fbpx
Laugardagur 04.janúar 2025
Fréttir

Alræmdur eltihrellir gengur laus á Akranesi: „Ég tók eftir því að nærfötin mín hurfu hægt og rólega úr nærfataskúffunni“

Íris Hauksdóttir
Laugardaginn 19. október 2019 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í kjölfar umfjöllunar DV um eltihrellinn á Akranesi nú í september stígur önnur kona fram með sambærilega sögu. Hún vill njóta nafnleyndar vegna ótta við umræddan mann en hún vill með frásögn sinni styðja við þær staðhæfingar sem koma fram í viðtalinu við Ölmu Dögg Torfadóttur sem lýsti með hrollvekjandi hætti stöðugri áreitni af hálfu mannsins sem hefur elt hana uppi í átta ár. Báðar greina konurnar frá mikilli hræðslu í kjölfar óhugnanlegrar hegðunar mannsins og miklu úrræðaleysi þegar kemur að lögum í málum sem þessum.

Titraði, skalf og stamaði

Saga umræddrar konu hófst fyrir tveimur árum. „Þetta var í maí 2017 og við maðurinn minn vorum í örvæntingarfullri leit að húsnæði. Ég var þarna ófrísk að seinna barni okkar og við bjuggum á vægast sagt óbarnvænum stað í samvist við sprautufíkla sem við fundum reglulega ummerki um í garðinum. Við vildum því eðli málsins samkvæmt komast burtu þaðan sem allra fyrst. Sonur okkar var kornungur og dóttir okkar rétt ókomin í heiminn svo neyðin var mikil. Kona nokkur setti sig í samband við mig eftir að hafa séð ákall frá okkur um húsnæði og sagðist vita um fjögurra herbergja íbúð sem hún vissi að væri laus til útleigu. Hún bauðst til að sýna okkur íbúðina sama kvöld, sem við þáðum með þökkum. Hún tók á móti okkur ásamt eiginmanni sínum og tjáði okkur að sonur þeirra ætti íbúðina. Við vildum strax taka íbúðina og hjónin lofuðu að útbúa leigusamning, síðar myndum við svo hitta son þeirra, skrifa undir og fá lyklana afhenta,“ segir konan. Þótt hún hefði heyrt af eltihrelli á Akranesi bjóst hún ekki við að lenda í honum.

„Það voru háværar sögusagnir um eltihrelli á Akranesi á þessum tíma en okkur grunaði aldrei að það yrði leigusalinn okkar. Íbúðina fengum við leigða, en sjálfur bjó maðurinn í geymslunni og nýtti bílskúrinn undir dótið sitt. Við samþykktum þetta fyrirkomulega enda bráðvantaði okkur íbúð. En svo það komi líka fram þá var faðir mannsins með umboð fyrir undirskrift sonar síns og var hann því líka skráður fyrir leigusamningnum ef ske kynni að eigandi íbúðarinnar yrði ekki í stakk búinn til þess að taka ákvörðun um eitthvað sjálfur.“

Áður en langt um leið hafði leigusalinn samband við hana.

„Svo gerðist það að maðurinn setti sig í fyrsta skipti í samband við mig. Hann kvaðst vera með aukalykil að íbúðinni sem hann vildi láta mig fá. Ég var stödd í vinnunni og bað hann að koma með hann þangað sem hann og gerði. Þetta var bara byrjunin á öllu því sem átti eftir að gerast. Hann fór að hringja í mig á vinnutíma, mæta til mín í vinnuna og fá sér að borða. Að endingu var hann farinn að banka upp á heima, í raun bara til þess að athuga hvort við værum heima en hann var alltaf með einhverja afsökun um að hann þyrfti að kíkja á eitthvað, koma með eitthvað eða ræða einhver mál við okkur. Hann átti það sömuleiðis til að banka upp á hjá okkur að kvöldi til og vilja „kíkja á okkur“, við buðum honum þá yfirleitt bara inn þar sem hann grandskoðaði alla íbúðina eins og hann væri að leita að öryggiskerfi eða öðru slíku. Í hvert skipti sem hann talaði við mig þá titraði hann allur, skalf og stamaði. Hann var farinn að segja fólki að við værum rosalega góðir trúnaðarvinir og spjölluðum oft lengi saman í síma.“

Augljóslega búið að liggja í rúminu

Þegar þarna var komið sögu hafði parið gert sér grein fyrir því hver þessi maður var og hvað hann hefði gert. Það var þó ekki hlaupið að því fyrir ungt fólk með tvö lítil börn að finna sér aðra íbúð þar sem framboð á Akranesi á leiguíbúðum er mjög takmarkað. Seint á síðasta ári tók atburðarásin þó óvænta stefnu.

