fbpx
Föstudagur 27.desember 2024
Fókus

Samdi lag í yfirgefnu húsi – Niðurlægður í Foldaskóla: „Hann gerði lítið úr mér ítrekað og fékk bekkinn til að hlæja að mér“

Auður Ösp
Sunnudaginn 10. nóvember 2019 10:00

Eyþór Bjarni Sigurðsson. Mynd: Eyþór Árnason

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eyþór Bjarni Sigurðsson er einn þriggja meðlima hljómsveitarinnar Above The Lights, en sveitin sendi nýlega frá sér sína fyrstu plötu. Lögin er afar persónuleg enda er platan persónulegt uppgjör Eyþórs við fortíðina. Above The Lights samanstendur af Eyþóri, eiginkonu hans, Kolbrúnu Þorsteinsdóttur, og Kristófer Nökkva Sigurðssyni.

Eyþór ólst upp á Egilsstöðum fram að 11 ára aldri en þá flutti fjölskyldan til Reykjavíkur. „Ég man hvað það voru rosalega mikil viðbrigði. Í mörg ár kom ég ekki nálægt tónlist, það var ekki fyrr en ég var orðinn 18 ára að ég byrjaði að fikta við að spila á gítarinn og semja lög. Frá því að ég var lítill hef ég alltaf haft löngun til að skapa tónlist, pabbi minn er trommuleikari og hef ég alltaf litið mikið upp til hans. Ég man eftir mér sem krakki á hljómsveitaræfingum hjá honum og þar var minn stærsti draumur að geta spilað á hljóðfæri og sungið. Ég hef alltaf haft þessa löngun til að tjá mig í listrænu formi hvort sem það er í gegnum myndlist, texta, ljóð eða lagasmíði.“

Eyþór var snemma greindur með mikinn athyglisbrest og ofvirkni en mætti engum skilningi í skólakerfinu.

Hann var einungis 10 ára gamall þegar hann stofnaði sína fyrstu hljómsveit. „Það er svolítið fyndið að segja frá því. Ég eiginlega þvingaði nokkra nágrannastráka til að vera með mér í hljómsveit, þeir voru ekkert neitt rosalega spenntir fyrir því. Þar sem við kunnum nákvæmlega ekkert á hljóðfæri ákváðum við að þetta skyldi vera pönkhljómsveit. Þeir voru látnir lemja á tómar Machintosh-dollur og potta á meðan ég barði á gítarinn og öskraði gjörsamlega úr mér lungun í kjallaranum hjá vini mínum, sem svo óheppilega vildi til bjó á móti öldrunarheimilinu á Egilsstöðum. Mamma vinar míns sem starfaði á öldrunarheimilinu kom hlaupandi yfir til að stöðva þessi óhljóð. Hún skammaði okkur fyrir að hræða gamla fólkið á heimilinu,“ rifjar hann upp. „Þetta var okkar eina og síðasta æfing.“

Eyþór var snemma greindur með mikinn athyglisbrest og ofvirkni. „Ég átti rosalega erfitt með að einbeita mér við nám og átti mjög erfitt með sjálfan mig. Ég var að glíma við mikinn kvíða og vanlíðan á þessum aldri. Það er ekkert grín að vera barn með ADHD og einhver ætlast til þess að maður sitji kyrr í 80 mínútur við að læra, en verður svo reiður ef það mistekst. Þetta er fáránleg nálgun.“

Eyþór telur að í skólakerfinu megi bæta ýmislegt þegar kemur að þjónustu við nemendur með ADHD. „Það er svo margt hægt að gera fyrir börn með ADHD. Í fyrsta lagi þarf að finna hvar þeirra strykleikar liggja og vinna með það.“

Niðurlægjandi reynsla í Foldaskóla

Árið 2017 ritaði Eyþór opið bréf til stjórnar Foldaskóla, og birtust þau skrif í Stundinni. Í bréfinu gagnrýndi hann harðlega sinn gamla grunnskóla og sagðist hafa verið beitur andlegu ofbeldi af hálfu kennara skólans.

Nokkrum árum áður hafði Eyþór beðist afsökunar á slæmri hegðun sinni í skólanum en í bréfinu dró hann þá afsökunarbeiðni til baka þar sem hann taldi að ábyrgðin lægi ekki hjá honum sjálfum.

„Í Foldaskóla var ég beittur andlegu ofbeldi af hálfu kennara. Hann ítrekað sendi mig út í sjoppu til að athuga hvað klukkan væri einungis til að losna við mig og hlaut mikinn hlátur nemenda við það, hann lét mig sitja heilu skólastundirnar við hliðina á sér við kennaraborðið þar sem ég þurfti að horfa framan í samnemendur mína sem glottu, einnig lamdi hann í borðið reglulega með priki og var mjög ógnandi. Hann gerði lítið úr mér ítrekað og fékk bekkinn til að hlæja að mér,“ ritaði Eyþór meðal annars.

Þá sagði hann skólastjórnendur hafa brugðist honum.

