum og settur í að skrifa fréttir á vefinn.“
Að lokum fór svo að Adolf var sagt upp störfum hjá RÚV síðla árs 2013. „Þetta var náttúrlega rosalegt högg þegar þetta kom, eftir að hafa verið þarna í 22 ár, í starfi sem ég sá sem framtíðar- eða ævistarfið. Ég var formaður Samtaka íþróttafréttamanna, í stjórn alþjóðasamtakanna og þetta var líf manns að miklu leyti, fyrir utan fjölskylduna. Allt í einu var þetta horfið og það var helvíti erfitt.“
Adolf þurfti því að finna sér eitthvað annað að gera og það var ekki auðvelt. „Nei, það var ekki auðvelt, þegar maður er 51 árs og sagt upp og ástandið 2013 ekki eins gott og það er núna í atvinnumálum. Ég reyndi talsvert til að finna vinnu, sótti um býsna víða.“ Hann segist hafa upplifað það á eigin skinni að litið sé fram hjá eldra fólki við mannaráðningar. Sem dæmi hafi vinir hans eitt sinn bent honum á starfsauglýsingu sem virtist sniðin að Adolf. „Þeir hringdu í mig og sögðu: „Það er verið að auglýsa eftir þér. Þetta er starfslýsing sem virðist vera hönnuð fyrir þig.“ Ég var sammála því að mörgu leyti, þetta féll alveg að minni reynslu og menntun og þessháttar. Ég henti inn umsókn og var ekki einu sinni boðaður í viðtal.“
Adolf segir að eitt af stóru ráðningarfyrirtækjunum hafi staðið að baki ráðningunni og að hann hafi heyrt að þar líti menn fyrst á kennitöluna og ef aldurinn sé of hár fari umsóknin beint í ruslið. „Í þessu tiltekna tilviki var hreinlega absúrd að ég skuli ekki einu sinni hafa verið boðaður í viðtal, látum nú vera þótt einhver annar hefði verið ráðinn. Þetta var starf hjá ÍSÍ. Framkvæmdastjóri ÍSÍ fullyrti við mig síðar að hún hefði ekki haft hugmynd um að ég hafi verið meðal umsækjenda.“
„Eftir að ég hafði reynt í býsna langan tíma að finna vinnu ákvað ég að búa til mína eigin vinnu.“ Adolf vísar þarna til útvarpsstöðvarinnar Radio Iceland sem hann kom á koppinn og stýrði. En hvernig stofnar maður útvarpsstöð, er það ekkert mál? „Það er talsvert bras. Það kostnaðarsamasta við þetta er dreifikerfið. FM er dýrt, það þarf að setja upp senda hér og þar, annaðhvort þarftu að kaupa þá eða leigja. Þetta var stærsti kostnaðarliðurinn, ásamt launum.“ Á stöðinni voru fjórir til fimm starfsmenn alla jafna. „Það fóru nokkrir mánuðir í undirbúning, að innrétta húsnæði, setja upp stúdíó og tækjabúnað og þess háttar. Svo var þetta loks tilbúið og 16. febrúar 2015 fórum við í loftið.“ Adolf segir að útvarpsstöðin hafi að mörgu leyti gengið upp. „Við gerðum ýmsa ágæta hluti og fengum hellings hlustun, meira að segja hjá fólki utan við markhópinn. Svo var líka hægt að hlusta á okkur á netinu þannig að fólk úti í heimi hlustaði á okkur.“
Radio Iceland varð því miður ekki langlíf útvarpsstöð. „Eins og ég segi, þá var ýmislegt sem við gerðum sem gekk upp. Það sem klikkaði var salan á auglýsingum. Ferðabransinn er svolítið erfiður, það eru svo margir litlir aðilar, og það er erfitt að selja þeim auglýsingar. Stórir aðilar í ferðamennskunni, sem velta milljörðum, þeir hefðu alveg getað keypt eina og eina auglýsingu. En alla vega, þá stóð þetta ekki undir sér og eftir átta mánuði lokaði ég stöðinni. En þá vorum við búin að tapa 25 milljónum.“
