Samkvæmt kynjabókhaldi RÚV um viðmælendur frétta voru karlar 64% viðmælenda og konur 37%, frá 1. janúar til 30. september 2019. Mun jafnari kynjahlutföll eru í viðmælendaskráningu annarra deilda RÚV:
„Niðurstaðan er í samræmi við stefnu RÚV en mikil áhersla hefur verið lögð á jafnréttismál í starfsemi RÚV á síðustu árum. Skiptingin á árinu í heild er 51% karlar og 49% konur. Sem fyrr eru viðmælendur frétta taldir sérstaklega, þar sem ekki hefur enn verið gerð krafa um algert jafnvægi á þeim vettvangi. Á þriðja ársfjórðungi voru karlar 64% viðmælenda og konur 36% en á árinu í heild er staðan ögn betri eða 63% karlar og 37% konur. Heildarfjöldi viðmælenda er 16.087,“
segir á vef RÚV.
Hér að neðan má sjá tölfræði yfir skiptinguna yfir kyn viðmælenda eftir deildum:
Á vef RÚV segir einnig að stofnunin hafi byrjað að telja viðmælendur sína fyrir fjórum árum og taka saman tölfræði ársfjórðungslega:
„RÚV hefur lagt ríka áherslu á jafnréttismál í starfsemi sinni á síðustu árum. Það endurspeglast í jafnvægi í hópi umsjónarmanna og viðmælenda í dagskrá RÚV en einnig sögunum sem sagðar eru. Frá árinu 2014 hefur verið jafnvægi milli kynja í hópi framkvæmdastjórnar og annarra stjórnenda RÚV. Kynjakvóti var settur á keppendur í Gettu betur og farið hefur verið í ýmis átaksverkefni til að fjölga konum á þeim sviðum þar sem hallað hefur á þeirra hlut. RÚV hlaut gullmerki PWC árið 2017 og jafnlaunavottun um síðustu áramót. Þá hefur RÚV hlotið viðurkenningar þessu tengdar og fjallað hefur verið um árangur RÚV á þessu sviði á vettvangi EBU, Evrópusambands almannaþjónustumiðla.“
Eyjan sendi fyrirspurn til Íslandsbanka af þessu tilefni, um hvort bankinn hygðist hætta að auglýsa hjá RÚV í ljósi kynjahallans hjá viðmælendum fréttastofu, líkt og boðað var að bankinn ætlaði að gera fyrir helgi. Henni hefur ekki verið svarað og ekki náðist í samskiptastjóra Íslandsbanka þegar eftir því var leitað.
Glöggir sjónvarpsáhorfendur hafa eflaust tekið eftir því að auglýsing frá Íslandsbanka birtist milli dagskráratriða í gærkvöldi og því ekki ljóst hverjar fyrirætlanir bankans eru í kjölfar mikillar gagnrýni á þessa hugmynd.
Sjá einnig: Elliði fordæmir hræsni Íslandsbanka vegna kynjahlutfallsins – „Hér er langt seilst í baráttunni“
Sjá einnig: Íslenskir karlmenn brjálaðir út í Íslandsbanka – „Þetta er eins og klerkastjórnin í Íran”
Sjá einnig: Sanna slátrar femínisma Íslandsbanka:„Ætlar bankinn að afnema hraðbankagjöld fyrir fátæku láglaunakonurnar?“