fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Eyjan

Silja Dögg kosin forseti Norðurlandaráðs

Ritstjórn Eyjunnar
Fimmtudaginn 31. október 2019 13:58

Silja Dögg Gunnarsdóttir, Framsóknarflokki

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, var kosin forseti Norðurlandaráðs fyrir árið 2020 á dögunum en Ísland tekur þá við formennskunni af Svíþjóð. Næsta Norðurlandaráðsþing fer því fram í Reykjavík í lok október næsta árs.

Oddný Harðardóttur var kosin varaforseti Norðurlandaráðs.

Forsætisnefnd Norðurlandaráðs er æðsta ákvörðunarvaldið milli hinna árlegu þinga. Forsætisnefndin stýrir og samræmir starf allra nefnda og ráða ráðsins, ber ábyrgð á umfangsmiklum pólitískum og stjórnsýslulegum málum, gerir framkvæmdaáætlun og fjárhagsáætlun og fer með ábyrgð á umfangsmiklum málefnum sem snerta utanríkis- og varnarmál.

Norðurlandaráðsþingið fór fram dagana 29. – 31. okt þar sem stjórnmálafólk frá öllu Norðurlöndunum kom saman í þinghúsi Svíþjóðar í Stokkhólmi. Loftslagsmál, sjálfbærni og þátttaka ungs fólk var meðal annars á dagskrá.

 

Ræðu Silju Daggar má sjá hér að neðan:

Forseti

 

Ég vil þakka ykkur fyrir það traust sem þið hafið sýnt mér og Oddnýju Harðardóttur með því að kjósa okkur í embætti forseta og varaforseta Norðurlandaráðs.

 

Nú eru eflaust einhverjir, sérstaklega þeir sem áður hafa komið á Norðurlandaráðsþing, farnir að líta í kringum sig og leita að prentaðri útgáfu formennskuáætlunar Íslendinga í Norðurlandaráði. Ég verð að hryggja ykkur með því að tilkynna að þið munið ekki finna hana.

 

Við ætlum eftir fremsta megni að reyna að hafa formennsku Íslendinga í Norðurlandaráði 2020 pappírslausa. Við höfum því ekki prentað formennskuáætlunina.

 

Eftir að ég er búinn að ljúka máli mínu ætla ég að biðja þingmenn og aðra þátttakendur á þinginu um að taka upp síma sína, spjaldtölvur eða tölvur og slá inn eitt af þessum fjórum netföngum [benda á skilti sem komið verður með netföngunum]. Þar finnið þið formennskuáætlunina á því tungumáli sem ykkur hentar. Hún er líka aðgengileg í þinggögnum á vef Norðurlandaráðs, norden.org.

 

Yfirskrift formennskuáætlunar Íslands er “Stöndum vörð”. Einhverjum kann að finnast að þetta sé ekki nógu framsækin og uppbyggileg fyrirsögn en staðreyndin er sú að gildi og verðmæti sem við á Norðurlöndum metum mikils eru í hættu um þessar mundir og við þurfum að verja þau.

 

Á síðustu árum hefur verið sótt að ýmsum stoðum lýðræðissamfélags og þeim gildum sem hafa verið ríkjandi í alþjóðasamskiptum frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Jafnframt stendur mannkynið allt frammi fyrir hættulegri þróun og erfiðum úrlausnarefnum í tengslum við loftslagsbreytingar. Loftslagsbreytingarnar ógna líffræðilegum fjölbreytileika sem mun valda ómældum  skaða lífið á jörðinni eins og við þekkjum það í dag.

 

Nú reynir á ríki þar sem lýðræðishefðin er sterk, virðing fyrir mannréttindum og réttarríkinu rótgróin og áhuginn á umhverfisvernd mikill – að vinna saman og standa vörð um grundvallarverðmæti.

 

Í formennskutíð Íslands í Norðurlandaráði 2020 verður lögð áhersla á

 

að standa vörð um lýðræðið með því að berjast gegn upplýsingaóreiðu og falsfréttum sem grafa undan því,

að standa vörð um líffræðilegan fjölbreytileika sem ógnað er af loftslagsbreytingum, mengun og fleiri þáttum sem rekja má til starfsemi manna,

að treysta böndin milli Norðurlandabúa með því að efla tungumálakunnáttu innan Norðurlanda til að stuðla að því að þeir geti í sameiningu tekist á við þessi stóru verkefni.

Forseti,

Á næsta ári verða 100 ár liðin frá því að Danir endurheimtu Suður-Jótland sem þá hafði verið undir yfirráðum Þjóðverja síðan í Slésvíkurstriðinu 1864. Meðan Þjóðverjar réðu landssvæðunum lögðu Danir mikla áherslu á að viðhalda þar danskri menningu og tungu.

 

Eftir sameininguna 1920 hafa þeir unnið að sömu markmiðum gagnvart danska minnihlutanum í Suður-Slésvík í Þýskalandi. Þar hafa ekki síst Íslandsvinirnir Christian Juhl og Bertel Haarder, félagar mínir í forsætisnefnd Norðurlandaráðs verið framarlega í flokki. Nú vona ég að þeir – og aðrir danskir þingmenn – rétti okkur hjálparhönd við að bjarga dönskunni á Íslandi því hún er í hættu – eins og marka má af því að ég flyt þessa ræðu á íslensku.