Sér hann eftir því að hafa stofnað stöðina? „Ég nenni ekki að sjá eftir hlutunum. Auðvitað vildi ég vera laus við þessar 25 milljónir sem hlóðust á mig þarna, en nei, ég nenni ekki að sjá eftir neinu. Ég vildi reyndar að ég gæti sagt að þetta hafi verið skemmtilegur tími, en því miður var hann það ekki. Hálfum mánuði eftir að við fórum í loftið greindist konan mín með krabbamein. Það var djöfuls högg. Það tók gleðina úr þessu og ánægjuna.“
Adolf segir að um þetta leyti hafi hann brotlent andlega. „Fljótlega upp úr þessu gekk ég í rauninni á vegg. Það var uppsafnað, við getum sagt að það hafi byrjað á síðustu árum mínum hjá RÚV, þá var ég orðinn svolítið kvíðinn og hálfþunglyndur af því að líða illa í vinnunni dag eftir dag. Þannig að ég var heldur viðkvæmari fyrir en ég átti að vera. Svo þegar þetta kemur, maður horfir upp á peningana streyma út úr fyrirtækinu en ekki inn, og konan veikist, já, eins og ég segi, ég hreinlega gekk á vegg. Það endaði með því að konan mín, sem hefur nú yfirleitt vit fyrir mér, fór með mig niður á bráðamóttöku á geðdeildinni þar sem ég fékk viðtal. Svo fór ég til sálfræðings og vann í þessu. En þetta tók tíma. Þetta var orðið það slæmt að ég átti til dæmis erfitt með að velja lög til að spila þegar ég var í útsendingu. Bara að taka ákvörðun um hvaða lag ég ætti að spila næst.“
Adolf segir að aðdragandinn að brotlendingunni hafi verið langur, hann hafi verið orðinn andlega þreyttur og þungur undir lokin hjá RÚV tveimur árum áður. „Undir lokin hjá RÚV var ég orðinn þannig að til dæmis ein frænka mín sagði við mig: „Þú ert hættur að vera þessi glaði Adolf sem maður þekkti.“ Þegar maður kemur heim dag eftir dag, svekktur, reiður og getur ekki talað við neinn um þetta. Fólk var stanslaust að spyrja, af hverju ert þú ekki þarna, af hverju ert þú ekki að lýsa þessu? Meira að segja fólk úti í bæ, ég fór í búðina og maður kom til mín og spurði hvort ég væri hættur hjá RÚV, hann hafi ekki séð mig svo lengi. Það sem er svolítið óþægilegt, og bætist ofan á eineltið, er að þetta er svo opinbert. Þú ert opinber persóna þegar þú vinnur í fjölmiðli. Ég gat varla horft á fréttir eða íþróttir heillengi eftir að mér var sagt upp.“
Við víkjum tali okkar að dómnum sem féll 5. júlí síðastliðinn, þar sem héraðsdómur dæmdi Ríkisútvarpið til að greiða Adolf skaða- og miskabætur vegna eineltis og ólögmætrar uppsagnar. Ég velti því upp við Adolf hvort það hafi ekki verið erfið ákvörðun að leggja í málssókn gegn atvinnurekanda sínum til 22 ára. „Jú. En eitt kvöldið eftir uppsögnina sátum við í stofunni ég og konan, og ég horfði á hana og sagði, veistu ég fer í mál. Ég ætla ekki að láta þetta yfir mig ganga. Hún sagði fínt og var ánægð að sjá í mér baráttuanda í fyrsta skipti í langan tíma. Þannig að ég ákvað að gera þetta. Stuttu seinna varð reyndar breyting innanhúss hjá RÚV, Páll Magnússon hætti sem útvarpsstjóri og Magnús Geir var ráðinn í staðinn. Þá ákvað ég að gefa þessu séns, athuga hvort einhver vilji væri til sátta. Magnús tók strax mjög vel í það en sagði að hann þyrfi að koma sér inn í ýmis mál fyrst og það liðu nokkrir mánuðir. Svo áttum við fundi og áfram lýsti hann miklum vilja til sátta en þegar til kom reyndist engin innistæða fyrir því.“
