fbpx
Fimmtudagur 21.nóvember 2024
FréttirLeiðari

Ólíðandi úrskurður

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Laugardaginn 2. nóvember 2019 11:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Orð bera ábyrgð. Það er ekki bara hvað við segjum heldur hvernig við segjum það. Í starfi fjölmiðlamanna bera skrifuð orð ríkulega ábyrgð, sérstaklega með tilkomu netmiðla því – eins og öllum ætti að vera orðið ljóst – internetið gleymir engu. Þetta eru fjölmiðlamenn meðvitaðir um og starfa samkvæmt siðareglum Blaðamannafélags Íslands.

Ég, sem ritstjóri DV, gerðist brotleg við fyrrnefndar siðareglur í umfjöllun DV um tiltekinn fanga. Úrskurður í málinu féll í vikunni og var það Afstaða, félag fanga og annarra áhugamanna um bætt fangelsismál og betrun, sem kærði fyrir hönd fangans. Ein umfjöllun DV varð kærð en tekið fram í kærunni að DV hafi „ítrekað“ fjallað um fangann. Það var þó ekki aðeins DV sem fjallaði um þennan tiltekna fanga og voru aðrir miðlar sem sögðu til dæmis fyrst frá því að hann væri skráður á stefnumótaforritið Tinder, þótt hann væri enn í afplánun fyrir hrottalegt morð og það stríddi gegn reglum Tinder að dæmdir einstaklingar fengju að vera með reikning á stefnumótaforritinu.

Kæra Afstöðu var í sex liðum. Þrír liðir voru ekki taldir brjóta gegn siðareglum. Þeir innihéldu til dæmis kvörtun um að blaðamaður hefði nálgast fangann án leyfis Fangelsismálastofnunar, að blaðamaður hefði lýst útliti fangans og að blaðamaður hefði lýst bifreið sem fanginn hefur til umráða. Hinir þrír liðirnir voru taldir alvarlegt brot við siðareglur. Þeir liðir innihéldu kvartanir um að DV hefði birt mynd af fanganum sem tekin var „úr launsátri“, að heimilisfang móður fangans og fötlun bróður hans hafi verið tekin fram og að minnst væri á sjálfsvíg föður fangans.

DV stendur við umfjöllunina um téðan fanga og uppsetningu á henni. Umfjöllunin var lesin margoft yfir, spáð og spekúlerað í framsetningu og orðavali með siðareglur Blaðamannafélags Íslands að leiðarljósi. Því eru það ákveðin vonbrigði að niðurstaðan hafi orðið á þessa leið og í raun setur hún mjög vafasamt fordæmi að mörgu leyti.

Áður en kæra til siðanefndar barst sló Morgunblaðið upp orðinu „umsátur“ í fyrirsögn þar sem Afstaða lýsti yfir óánægju sinni með umfjöllunina. Fyrirsagnir lúta öðrum lögmálum en almennur fréttatexti og eru oft vandlega valdar til að passa inn í knappt pláss. Það er því ekki tilviljun að þetta tiltekna orð hafi verið notað. Í kæru Afstöðu eru orð og orðasambönd eins og „úr launsátri“ og „sitja fyrir einhverjum“ einnig notuð. Í viðtali við Vísi í vikunni í ljósi úrskurðarins talaði Páll Winkel fangelsismálastjóri um „smánun“ fanga. Ég vil ítreka, í eitt skipti fyrir öll, að blaðamenn sitja ekki fyrir fólki, gera ekki eitthvað úr launsátri og gera ekki sitt besta til að smána fólk. Þessi orðræða er algjörlega fráleit, sérstaklega úr munni fólks sem hefur með stjórnkerfi landsins að gera. Þessi orðræða grasserar hins vegar daglega á samfélagsmiðlum og kæfir alla vitræna umræðu sem gæti verið til gagns fyrir fjölmiðlafólk. Við erum ekki hjartalausir siðblindingjar sem mætum til vinnu á degi hverjum með það eitt að markmiði að níða af fólki skóinn. Við sitjum ekki fyrir fólki, við nálgumst það á kurteislegan en ágengan hátt til að afla frétta. Og þetta með að taka myndir úr launsátri, hvenær í veröldinni hefur það verið talið ámælisvert? Það er einfaldlega stundum partur af vinnu okkar og ættu fjölmiðlamenn aldrei að skammast sín fyrir að leita allra leiða til að miðla fréttum úr samtímanum. Aldrei.

Annað sem er afar fordæmisgefandi í dómi siðanefndar varðar upplýsingar sem voru birtar í kærðri umfjöllun DV en höfðu áður birst í opinberum dómskjölum og öllum öðrum fjölmiðlum þegar tiltekinn fangi var handtekinn, hann yfirheyrður og síðar dæmdur í fangelsi fyrir morð að yfirlögðu ráði. Fyrir utan að þessar upplýsingar eru mikilvægur partur af sögu fangans. Þetta veldur ákveðnum áhyggjum. Í hverri viku eru rifjaðar upp fréttir sem eru erfiðar og koma illa við einhvern. Upprifjun úr öðrum miðlum, dómskjölum eða öðrum opinberum gögnum. Ef við refsum og bönnum birtingu slíkra upplýsinga þá er verið að hefta frelsi fjölmiðla til að fjalla heildrænt um málefni og finnst mér hreint út sagt hneisa að slíkar birtingar, eins og í þessu tilfelli, séu taldar alvarlegt brot á siðareglum samkvæmt siðanefnd.

Blaðamenn eiga að gæta þess að valda ekki saklausu fólki óþarfa skaða. Því miður, eðli vinnunnar samkvæmt, gerum við það samt, sama hvað við vöndum okkur mikið. Það eru nefnilega alls konar fréttir sem geta valdið skaða. Skaðaþröskuldur fólks er mismunandi. Þeir sem glíma við ófrjósemi geta fengið sting í hjartað yfir illa skrifaðri grein um manneskju sem hefur eignast tíu börn og er hvergi nærri hætt. Fyrrverandi maki getur orðið leiður, sár og dapur ef fyrrverandi elskhugi birtist á síðum miðlanna með nýjan elskhuga uppi á arminum. Manneskjunni sem sagt var upp í banka svíður yfir endalausum fréttum í öllum miðlum af hópuppsögnum úr bankanum, þótt hún sé hvergi nefnd á nafn.

Þetta er erfið vinna oft á tíðum og allir fjölmiðlamenn eru meðvitaðir um að vanda sig. Stundum verða okkur á mistök, eins og öllum. En ég sætti mig ekki við að siðanefnd míns eigin félags refsi blaðamönnum DV að því er virðist eftir geðþótta og tíðaranda í samfélaginu. Það er ólíðandi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

Segir að Kim Jong-un hafi Pútín að fífli

Segir að Kim Jong-un hafi Pútín að fífli
Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Fyrstu myndir af gosinu úr þyrlu Landhelgisgæslunnar

Fyrstu myndir af gosinu úr þyrlu Landhelgisgæslunnar
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Salka Sól sendir borgarstjóra væna pillu – „Þú situr bara víst við þetta samningsborð Einar!“

Salka Sól sendir borgarstjóra væna pillu – „Þú situr bara víst við þetta samningsborð Einar!“
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Fékk skilorð fyrir kynferðisbrot sem hann kallaði glens

Fékk skilorð fyrir kynferðisbrot sem hann kallaði glens