„Ég tók eftir því að nærfötin mín hurfu hægt og rólega úr nærfataskúffunni. Mér fannst þetta mjög furðulegt enda höfðum við farið í verslunarferð um sumarið þar sem ég keypti óhemju mikið magn af nærfötum. Ég nefndi þetta við manninn minn en hugsaði svo ekkert meira út í þetta. Við fórum svo að taka eftir því að matur úr ísskápnum okkar var farinn að klárast ansi hratt og ein verslunarferð í viku var skyndilega orðin alltof lítið fyrir okkur. Það var svo ekki fyrr en í janúar á þessu ári að ég skaust og sótti manninn minn í afmæli og þegar við komum til baka stóðu dyrnar að íbúðinni upp á gátt. Þetta var stór og mikil brunavarnahurð og því ekki líkleg til að opnast aftur ef henni hafði á annað borð verið skellt í lás. Það voru þó engin ummerki um innbrot og allt á sínum stað. Það var þó augljóslega búið að liggja í rúminu mínu því teppið var komið á gólfið. Ég bý alltaf um rúmið og krossbrá auðvitað við að sjá þetta enda mjög ógeðfelld tilhugsun.“

Léttvæg viðbrögð lögreglu

Parið var á þessum tímapunkti farið að fylgjast vel með ferðum mannsins og fljótlega kom að því að hann bankaði upp á að nýju.

„Hann spurði mig hvort ég væri hætt í vinnunni enda hefði hann ítrekað lagt leið sína þangað og spurt eftir mér, en ekki fengið nein svör. Ég greindi honum frá því að við hefðum ákveðið að slíta leigusamningnum þar sem við hefðum í hyggju að flytja á Selfoss og þaðan til útlanda. Honum þótti þetta miður, sagði okkur að við værum frábærir leigjendur og við mættum alveg hugsa þetta aðeins betur og vera svo í sambandi við hann. Við stóðum engu að síður föst á okkar ákvörðun. Við bjuggum enn í íbúðinni meðan leigusamningurinn var enn í gildi en fljótlega kom nágranni að máli við okkur og spurði hvort maðurinn væri virkilega með aðgang að íbúðinni. Við svöruðum því skiljanlega neitandi, en hann sagðist þá hafa séð manninn bæði úti á svölunum okkar og eins að ganga út úr íbúðinni með fulla poka af mat. Samdægurs fórum við til lögreglunnar á Akranesi og tilkynntum þetta, en mér var skapi næst að kæra hann bæði fyrir innbrot og þjófnað. Lögreglan tók þessu hins vegar á afar léttvægan hátt og sagði orðrétt að þetta væri ekki maður sem við þyrftum að hræðast, hann væri bæði meinlaus og misskilinn og myndi aldrei þora að gera flugu mein. Okkur var jafnframt tilkynnt að vegna nýrra persónuverndarlaga væri það á mjög gráu svæði að setja upp öryggismyndavélar í von um að góma hann, en við gætum vissulega reynt að leggja fyrir hann gildru. Í framhaldi af því ættum við allan rétt á að skipta um skrá á útidyrahurðinni, á okkar kostnað.“

Skiptu um skrá

„Við byrjuðum á því að leggja fyrir hann gildru og fórum að heiman í nokkra klukkutíma,“ segir konan. „Þegar við komum til baka var fullljóst að hann hafi reynt að komast inn, án árangurs. Þar sem lögreglan vildi ekkert gera og okkur óheimilt að setja upp myndavélar vegna persónuverndar ákvað ég að testa hann. Ég stakk sem sé tannstöngli í skráargatið, þegar ég kom heim var augljóst að hann hafi reynt að hamast á hurðinni og greinilega meitt sig því það var blóð í kringum hurðarhúninn. Daginn eftir skiptum við um skrá. Maðurinn minn sendi honum smáskilaboð þar sem hann gerði honum þetta ljóst og það er skemmst frá því að segja að maðurinn brást illa við. Hann varð með öðrum orðum alveg brjálaður og sagði okkur engan rétt hafa til að gera svona lagað. Þarna var orðið mjög stutt í flutninga og við ákváðum að heyra í föður mannsins sem hafði reynst okkur vel. Hann var skiljanlega miður sín yfir því sem við höfðum að segja og sagðist ætla að ræða við son sinn í rólegheitum. Hann sýndi því sömuleiðis fullan skilning að við hefðum þurft að bregðast svona við og hét því að þaðan í frá færu öll okkar samskipti fram í gegnum hann en ekki manninn. Þegar kom að því að taka út íbúðina ákváðum við að ég yrði ekki viðstödd, en ég var á þessum tíma farin að þróa með mér mikinn kvíða gagnvart manninum og vildi alls ekki eiga á hættu að rekast á hann vegna atburðanna á undan. Það kom líka á daginn að maðurinn mætti ásamt föður sínum og þráspurði hvers vegna við hefðum skipt um skrá á hurðinni. Maðurinn minn svaraði honum sem satt var að við vissum fyrir víst að hann hefði síendurtekið brotist inn á heimilið okkar og rænt bæði nærfötum mínum sem og mat úr ísskápnum okkar. Hann þvertók auðvitað fyrir allt saman og öskraði á manninn minn og sagðist krefjast þess að fá að vita nöfn þeirra nágranna sem hefðu borið þessar lygasögur á hann. Maðurinn minn hélt ró sinni allan tímann og bað um að þetta yrði rætt með skynsamlegum hætti, en þá rauk maðurinn út úr íbúðinni. Pabbinn stóð þá löturhægt á fætur og viðurkenndi að hann hafi ekki náð að ræða þessar ásakanir við son sinn og sömuleiðis gleymt að minnast á það við manninn minn að ræða þetta ekki við soninn. Í kjölfarið var maðurinn vistaður inn á geðdeild. Að sögn föðurins tók maðurinn þessum ásökunum afar illa, hann ítrekaði þó að við hefðum reynst yndislegir leigjendur og bað okkur innilega að afsaka hegðun sonar síns og öllu því sem gengið hefði á.“

