Donald Trump yngri, sonur Donalds Trump Bandaríkjaforseta, segist ekki hafa sagt föður sínum frá fundi sínum með rússneska lögmanninum Nataliu Veselnitskayu síðasta sumar þegar kosningabaráttan milli Trump og Hillary Clinton stóð sem hæst. Sagði Trump yngri í viðtali á sjónvarpsstöðinni Fox News að fundurinn í Trump turninum í New York 9.júní 2016 hefði ekki verið merkilegur en í tölvupóstssamskipum hans við aðila í Rússlandi kom fram að útvega ætti kosningabaráttu Trump leynilegar upplýsingar frá rússneskum yfirvöldum sem kæmu sér illa fyrir Clinton.
Sjá frétt: New York Times segist hafa tölvupósta frá Rússlandi til Trump
Athygli vakti að Trump yngri tók umræddum upplýsingum fagnandi með orðunum „I love it“, eða „ég elska þetta“ og virtist það ekki koma honum á óvart að fá slíkt skeyti frá Rússlandi né að í því hafi staðið að upplýsingarnar, sem ekki er vitað hverjar eiga að hafa verið, væru hluti af stuðningi rússneskra yfirvalda við kosningabaráttu núverandi Bandaríkjaforseta.
Í kjölfar fréttaflutnings New York Times í gær staðfesti Trump yngri að fundurinn með Veselnitskayu, Paul Manafort þáverandi kosningastjóra Trump og Jared Kushner tengdasyni forsetans og núverandi ráðgjafa í Hvíta húsinu, hafi átt sér stað. Segir Trump yngri hins vegar að hann hefði verið „tímasóun“:
Þetta voru bara 20 mínútur sem var sóað, sem er synd,
sagði hann við Fox News, þvertekur hann fyrir að hafa rætt fundinn við föður sinn, tilgangur fundarins hafi einungis verið að afla upplýsinga um andstæðing. Demókratar á Bandaríkjaþingi hyggjast kalla Trump yngri fyrir leyniþjónustunefnd þingsins og fara ofan í saumana á málinu.