Someone Like F… You
Söngkonan Adele sló eigið met á nýlegum lokatónleikum hennar á Wembley í London, þegar hún notaði 56 blótsyrði á einu kvöldi. Fyrra metið átti hún á Glastonbury-hátíðinni árið 2016, en þá notaði hún „aðeins“ 36 blótsyrði.
Adele er alltaf hún sjálf og á milli þess sem hún syngur eins og engill, samkjaftar hún við áhorfendur sína með tilheyrandi hlátrasköllum, ropum og blótsyrðum, svo mikið stundum að sumum finnst nóg um. Aðdáendum Adele er þó nokk sama um fúkyrðaflauminn.
Ballið byrjaði strax þegar Adele hafði lokið við upphafslagið Hello og ávarpaði aðdáendur sína. „Fokk, ég hef aldrei verið svona fokking stressuð á allri minni fokking ævi.“ Síðar sagði hún meðal annars sögu af því þegar padda komst í skóna hennar á tónleikum á Nýja-Sjálandi og helvítið saug úr mér blóðið.“ Einnig hélt hún að poppkornspokar sem salar gengu um með og seldu væru naktar kynlífsdúkkur, „mér fannst það svona útundan mér“. Síðan skellti hún hljóðnemanum á milli brjóstanna á sér og skaut bolum út í mannfjöldann með sérstakri stuttermabolaloftbyssu.
Það verður ekki annað sagt um hana Adele en að þrátt fyrir frægð og frama er hún akkúrat hún sjálf, hvort sem er á sviði eða utan þess, eða eins og Adele sagði sjálf, „dagsdaglega er ég helvíti kúl“.