Auglýsir enn íbúðina til leigu

Konan hætti fljótlega í vinnu sinni og fór á atvinnuleysisbætur en til þess að fá þær í gegn þurfti hún að sinna viðveru á sama stað og fólk sem þarf að mæta í endurhæfingu. Umræddur maður var þar að bíða eftir úrskurði um varanlega örorku. Þegar nær dró fyrirhuguðum flutningum á Selfoss hætti maðurinn skyndilega að mæta í endurhæfinguna og fann sér vinnu á Selfossi, þar sem hann bjó ýmist á gistiheimili eða í húsbíl. Þetta þótti parinu vægast sagt ólíkleg tilviljun.

„Við ræddum við föður hans hvað okkur þætti þetta furðuleg tilviljun. Ég gleymi aldrei svipnum sem kom á föðurinn og orðunum sem hann lét út úr sér: „Ég vona að þetta sé búið núna og hann láti ykkur alveg vera.“ Við sáum hann engu að síður oft á tjaldsvæðinu á Selfossi en hann þekkti bílinn okkar og maðurinn minn var harður á því að ég væri aldrei ein. Við fluttum svo af landi brott í ágúst, en þá hafði maðurinn reynt að hringja í mig án árangurs. Sem fyrrverandi íbúi á Akranesi hafði ég auðvitað heyrt af máli Ölmu en trúði ekki hversu gróft þetta var hjá henni. Ég vona að frásögn mín styrki sögu hennar því hún hefur vissulega þurft að kljást við hann lengst og verst. En ég fæ bara sting í hjartað við að sjá að hann sé enn að auglýsa íbúðina sína til leigu á Akranesi. Ég, rétt eins og hún, flutti af landi brott til að komast burtu, því hann var bókstaflega alls staðar þar sem ég var.“

Ofsóknir eltihrella í átta ár Alma Dögg Torfadóttir sagði sögu sína í DV fyrir stuttu. Mynd: Eyþór Árnason

Vissi ekki að hann væri að áreita fleiri

Sjálf lýsir Alma innlögn mannsins inn á geðdeild sem um ræðir hér að framan með öðrum hætti.

„Hann er búinn að kenna okkur báðum um sama taugaáfallið. Ég hafði ekki hugmynd um að það væru aðrar að lenda í þessu svona alvarlega, en það er engin vorkunn eftir. Ég er svo reið að þetta skuli viðgangast. Ég setti sem dæmi aðvörun inn á Facebook-síðu Akraness þar sem ég vara fólk við að leigja af þessum manni en færslunni minni var eytt. Það er enn fólk þarna sem þaggar svona áreitni niður af hreinni meðvirkni við snaróðan mann. Mér þykir leitt að hafa hrósað lögreglunni í viðtalinu síðast, því hún tekur augljóslega ekki mark á alvarleika málsins. Ég tel mig þekkja lögin nokkuð vel eftir allan þennan tíma en það að þessi kona hafi engan rétt til að verja sig og börnin sín er gjörsamlega galið. Það tók mig fimm ár bara að fá lögregluna á Akranesi til að taka mark á mér. Það þarf að stöðva þennan mann því þetta endar annars bara á einn veg og það er hræðilegt að hugsa til þess.“

Svona þekkir þú eltihrella

*Upplýsingar af vef Stígamóta

Er verið að elta þig, ofsækja eða sitja um þig?

