Samkvæmt nýrri rannsókn vísindamanna við University of Vermont í Bandaríkjunum getur magnesíum komið þeim sem þjást af þunglyndi að gagni. 126 einstaklingar, 50 ára og eldri, tóku þátt í rannsókninni en allir áttu það sameiginlegt að þjást af vægu þunglyndi eða meðalmiklu þunglyndi eins og það er skilgreint.
Hluti hópsins fékk 248 millígrömm af magnesíum á hverjum degi í sex vikur á meðan annar hópur fékk lyfleysu í þennan sama tíma. Rætt var við alla þátttakendur tvisvar í viku símleiðis og þeir spurðir út í líðan sína. Í niðurstöðum rannsóknarinnar, sem birtust í tímaritinu PLOS ONE, kemur fram að þunglyndiseinkenni þeirra sem fengu magnesíum minnkuðu á meðan einkenni hinna minnkuðu ekki. Í niðurstöðunum kemur fram að enginn munur hafi verið eftir aldri eða kyni.
Emily Tarleton, einn þeirra vísindamanna sem stóð fyrir rannsókninni, segir að niðurstöður rannsóknarinnar séu lofandi. Magnesíum sé allt í senn ódýrt, öruggt og skilverkt efni sem getur komið þeim sem þjást af þunglyndi að góðu gagni. Rétt er að ítreka að þátttakendur glímdu ekki við alvarleg þunglyndiseinkenni heldur vægari einkenni.
Svo virðist vera sem þeir þátttakendur sem fengu magnesíum hafi verið ánægðir með niðurstöðuna, en 61 prósent þeirra sögðust ætla að halda áfram inntöku á magnesíum á degi hverjum.