Var þér ekki svarað eða var þínum tillögum hafnað? „Þeim var bara hafnað. Ég sagði að það sem ég myndi líta á sem sátt væri endurráðning, í gamla starfið. Þá var mér sagt að það væri ekki mögulegt, þetta var eins og einhver sagði pólitískur ómöguleiki. Síðan, nokkrum mánuðum seinna, var Þorkell félagi minn endurráðinn, en honum hafði verið sagt upp um leið og mér. Þannig að það var möguleiki í tilviki Þorkels. Þá ákvað ég að fara alla leið í þessu. Því það er takmarkað hvað maður lætur sparka mikið í sig áður en maður svarar fyrir sig.“
Ég byrja að lýsa því fyrir Adolf að mér sýnist rauði þráðurinn í málinu vera samstarfsörðugleikar eða togstreita milli hans og fyrrum yfirmanns hans hjá RÚV. Adolf hins vegar grípur fram í fyrir mér: „Nei. Við skulum hafa það á hreinu, að það á ekkert skylt við samstarfsörðugleika þegar yfirmaður misnotar vald sitt og aðstöðu til að níðast á undirmanni. Það á ekkert skylt við skoðanaágreining eða togstreitu. Þetta er valdníðsla. Fólk verður að átta sig á að mannaforráð snúast miklu meira um ábyrgð en vald. Þú berð ábyrgð á líðan fólks sem heyrir undir þig. Við verjum stórum hluta ævinnar í vinnunni og ef okkur líður illa þar hefur það áhrif á allt líf okkar. Það er ábyrgðarhluti að hafa mannaforráð og ráða því hvernig fólki líður í vinnunni.“
Niðurstaða dómsins um einelti í garð Adolfs er nokkuð athyglisverð. Þannig taldi dómurinn að sú háttsemi fréttastjóra og mannauðsstjóra RÚV að sinna málinu ekki nægilega og að standa ekki við samkomulag við Adolf um vaktaálagsgreiðslur hafi falið í sér einelti í hans garð. Hins vegar taldist háttsemi eða stjórnunarhættir næsta yfirmanns Adolfs ekki til eineltis samkvæmt skilgreiningu laga, heldur hafi þar verið um skoðanaágreining að ræða. Ég spyr hvort hann sé ekki ósáttur við þá niðurstöðu. „Ég er náttúrlega ekki sammála henni, en ég sætti mig við það. Ríkisútvarpið er dæmt fyrir einelti. Það er gríðarlega alvarlegt, ekki síst fyrir fyrirtæki eins og Ríkisútvarpið, þetta er ekki einhver sjoppa úti í bæ.“ Ég spyr hann nánar út í hvernig hafi verið komið fram við hann á þessum tíma. „Eins og ég segi, ég var jaðarsettur. Það fundu það allir á deildinni og líka jafnvel utan deildarinnar að þetta var ekki í lagi. Fólk sá þetta. Ég var færður til í starfi, var meira að segja færður fýsískt af deildinni, var látinn sitja annars staðar á fréttastofunni, þrátt fyrir mótmæli mín. Þegar ég fékk svo að koma aftur, eftir þrjá, fjóra mánuði, var búið að úthluta öðrum skrifborðinu mínu og ég var án vinnuaðstöðu í átta mánuði. Ég sem hafði þá starfað þarna í rúm 20 ár, þurfti að hoppa á milli skrifborða þegar einhver kom sem ég var búinn að hreiðra um mig hjá. Það var ekki fyrr en eftir að ég var búinn að kvarta margoft að ég fékk skrifborð aftur og starfsaðstöðu. Svona lagað er niðurlægjandi.“