„Þetta var mjög niðurlægjandi reynsla. Ég upplifði mig sem vandamál allra í kringum mig, vandamál sem ég átti sjálfur að leysa. En auðvitað gat ég það ekki, þar sem ég hafði hvorki næga innsýn, vitsmunalega getu eða andlegan þroska vegna aldurs. Ég þurfti á hjálp að halda og þið brugðust mér. Kennarar og skólastjórn.“

Þá tók Eyþór fram í bréfinu að í Foldaskóla hafi hann enga viðeigandi aðstoð fengið við ástandi hans eða rétt umhverfi til að geta sinnt náminu.

„Kennarar sýndu mér engan skilning og með sinni óþolinmæði létu þeir mér líða eins og ég væri heimskur og gjörsamlega vonlaus að geta ekki fylgst með eða verið rólegur í tímum,“ ritaði hann jafnframt og bætti við í lokin að hann vonaði að ástandið í skólanum væri skárra í dag.

„Ég fékk frið fyrir hausnum á mér og gat einbeitt mér í fyrsta skiptið á ævinni.“

Mismunandi þarfir

Eyþór segist hafa fengið gríðarleg viðbrögð við bréfinu á sínum tíma. „Það sem ég hef helst gagnrýnt í minni sögu eru viðbrögð fullorðinna einstaklinga sem áttu að vera stuðningur og leiðbeinendur og hvernig skólakerfið hefur brugðist börnum eins og ég var. Ég er svo sannarlega ekki einn um þetta og eftir að ég skrifaði greinina í Stundinni þá fékk ég fjöldann allan af pósti frá fólki sem hafði lent í svipaðri reynslu eða átti einhvern nákominn sem hafði lent í því að vera brotinn niður af skólakerfi sem á að byggja þau upp. Mér finnst bara mikilvægt að það viti það allir að það eru ekki börnin sem eru vandamálið, það er umhverfið sem býður ekki upp á viðeigandi aðstæður til að börn með hinar ýmsu greiningar fái að blómstra. Við höfum öll mismunandi þarfir og skólakerfi sem gerir ekki ráð fyrir því að börn séu alls konar, með mismunandi styrkleika og þarfir, er bara skólakerfi sem er ekki að virka.

Ég hef stundum hugsað til þess enn þann dag í dag, ef að kennararnir hefðu haft trú á mér og hvatt mig áfram, hvað það hefði skipt mig miklu máli á sínum tíma og hvað það hefði gert mikið fyrir mig. Að vísu var einn kennari sem sýndi mér skilning og ég er ennþá sambandi við hann í dag. Ég á henni mikið að þakka fyrir að hafa komið mér í gegnum 10. bekkinn.“

Öðlaðist frið

Eyþór leiddist út í óreglu snemma á unglingsárunum og segir að á sínum tíma hafi það verið lausnin.

„Ég fékk frið fyrir hausnum á mér og gat einbeitt mér í fyrsta skiptið á ævinni. Einhvern veginn fóru næstu árin í það að eltast við þennan frið sem ég fékk í upphafi, en vandinn er sá að það þarf alltaf meira og meira. Fljótlega fór ég að missa tökin á lífi mínu og fór að fara í meðferðir til að ná einhverri stjórn. Það er rosalegt hvernig maður getur misst tökin og maður finnur það innst með sjálfum sér að það er ekki maður sjálfur sem stjórnar ferðinni, heldur fíknin.

Eitt af lögunum á plötunni ber heitið By The Tower en textinn varð til á erfiðum tíma í lífi Eyþórs. „Um 21 árs aldur samdi ég lagið By The Tower í yfirgefnu húsi sem stóð efst á Frakkastíg, rétt fyrir neðan Hallgrímskirkju, Þetta var einbýlishús sem augljóslega hafði ekki verið búið í í mörg ár. Veggirnir voru þaktir veggjakroti og íbúðin tóm. Ég hafði útskrifast úr meðferð nokkrum mánuðum áður en var dottinn í það enn eina ferðina og átti engan samastað.

Ég leitaði oft í þetta hús ef mig vantaði skjól, lagið kom til mín eina nóttina, ég fékk þessa sterku löngun til að fá aðra til að upplifa það sama og ég var að upplifa, einmanaleikann og hvernig ég var lamaður af kvíða og búinn að missa trúna á sjálfum mér. Það hefur tekið mig mörg ár að byggja upp sjálfstraust. Þegar ég hugsa til baka, ætli ég hafi ekki bara þráð skilning eða samhug á þessum tíma, ég þurfti svo sannarlega hjálp. En ég bý að þessari reynslu og hún gerir mig að þeim sem ég er í dag. Það er allavega gott að vera búinn að koma laginu frá sér,“ segir hann og bætir við að umrætt hús sé ekki lengur til staðar.

„Það er búið að rífa húsið núna enda var það í mikilli niðurníðslu, síðast þegar ég kom þangað var búið að gróðursetja tré og setja upp bekki, svo er seldur matur úr einhverjum vagni.“

Eyþór hefur lagt á sig gríðarlega vinnu til að komast á þann stað sem hann er á í dag.