 

En metnaður okkar snýr ekki aðeins að dönskunni á Íslandi – sem er okkar brú til Norðurlanda. Við þurfum að sjá til þess að norrænu tungumálin sundri okkur ekki heldur sameini. Allir Norðurlandabúar þurfa að fá tækifæri til að kynnast og læra tungumál nágrannalandanna.

 

Við þurfum að geta unnið vel saman og við þurfum að standa saman því verkefnin eru ærin.

 

Útdauði tegunda í heiminum eykst nú hraðar en áður hefur þekkst og ljóst er að tap á líffræðilegri fjölbreytni er að mestu leyti af mannavöldum. Í nýrri skýrslu Sameinuðu þjóðanna um líffræðilegan fjölbreytileika sem kom út í maí 2019 segir að fjórðungur dýra- og plöntutegunda á jörðinni sé í útrýmingarhættu.

 

Á næsta ári er stefnt að því að ríki heims setji sér ný markmið um líffræðilegan fjölbreytileika sem leysa af hólmi Aichi-markmiðin svonefndu frá 2010.

 

Norðurlandaráð samþykkti tillögu á síðasta ári, um að vinna að því að virkja ungt fólk á Norðurlöndum þannig að það geti haft áhrif á mótun nýrra alþjóðlegra markmiða um líffræðilega fjölbreytni 2020. Ráðgert er að halda fundi ungmenna í öllum Norðurlöndunum og svo sameiginlegan norrænan fund í byrjun árs 2020 þar sem samþykktar verða ályktanir um markmiðin sem beint verður til ríkisstjórna og alþjóðasamfélagsins.

 

Íslandsdeild Norðurlandaráðs hyggst á formennskuárinu styðja við þetta starf og aðstoða við að koma ályktunum og ábendingum unga fólksins á framfæri.

 

Við ætlum jafnframt að beina sjónum að líffræðilegri fjölbreytni í hafi, en það er svið sem hefur fengið öllu minni athygli en þróunin á landi.

 

Við ætlum að standa vörð um lýðræðið með því að berjast gegn upplýsingaóreiðu og falsfréttum. Líklegt er að þetta málefni verði mjög í sviðsljósinu á næsta ári þegar forsetakosningarnar fara fram í Bandaríkjunum.

 

Töluvert hefur verið gert til að kortleggja vandann en við ætlum fyrst og fremst að skoða leiðir til að vinna bug á honum, til dæmis með því að efla fjölmiðlalæsi og með því að styrkja stöðu fjölmiðla sem vinna á grundvelli hefðbundinna blaðamennskugilda um trúverðugleika og traust sem mótvægi við falsfréttum.  Norrænu löndin hafa öll beint sjónum að þessu málefni og sérstaklega standa Finnar framarlega og við vonumst auðvitað eftir góðu samstarfi við finnsku landsdeildina og við ykkur öll.

 

Mig langar að nota þetta tækifæri til að þakka Hans Wallmark, forseta Norðurlandaráðs, og Gunilla Carlsson varaforseta fyrir gott starf á formennskuári Svía og sömuleiðis fyrir ánægjulegt samstarf og gagnlegar samræður um ýmis málefni. Ég treysti á að við getum haldið áfram þessu nána samstarfi á næstu ári og hrint í framkvæmd þeim hugmyndum sem við höfum verið að ræða.

 

Jafnframt langar mig að þakka starfsmönnum sænska þingsins, starfsmönnum skrifstofu Norðurlandaráðs og síðast en ekki síst túlkunum fyrir að skapa góða umgjörð utan um fundi okkar þingmanna hér í Stokkhólmi.

 

Eins og ég nefndi í upphafi ætlum við að reyna að hafa formennskuárið pappírslaust. Við ætlum að halda Norðurlandaráðsþing í tónlistarhúsinu Hörpu eins og síðast og þar hafa menn tekið upp metnaðarfulla umhverfisstefnu í öllu því sem snýr að fundahaldi.

 

Verið hjartanlega velkomin í Hörpu, tónlistarhúsið okkar glæsilega, í lok október á næsta ári!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Í gær

Dagfari: Fækkum ráðherrum, stofnunum og aðstoðarmönnum – aðhaldið verður að koma ofan frá

Dagfari: Fækkum ráðherrum, stofnunum og aðstoðarmönnum – aðhaldið verður að koma ofan frá
Eyjan
Í gær

Segir Sjálfstæðisflokkinn slá ryki í augun á millistéttarfólki – Í raun standi til að lækka skatta á hina ríku

Segir Sjálfstæðisflokkinn slá ryki í augun á millistéttarfólki – Í raun standi til að lækka skatta á hina ríku
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 dögum

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Þetta myndi Arnar Þór gera ef hann væri Donald Trump

Þetta myndi Arnar Þór gera ef hann væri Donald Trump
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Snorri vill leggja Fjölmiðlanefnd niður – „Það er bara gert grín að þessu, þetta er bara brandari“

Snorri vill leggja Fjölmiðlanefnd niður – „Það er bara gert grín að þessu, þetta er bara brandari“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Þrumuræða Ingu Sæland vekur mikla athygli – „Ég fyrirlít stjórnvöld sem ætla ekki að taka á þessu“

Þrumuræða Ingu Sæland vekur mikla athygli – „Ég fyrirlít stjórnvöld sem ætla ekki að taka á þessu“