„Eitt augljósasta dæmið um mismunun voru verkefnin erlendis. Stórmótin, hvort sem það voru EM eða HM í handbolta, þetta eru konfektmolarnir í þessu starfi. Á tímabilinu 2010 til 2013 vorum við þrír sem vorum starfandi allan tímann. Í samantekt á erlendum verkefnum okkar þriggja á þessum tíma kom í ljós að annar þeirra fékk ellefu verkefni í útlöndum, hinn fékk þrettán. Ég fékk tvö. Þetta er nokkuð augljóst, þetta var svona. Við þetta bjó ég sumsé í nokkur ár. Hægt og rólega brýtur þetta mann niður, maður missir sjálfstraustið. Ég vildi aldrei líta á mig sem fórnarlamb, er allt of mikill töffari til þess. En svo fann ég allt í einu að sjálfstraustið var farið, ég var farinn að efast um sjálfan mig.“
Þetta er svolítið eins og í fótboltanum, þú varst tekinn úr liðinu og settur á bekkinn? „Akkúrat. Þú sem íþróttamaður getur kannski skilið það hvernig þér líður þegar þú færð þar að auki þau skilaboð frá þjálfaranum að það er skítsama hvað þú gerir, þú ferð ekki inn á. Til dæmis þegar vinnufélagarnir kvörtuðu undan álagi á vöktum, spurði ég hvort við ættum ekki að rótera aðeins, ég væri á þessum vefvöktum frá 9 til 5 og væri alveg til í að taka einhverjar sjónvarpsvaktir. Þá var hreytt í mig: „Þú ferð ekki aftur í sjónvarp.“ Þetta er það sem ég bjó við. Þetta er mannskemmandi.“
Í vitnisburði fyrir dómnum sagði fyrrum yfirmaður Adolfs að hann hefði haft áhuga á stöðunni sem hún var ráðin í en Adolf segir að það sé ekki rétt. „Nei, ég hefði ekki haft neinn áhuga á því. Ég hef aldrei haft áhuga á að sitja inni á skrifstofu frekar en að vinna sem íþróttafréttamaður. Ég vildi vinna sem íþróttafréttamaður en ekki sem millistjórnandi hjá RÚV. Það tel ég ekki vera skemmtilegt hlutskipti. Þannig að ég veit ekki hvaðan hún þykist hafa þetta, þetta er bara kjaftæði.“
Adolf segist hafa verið nokkuð viss um að einhverjar af hans kröfum myndu ná fram að ganga í málinu og er himinlifandi með niðurstöðuna. „Ég vissi að það yrði erfitt að sýna fram á einelti, ekki síst þegar svo langt er um liðið. Þannig að ég er mjög ánægður með að fyrirtækið var dæmt fyrir einelti. Það sem ég taldi hins vegar nokkuð öruggt að myndi vinnast, það var aðgerðaleysi fyrirtækisins eftir kvörtun mína. Fordæmið var Veðurstofumálið, þar sem Veðurstofan var dæmd, ekki fyrir einelti, heldur fyrir aðgerðaleysi. Samt sem áður kallaði Veðurstofan til vinnustaðasálfræðing til að rannsaka það mál og þeir gerðu ýmislegt. En ekki nóg. Ríkisútvarpið gerði ekkert. Nákvæmlega ekki neitt. Þannig að ég var náttúrlega vongóður um að vinna þann hluta af þessu. En svo kom líka dómur fyrir einelti og uppsögnin var að auki dæmd ólögmæt, þannig að þetta var fullnaðarsigur.“
Í málinu gerði Adolf kröfu um rúmlega 10 milljónir króna í bætur en RÚV var dæmt til að greiða honum 2,2 milljónir. Adolf segist ekki ósáttur við það. „Peningarnir skipta ekki máli. Auðvitað myndi ég þiggja nokkrar milljónir, ég tapaði 25 milljónum árið 2015. En þetta snýst ekki um peningana. Hér á Íslandi er ekki hefð fyrir háum bótagreiðslum, guð minn góður, ég held meira að segja að ég fái meira en sumar konur sem hefur verið nauðgað. Ef við værum í Bandaríkjunum værum við að tala um milljónir Bandaríkjadala í bætur í mínu máli, í alvöru. Ég er nú ekki að mæla því bót beinlínis eða að fara fram á slíkt, ég er bara að benda á samhengið.“ Hann telur dóminn vera fordæmisgefandi. „Ég vona að þetta opni leiðina fyrir fólk til að sækja sinn rétt og fólk sjái að það er hægt.“
