fbpx
Föstudagur 27.desember 2024
Eyjan

Panamaskjölin – leikna kvikmyndin

Egill Helgason
Sunnudaginn 20. október 2019 12:51

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það má kannski segja að kvikmynd um Mossack Fonseca sé skylduáhorf fyrir Íslendinga – svo mjög sem við tengjumst Panamaskjölunum. En það verður að slá þann fyrirvara að myndin, sem nefnist Laundromat, er langt í frá gallalaus. Þetta er ekki heimildarmynd, og sumpart er maður ekki mikið nær um hvernig skattaskjól starfa, heldur er þetta leikin kvikmynd sem fjallar mest um áhrif falins fjár í skattaskjólum á nokkra einstaklinga.

Fáránleikinn blasir svosem við. Mossack Fonseca er lögfræðistofa sem höndlar með aragrúa af svokölluðum skúffufyrirtækjum. Þau eru í raun ekki nema skráning á blaði eða pósthólf, en stjórnir fyrirtækjanna skipa óbreyttir starfsmenn lögfræðistofunnar. Það er sýnt hvernig kona nokkur, ósköp venjuleg og ekki á háum launum, verður stjórnarformaður ótal fyrirtækja með undirskrift sinni. Við sjáum til dæmis í skjölum sem láku út um Wintris að þar er undirskrift konu að nafni Jaqueline Alexander – hún er skráð „director“. Við nánari rannsókn kom í ljós að Jaqueline Alexander tengdist 17,500 fyrirtækjum, en var engin auðkona sjálf, bjó bara í blokk.

Í þættinum er getið íslensks forsætisráðherra sem segir af sér vegna Mossack Fonseca lekans. Það sýnir hins vegar seinheppni Sigurðar Inga Jóhannssonar að þarna birtist mynd af honum, ekki Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni.

Myndin er brotin upp með innslögum þar sem Gary Oldman í hlutverki Mossacks og Antonio Banderas í hlutverki Fonseca sjást lifa í lúxus, spjallandi um hversu mikill óþarfi er að borga skatta og gjöld eins og sauðsvartur almúginn neyðist til að gera. Þeir eru partur af kerfi sem er utan og ofan við það allt – og sem almenningur á helst ekki að fá neitt að vita af. Allt er þetta á mjög hæðnislegum nótum, en auðvitað er dauðans alvara að baki. Þetta er hulinn heimur þar sem svik og svindl er upphafið í hæstu hæðir, sett í fágaðar umbúðir, framið af snyrtilegum mönnum á fallegum skrifstofum og klætt í orðskrúð.

En er í raun lágkúruleg brotastarfsemi. Myndinni tekst að sýna það. Hún er sýnd á Netflix.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Gagnrýna tíðar hækkanir á ofurlaunum borgarfulltrúa – „Af hverju gildir hið sama ekki um örorkubætur“

Gagnrýna tíðar hækkanir á ofurlaunum borgarfulltrúa – „Af hverju gildir hið sama ekki um örorkubætur“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Hvað verður um Framsóknarflokkinn? – Hver tekur við forystunni?

Orðið á götunni: Hvað verður um Framsóknarflokkinn? – Hver tekur við forystunni?