„Skoðun Álfheiðar er hennar eigin og hana ber ekki að skilja né mála upp sem stefnu Pírata, hvorki í heilbrigðis né menntamálum,“ segir Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, varaþingflokksformaður Pírata vegna ummæla Álfheiðar Eymarsdóttur í dag.
Álfheiður segir á Facebook að einkarekstur í skólakerfinu og heilbrigðisþjónustunni sé eina lausnin til að bæta kjör og starfsumhverfi kennara. Telur hún að hið opinbera sé „glatað“ og gjarnan ófært um að hugsa vel um starfsfólk og ófært um rekstur:
„Hverfarekin heilsugæsla hljómar dásamlega. Samvinnufélög, góðgerðafélög, einkahlutafélög. Fjármunir verða látnir fylgja einstaklingum. Þá myndast eðlileg samkeppni um þetta frábæra starfsfólk og einhver von um eðlileg kjör og manneskjulegri starfsaðstæður. Hjallastefnan getur til að mynda boðið upp á sveigjanlegan vinnutíma starfsfólks í þeirra leikskólum og skólum. Og sveigjanlegan sumarleyfistíma fyrir börn á leikskólum. Hið opinbera sér sér ekki fært um að gera þetta. Á stöku stað er hægt að velja um sumarleyfistíma -en yfir það heila er þetta mjög stíft og kassalaga. Ég ætla ekki að minnast á biðlista og biðtíma í heilbrigðiskerfinu. Því það verður að segjast eins og er. Hið opinbera er ekki best (lesist: glatað, oft ófært um) í rekstri eða að hugsa vel um starfsfólk.“
Ekki eru allir sammála Álfheiði í athugasemdakerfi hennar og hún skömmuð fyrir að vera boðberi frjálshyggju.
Sósíalistinn Gunnar Smári Egilson deilir einnig færslu Álfheiðar og stenst ekki mátið að skjóta á Pírataflokkinn:
„Varaþingmaður Pírata boðar víðtæka einkavæðingu í skóla- og heilbrigðiskerfi. Í Frakklandi er sagt að sá sem heldur því fram að hann sé hvorki hægri né vinstri, sé hægri. Það sannast æ betur á Pírötum. Ekki síst í borginni, þar sem meirihlutinn rekur grimma hægri stefnu a la Viðreisn, en líka á þingi þar sem þingflokkurinn er eiginlega að renna saman við Viðreisn/Samfylkinguna.“
Þórhildur Sunna segir Pírata eiga mjög ítarlega stefnu um báða málaflokkana, sem taki þó ekki afstöðu til einkareksturs, en þau markmið muni hinsvegar illa nást með einkarekstri:
„Stefna Pírata í menntamálum byggir á því að menntakerfi þjóni menntun hvers nemanda og að öllum sé tryggður möguleiki á að stunda nám við hæfi. Ekki er tekin afstaða með eða á móti einkarekstri. Stefna Pírata í heilbrigðismálum segir að kveða skuli á um rekstrarform í heilbrigðisáætlun, en að heilbrigðisþjónusta skuli vera gjaldfrjáls fyrir alla landsmenn, og að lyfjakostnaður vegna langvinnra sjúkdóma skuli ekki leggjast á sjúklinga. Það er heldur ekki tekin afstaða með eða á móti einkarekstri.
Þó ekki sé tekin sérstök afstaða til einkareksturs verður að segja að mörg þeirra markmiða og hugmynda sem finna má í stefnunum verður ekki náð með einkarekstri heldur þarf hið opinbera að koma til og því fer sannarlega fjarri að Píratar “boði víðtæka einkavæðingu í skóla og heilbrigðiskerfi” eins og Gunnar Smári heldur fram.“
Er þetta í annað skiptið í vikunni sem Þórhildur Sunna þarf að svara fyrir ummæli Álfheiðar, en Álfheiður taldi það skjóta skökku við að forsetafrúin Eliza Reid þæði verktakastarf hjá Íslandsstofu, líkt og tilkynnt var um í vikunni. Fannst henni forsetahjónin hafa sýnt dómgreindarleysi.
Vakti sú frétt nokkra athygli, en Þórhildur Sunna sagði í kjölfarið á samfélagsmiðlum að henni þætti ráðningin frábær og sæi enga hagsmunaárekstra í spilunum.