Á fyrri stigum málsins bauð Adolf þá sátt að málið yrði látið niður falla ef RÚV myndi endurráða hann. Ég spyr hvort hann geti ímyndað sér að bjóða RÚV þá sátt aftur ef málinu yrði áfrýjað til Hæstaréttar. „Ég veit það ekki. Ég veit ekki hvort ég sé fyrir mér einu sinni að vinna aftur sem íþróttafréttamaður eftir þetta langa fjarveru. Það er með þetta eins og annað, either you use it or you lose it. Maður verður að halda sér í æfingu. Ég hef ekki lýst neinu í langan tíma, ég hef ekki fylgst með eins og ég gerði þannig að ég þyrfti eiginlega að byrja upp á nýtt.“ Adolf segist, þrátt fyrir allt, ennþá bera hlýjar tilfinningar til RÚV, að minnsta kosti stofnunarinnar sem slíkrar. „Ég var þarna í 22 ár, vakinn og sofinn. Þetta er skemmtilegasti vinnustaður sem ég hef unnið á, ég vann með frábæru starfsfólki og eignaðist góða vini. Ég sakna þessa alls. Ég ver þetta fyrirtæki, þessa stofnun, endalaust. Þegar menn á samfélagsmiðlum eða annars staðar bölsótast yfir fyrirtækinu svara ég fullum hálsi ef mér finnst gagnrýnin ósanngjörn, því mér þykir alltaf vænt um þetta fyrirtæki. En það er aftur á móti spurning með yfirstjórnendurna.“
Allt sem við Adolf höfum rætt fram að þessu hefur verið merkilegt og þýðingarmikið. Þegar við víkjum að fjölskyldumálum og heilsu og hamingju fjölskyldunnar erum við hins vegar farnir að tala um hluti sem skipta enn meira máli. Á meðan Adolf fór í gegnum umbrotatíma í vinnunni greindist konan hans með krabbamein eins og áður segir. „Ég hef komist að því, eins og sálfræðingurinn minn sagði, lífið er ekki sanngjarnt. Lífið hefur ekkert með sanngirni að gera. Það er engin sanngirni í því að tólf ára barn greinist með hvítblæði. Það er engin sanngirni í því að fólk á miðjum aldri missi vinnuna sína, það er engin sanngirni í því að fólk missi heilsuna. Ég hef séð í kringum mig ofboðslega margt fólk á mínum aldri sem hefur unnið hörðum höndum áratugum saman, búið að byggja upp sitt líf, og ætlar að fara að njóta en þá allt í einu tekur lífið einhverja fáránlega beygju. Auðvitað var ýmislegt sem gerðist á svolítið samþjöppuðum tíma hjá mér og okkur, ég lendi í þessu einelti, missi vinnuna, á erfitt með að finna vinnu, fer síðan í þetta ævintýri með útvarpið og konan greinist með krabbamein. Svo til að bæta um betur tekur það sig upp ári seinna, eftir að við héldum að þetta væri búið og hún fór í gegnum hálfsárslyfjameðferð í vetur sem lauk í vor. Það eru rúmir tveir mánuðir síðan hún kláraði seinni lyfjameðferðina. Þetta hefur verið djöfull töff tími. Það er margt að berjast við en það stærsta eru náttúrlega veikindi hennar, en það virðist ekkert bíta á þessa konu. Hún hefur verið með mér í 39 ár, manneskja sem þolir mig í 39 ár, hún þolir flest.“
