Drífa Snædal, forseti ASÍ, sagði í ræðu sinni á formannafundi ASÍ í dag, að Alþýðusambandið myndi ekki samþykkja veggjöldin án þess að nokkuð kæmi í staðinn. Sem kunnugt er hyggst ríkisstjórnin í samvinnu við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu ráðast í 120 milljarða uppbyggingu vegakerfisins og Borgarlínu á næstu 15 árum, hvar veggjöld eiga að standa fyrir 60 milljörðum.
Drífa sagði veggjöldin algerlega óútfærð og því erfitt að vera með þeim eða á móti:
„Ég hef ekki skotið loku fyrir það að veggjöld verði sett upp en það þarf að vera á forsendum jafnaðar, að það vinni ekki gegn okkar markmiðum og komi ekki niður á þeim sem síst skyldi,“
sagði Drífa og lagði til að nýta mætti tilfærslu í gegnum barnabætur og húsnæðisbætur í samhengi við nýja álagningu:
„Hvort sem það eru grænir eða gráir skattar eða hvaða litapallettu við viljum setja á það. Við eigum að vera til viðræðu um að efla barnabótakerfin í samhengi við græna skatta og auðvitað eigum við að þrýsta á um almennilegar almenningssamgöngur, umhverfi og fólki til heilla. En að setja á almennan nefskatt eins og veggjöld sem er íþyngjandi fyrir almenning án þess að nokkuð komi í staðinn er ekki til umræðu.“
Drífa nefndi einnig að óhugsandi væri að ASÍ kæmi ekki að málinu sem snerti heimilin með þessum hætti:
„Við ætlum hreyfingunni sæti við borðið þar sem þessar ákvarðanir verða teknar og það er óhugsandi að taka afdrifaríkar ákvarðanir sem snertir heimilisbókhald fólks án þess að við séum þar. Við þurfum ávallt að vera tilbúin í slíka umræðu sem hreyfing og þá þurfum við líka að hafa rætt málin innbyrðis.“