Úr ótta í kærleika

Andleg iðkun og hugleiðsla er það sem bjargaði Eyþóri á sínum tíma.

„Í gegnum andlega iðkun og hugleiðslu náði ég betur tökum á hugsunum mínum og tilfinningum, ég náði loksins tökum á óttanum sem hefur fylgt mér alla ævi, en það tók rosalega á og ég þurfti að aga mig lengi, bara til að ná að sitja í fimm mínútna hugleiðslu. En með tímanum fann ég hvað hugleiðsla og ýmiss konar andleg iðkun eins og jóga, að kyrja möntrur, syngja möntrur, dansa, biðja og svo framvegis  hafði rosalega góð áhrif á mig. Ég fann hvernig óttinn breyttist í kærleika og allt í einu var ég komin með drifkraft í líf mitt sem var ekki lengur ótti og kvíði, heldur ást og umhyggja. En ég þarf að viðhalda þessu með því að iðka á hverjum degi og gefa það áfram. Ég eignaðist líf og það er skylda mín að gefa það áfram til annarra sem þurfa á hjálp að halda, hvort sem um er að ræða fíkla eða einstaklinga með ADHD eða bara hvern sem er. Ég er tilbúinn að hjálpa hverjum sem er að öðlast það sem ég hef öðlast. Ég held utan um hugleiðsluhelgar sem kallast Andvari og margir óvirkir fíklar sem eru leitandi, koma til okkar en auðvitað eru allir velkomnir. Það er mín innsta von að fólk fái að upplifa það hvað hugleiðsla getur gert magnaða hluti í lífi fólks.“

Platan Above The Lights er persónulegt uppgjör Eyþórs við fortíðina. „Það eru svo margar tilfinningar sem eru búnar að vera að brjótast um í mér þessi ár sem ég hef fengið að vera edrú, mörg þessara laga eru samin í upphafi edrúmennskunar þar sem ég er einhvern veginn að fara yfir fortíðina, samskipti mín við aðra, gömul sár, söknuð og svo framvegis. Eins og til dæmis lagið Over the horizon samdi ég ásamt vini mínum Jóni Hafdal og sömdum við lagið til að heiðra minningu æskuvinar sem svipti sig lífi. Þetta er ótrúlega sorglegt lag en á sama tíma fullt af hlýju og ást til hans og von um að við hittumst aftur í næsta lífi. Safe Inside, sem er sungið af Kolbrúnu, fjallar um einstakling sem þráir ekkert heitar en að hlúa að þeim sem er veikur á geði en gengur á sjálfan sig í leiðinni. Quiet and peaceful er bréf til minna nánustu og einhvers konar staðfesting á því að ég sé komin á betri stað.

Þetta er svo rosalega þung plata, en ég bara varð að koma þessu frá mér og ég er rosalega þakklátur þeim sem nenna að hlusta,“ segir Eyþór jafnframt en hann stefnir að útgáfu plötu númer tvö árið með Above The Lights árið 2020. „En ég er eiginlega að lofa því hér og nú að næsta plata, sem við erum að vinna í, verður talsvert léttari, samt ekkert gleðipopp. Bara örlítið léttari.“

Og hann er þakklátur fyrir lífið sem hann á í dag. Hjónin eiga fimm ára brúðkaupsafmæli nú ár en þau eiga saman fjögurra ára dóttur. Fyrir á Eyþór sex ára dóttur og þá á hann fjórtán ára stjúpdóttur og níu ára stjúpson.

„Í öll þessi ár sem ég hef verið edrú hef ég fengið allt sem mig hefur dreymt um, en hef samt þurft að leggja rosalega mikið á mig til ná því, en sumt hefur einhvern veginn bara komið af sjálfu sér. Ég stundum trúi því ekki hvað líf mitt er orðið fallegt og gleymi að vera þakklátur fyrir það á hvaða stað ég er kominn. Ég yndislegustu konu í heimi, fallegt heimili og dásamleg börn. Ég stunda nám og starfa við það sem mig langar til.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Þau giftu sig árið 2024

Þau giftu sig árið 2024
Fókus
Fyrir 2 dögum

Með reynslu af því að keyra við erfiðar aðstæður en smeyk við að gera það á Íslandi

Með reynslu af því að keyra við erfiðar aðstæður en smeyk við að gera það á Íslandi
Fókus
Fyrir 4 dögum

Atli hélt að það væri einhver að elta hann – „Á tímabili var ég alltaf vopnaður hnífum, hnúajárni og með byssur heima“

Atli hélt að það væri einhver að elta hann – „Á tímabili var ég alltaf vopnaður hnífum, hnúajárni og með byssur heima“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Marta fær yfir sig óánægjuskriðu eftir pistil um klæðaburð Ingu Sæland – „Marta Smarta er ekki mjög smart í krítikinni sinni“

Marta fær yfir sig óánægjuskriðu eftir pistil um klæðaburð Ingu Sæland – „Marta Smarta er ekki mjög smart í krítikinni sinni“