fbpx
Föstudagur 27.desember 2024
Eyjan

Franco fjarlægður úr Dal hinna föllnu

Egill Helgason
Fimmtudaginn 24. október 2019 11:43

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrir svona áratug kom ég í Dal hinna föllnu, Valle de los Caídos, skammt norðan við Madrid, en þar er gröf einræðisherrans Franciscos Franco, gríðarlegt minnismerki, kross sem gnæfir yfir svæðið og kaþólsk dómkirkja og klaustur Benediktsmunka. Franco lagði alltaf áherslu á að hann væri maður kirkjunnar og kirkjan var mestanpart á bandi hans – ólíkt einræðisherrunum Hitler og Mussolini sem voru guðlausir.

Í þessu dalverpi hvíla líka jarðneskar leifar 40 þúsund manna sem féllu í borgarastríðinu spænska sem leiddi Franco til valda. Franco var grafinn þarna við dauða sinn 1975, hann er sá eini sem þar hefur hvílt sem dó ekki í borgarastríðinu.

Mannvirkin í dalnum voru að miklu leyti reist af pólitískum föngum úr borgarastríðinu. Þeir voru hafðir þar í þræla- og nauðungarvinnu, talið er allt að 20 þúsund fangar hafi verið settir í verkið. Yfir svæðinu hvílir einhver mara, maður skynjar ekki annað en depurð og vonleysi. Spánverjar munu seint klára að gera upp hið skelfilega borgarastríð sem tætti landið og þjóðina í sundur. Minningin um það ennþá lifandi í átökunum sem nú eru í Katalóníu.

Kurlin koma líka seint til grafar. Það er enn verið að birta upplýsingar um morð og fangelsanir á hinum drungalegu árum eftir að stríðinu lauk og börn sem voru tekin af foreldrum sínum sem höfðu rangar skoðanir.

En nú er verið að færa Franco úr grafhýsinu. Sósíalistar eru við völd á Spáni og það hefur verið baráttumál þeirra. Það sakar ekki fyrir þá að enn einar kosningarnar verða haldnar á Spáni eftir fjórar vikur. Enginn stjórnmálaflokkur mótmælir þessu heldur að ráði, nema nýr hægriöfgaflokkur sem nefnis Vox. Hinn hægri sinnaði Lýðflokkur, sem löngum hefur verið við völd á Spáni, hefur verið frekar mótfallinn brottflutningum en ætlar ekki að selja sig dýrt í þessu máli í aðdraganda kosninga.

Franco var heldur ólíklegur lýðforingi, hafði ekki mælsku né persónutöfra Hitlers og Mussolini – bandamanna sinna. Hann var smávaxinn, smáfeitur, með útstæð augu, talaði með skrækri röddu. En hann var slóttugur, tókst að verða foringi þjóðernissinna sem höfðu stuðning auðstéttarinnar, landeigenda og kirkjunnar, auk Þjóðverja og Ítala. Sveitir Francos sóttu fram af óstjórnlegri grimmd – en vissulega voru framin fólskuverk á báða bóga í þessu hörmulega stríði.

Franco tókst að halda Spáni fyrir utan seinni heimsstyrjöndina þrátt fyrir þrýsting frá Hitler og Mussolini. Hann var nógu slægur til þess og fyrir vikið náði hann að ríkja til dauðadags 1975, í næstum fjörutíu ár. Þegar Íslendingar byrjuðu að fara á sólarstrendur voru þeir að sækja heim fasistaríki – þar sem kúgunin var þó aðeins farin að slappast. Við andlát sitt endurreisti Franco konungdæmi á Spáni og afhenti ungum prinsi, Juan Carlos, völdin. En Jóhann Karl Spánarkonungur sveik lit og var ekki lengi að stofna til lýðræðis á Spáni.

Stundum er hollt að minnast þess, þegar látið er eins og allt sé að fara til fjandans í Evrópu, að ekki er lengra síðan en þegar ég var drengur að Spánn, Portúgal og Grikkland lutu stjórn fasista, en kommúnistar ríktu í stórum hluta álfunnar.

Og jú, auðvitað er sjálfsagt að fjarlægja bein þessa ómennis úr minnismerkinu. Hér er hann á mynd með Hitler en fyrir neðan er ganga í Salamanca 1937 þar sem falangistar svonefndir ganga með myndir af Franco eða Caudillo eins og hann var nefndur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Gagnrýna tíðar hækkanir á ofurlaunum borgarfulltrúa – „Af hverju gildir hið sama ekki um örorkubætur“

Gagnrýna tíðar hækkanir á ofurlaunum borgarfulltrúa – „Af hverju gildir hið sama ekki um örorkubætur“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Hvað verður um Framsóknarflokkinn? – Hver tekur við forystunni?

Orðið á götunni: Hvað verður um Framsóknarflokkinn? – Hver tekur við forystunni?