Ofsóknir eru röð aðgerða sem vekja hjá þér ótta og upplifun um að þú sért í hættu. Ofsóknir eru alvarlegar, oft ofbeldisfullar og geta stigmagnast með tímanum. Eltihrellirinn getur verið einhver sem þú þekkir vel eða alls ekki. Flestir eltihrellar hafa farið á stefnumót með eða verið í einhvers konar samskiptum við manneskjuna sem þeir fara svo að ofsækja. Flest eltihrellamál varða karlmenn sem ofsækja konur, en karlmenn ofsækja líka aðra karlmenn, konur aðrar konur og konur ofsækja líka karlmenn.

Dæmi um það sem eltihrellar gera;

Hringja ítrekað í þig, meðal annars bara til að skella á.
Elta þig og birtast á ólíklegustu stöðum sem þú ert á.
Senda óumbeðnar gjafir, bréf, sms eða tölvupóst.
Valda skemmdum á heimili þínu, bíl eða öðrum eigum þínum.
Fylgjast með síma- eða tölvunotkun þinni.
Nota tækni eins og faldar myndavélar eða GPS til að finna út hvar þú ert.
Keyra framhjá eða hanga fyrir utan heimili þitt, skóla eða vinnustað.
Hóta því að meiða þig, fjölskyldu þína, vini eða gæludýr.
Komast að upplýsingum um þig með því að nota opinber gögn, internetið, einkaspæjara, fara í gegnum ruslið hjá þér eða hafa samband við vini, ættingja, nágranna eða vinnufélaga.
Aðrar aðgerðir sem eru til þess fallnar að stjórna þér, elta þig eða hræða þig.

Ef verið er að elta þig, sitja um þig eða ofsækja er möguleiki á að þú:

Óttist hvað eltihrellirinn kemur til með að gera.
Upplifir viðkvæmni, óöryggi og vitir ekki hverjum þú getir treyst.
Upplifir kvíða, pirring, óþolinmæði eða að þú sért komin/n út á ystu nöf.
Upplifir þunglyndi, vonleysi, reiði, sért grátgjarnari og finnist þetta yfirþyrmandi.
Sért stressaðri, eigir erfiðara með að einbeita þér, sofa eða muna hluti.
Glímir við erfiðleika varðandi mat eins og skerta matarlyst, að gleyma að borða eða borða yfir þig.
Að yfir þig hellist endurlit „flashback“, truflandi hugsanir, tilfinningar eða minningar.
Þú sért ringluð/ringlaður, upplifir pirring eða einangrun af því að aðrir skilja ekki hvað það er sem þú óttast.
Þetta eru allt algeng viðbrögð við því þegar eltihrellir er að ofsækja, elta eða sitja um manneskjur.

Ef þú þekkir einhvern sem verið er að ofsækja, elta eða sitja um, þá getur þú hjálpað viðkomandi með því að:

Hlusta á manneskjuna, sýna henni stuðning. Ekki kenna henni um. Muna að hvert tilfelli er ólíkt öðru og leyfa manneskjunni sem verður fyrir ofsóknunum að velja hvernig hún vill bregðast við þeim. Finna einhvern sem hægt er að tala við um aðstæðurnar. Gera varúðarráðstafanir til að gæta eigin öryggis.

Ef þú ert í bráðri hættu, hringdu í 112.

Lokað er fyrir athugasemdir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Guðmundur vill banna þetta á íþróttaviðburðum – „Sendir röng skilaboð til barna og ungmenna“

Guðmundur vill banna þetta á íþróttaviðburðum – „Sendir röng skilaboð til barna og ungmenna“
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Nýr þingmaður Flokks fólksins lætur Þórarin Inga heyra það: „Stundum er gott að hafa vit á því að þegja“

Nýr þingmaður Flokks fólksins lætur Þórarin Inga heyra það: „Stundum er gott að hafa vit á því að þegja“
Fréttir
Í gær

Morðin í Neskaupstað – Alfreð Erling murkaði lífið úr hjónunum með hamri

Morðin í Neskaupstað – Alfreð Erling murkaði lífið úr hjónunum með hamri
Fréttir
Í gær

Ekki gefið upp hvort maðurinn sem féll í sjóinn er í lífshættu eða ekki

Ekki gefið upp hvort maðurinn sem féll í sjóinn er í lífshættu eða ekki
Fréttir
Í gær

FBI gerði óhugnanlega uppgötvun í Airbnb-íbúð hryðjuverkamannsins í New Orleans

FBI gerði óhugnanlega uppgötvun í Airbnb-íbúð hryðjuverkamannsins í New Orleans
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Lavrov hótar Dönum að hervaldi kunni að verða beitt gegn þeim

Lavrov hótar Dönum að hervaldi kunni að verða beitt gegn þeim