Hvaðan komu þau og hvernig hefur þeim reitt af? Hin tignarlegu hreindýr íslenska hálendisins eru til umfjöllunar í þessu tímamótaverki Unnar Birnu Karlsdóttur. Höfundur mun kynna bókina og lesa upp úr henni í útgáfuhófi í Bókabúð Forlagsins á Fiskislóð miðvikudaginn 23. október kl. 17.
Í Öræfahjörðinni segir Unnur Birna Karlsdóttir sögu hreindýra á Íslandi frá því þau voru flutt til landsins á seinni hluta átjándu aldar til dagsins í dag. Bókin er heildstæð hugmyndasaga sem fjallar jafnt um hreindýrin sjálf sem viðhorf landsmanna til þeirra. Sagðar eru sögur af harðri lífsbaráttu á hreindýraslóðum, æsilegum veiðiferðum og misjöfnum tilraunum til hreindýrabúskapar. Ekki má gleyma hreindýrunum sem áður gengu í Þingeyjarsýslu, á Reykjanesskaga og í Fljótshlíð en eru nú horfin af sjónarsviðinu.
Unnur Birna Karlsdóttir gegnir stöðu forstöðumanns Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Austurlandi og lauk doktorsprófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands árið 2010. Hún hefur sent frá sér ýmis fræðirit og fræðigreinar um samband manna og náttúru á Íslandi. Rannsóknin á sögu hreindýra á Íslandi er stærsta verk hennar á því sviði hingað til.
Bókina prýðir fjöldi áður óbirtra ljósmynda.