„Ísland er eins og lúpínan,“ hugsaði Svarthöfði með sér er hann tók sopa af morgunkaffinu. „Ægifagurt land, en djöfull sem ég hata þjóðarsálina sem teygir úr sér í allar mögulegar og ómögulegar áttir í æsingi, pirringi og vitleysu. Svo er ekki hægt að uppræta þetta helvíti því það má ekkert segja.“
Svarthöfði er orðinn svo langþreyttur á Íslandi. Svo mikið að hann er meira að segja farinn að skoða falleg timburhús í skandinavískum stíl í uppsveitum Svíþjóðar. Gæti haldið nokkrar hænur. Gaggið í þeim er allavega margfalt þolanlegra en gaggið í þessum helvítis Íslendingum.
Hvert sem Svarthöfði lítur er gagg, nöldur, væl og rifrildi. Svarthöfði má varla opna fréttasíður, dagblöð, samfélagsmiðla eða bara gluggann án þess að vera bombarderaður af hálfvitaskap. Svarthöfði hélt að þetta yndislega sumar myndi kannski setja landsmenn í jákvæðari gír, en svo um leið og haustmyrkrið skall á fylgdi tuðið með.
Svarthöfði hefur á tilfinningunni að Íslendingar séu í gríðarlegri aumingjasamkeppni um hver hefur það verst. Keppni sem ekki hægt er að sigra í því það virðist nánast hver einasti landsmaður hafa það skítt. Og ef hann hefur það ekki skítt þá er tíminn drepinn með því að agnúast út í náungann. Búa til gróusögur og samsæriskenningar. Allt í einu er landið allt orðið að einum, stórum, fúlum heitapotti þar sem allt er glatað.
Svo er þetta ríka fólk náttúrulega bara aumingjar og auðnuleysingjarnir láta ginnast af misgáfulegum skilaboðum úr dægurmenningu um að þeir eigi auðvitað að slátra þeim sem hafa það best. Á internetinu hleypur fólk upp til handa og fóta ef minnihlutahópar, fíklar, langveikir, fatlaðir, millistéttin, fátækir, hinsegin fólk, mæður, feður, systur, bræður, börn og aðrir minna þroskaðir menn eru gagnrýndir. FORDÓMAR, er öskrað á torgum.
Hænurnar í Svíþjóð hljóma þá bara ansi vel. Gott ef Svarthöfði bætir ekki við sig eins og einni gyltu og tveimur hundskvikindum. En kannski er Svarthöfði bara ekkert betri en þið hin fyrst hann eyddi sínum dýrmæta tíma í að skrifa tuð um tuð.