Eftir að útvarpsævintýri Adolfs lauk hófst aftur leit að vinnu og eftir að hafa starfað um hríð við afgreiðslustörf var honum boðið leiðsögumannsstarf hjá Arctic Adventures. Hann tók meirapróf og í maí í fyrra fór hann að túra og hefur verið á fullu síðan. „Ég var mikið í tveggja og þriggja daga ferðum um Suðurlandið vetur en í sumar hef ég verið í lengri túrum, fimm eða sex daga hringferðum. Þetta er gríðarlega skemmtilegt. Þetta er svolítið svipað og maður gerði áður, maður bullar fyrir fólk,“ segir Adolf og skellir upp úr. „Þetta er eins og lýsing í sjónvarpi, þú segir frá því sem þú sérð. Þetta eru mannleg samskipti og þrátt fyrir að það hafi verið reynt að halda því fram að ég væri slæmur í mannlegum samskiptum held ég að þau hafi yfirleitt legið þokkalega fyrir mér.“
Adolf segir að honum hafi ekki gefist tími til að fara í Leiðsöguskólann en hann stefnir að því að gera það á næsta ári og hlakkar mikið til þess. Hann segist hafa verið nægilega fróður um landið þegar hann byrjaði að leiða ferðamenn út í náttúruna. „Maður er alltaf að læra eitthvað en sem betur fer hef ég ferðast talsvert um landið. Í öðru lagi er ég enginn krakki lengur, ég á þrjú afabörn. Síðan bý ég að því að ég vann á fréttastofu í meira en 20 ár. Þó að menn líti á okkur íþróttafréttamenn sem nautheimskar boltabullur fylgjumst við með öðrum fréttum og höfum jafnvel áhuga á því sem er að gerast í kringum okkur.“
Þrátt fyrir að Adolf starfi ekki sem íþróttafréttamaður í dag heyri ég að hugur hans er enn að miklu leyti þar. Ég má því til með að heyra frá honum hvað honum finnist um íþróttaumfjöllun á Íslandi og hvernig hún hafi þróast síðustu ár. „Það sem ég vil alltaf sjá betra er málfarið. Alltaf þegar skólahópar eða krakkar komu upp í útvarp í starfskynningu, og spurðu mig hvað þau þyrftu að gera til að verða íþróttafréttamenn, sagði ég ætíð „lærðu íslensku, lærðu málið þitt almennilega.“ Vegna þess að tungumálið er verkfærið sem þú notar í vinnunni. Ef þú hefur ekki vald á því verður þú ekki góður.“ Beinar lýsingar frá íþróttaleikjum voru ær og kýr Adolfs og þar naut hann sín hvað best. Honum líkar ekki hvernig þær hafa þróast á síðustu árum og myndi vilja sjá lýsingarnar hófstemmdari. „Þetta er komið svolítið yfir í öskurkeppni. Þegar þú missir þig algjörlega og öskrar yfir einhverjum tveimur liðum í neðri hluta ensku úrvalsdeildarinnar, hvað áttu þá eftir fyrir stóru stundina? Hvað áttu eftir þegar Ísland skorar sigurmarkið á lokasekúndunni?“
Áður en ég sleppi Adolf rifjum við upp nokkrar af þeim uppákomum og fíflagangi sem hann stóð fyrir eða lét plata sig út í þegar hann var íþróttafréttamaður. Oft var kostulegt að fylgjast með uppátækjum Adolfs sem stundum voru gagnrýnd en oftast var nú hlegið. Ég spyr hann því að lokum hvort hann hafi sagt skilið við sprellið eða hvort hann bjóði upp á einhvern fíflagang í leiðsögustörfum sínum. „Auðvitað reynir maður að skemmta farþegunum af og til og reynir að taka sig ekki of alvarlega. Maður reynir að gera þetta að skemmtilegri upplifun hjá þeim. Stundum fíflast maður aðeins en maður verður að lesa í hópinn og sjá hvað er viðeigandi í hvaða hópi og þess háttar. En jújú, við reynum yfirleitt að hafa svolítið gaman.“
Það verður ekki annað sagt en að Adolf sé trúr þessum lokaorðum, hann stefnir alltaf að því að hafa svolítið gaman. Þrátt fyrir að við höfum í þessu viðtali rætt um erfiða göngu hans í gegnum öldudal og ýmis áföll sé ég Adolf ennþá fyrir mér eins og ég hef gert alla tíð. Brosandi.