Karlmaður um fertugt var úrskurðaður látinn í gærkvöldi
Jón Trausti Lúthersson og bræðurnir Marcin og Rafal Nabakowski eru í haldi lögreglu vegna manndrápsins í Mosfellsdal í gær. Karlmaður um fertugt var úrskurðaður látinn á Landspítalanum í Fossvogi í gærkvöld. RÚV nafngreinir mennina.
Fjölmennt lið lögreglu var kallað á vettvang eftir að tilkynning barst um árásina í gærkvöldi. RÚV hefur greint frá því að málið tengdist handrukkun.
Nabakowski-bræður voru fyrr á þessu ári dæmdir í ríflega tveggja ára fangelsi fyrir aðild að skotárás við Leifasjoppu í Iðufelli í Breiðholti í ágúst í fyrra. Marcin var ákærður fyrir að skjóta á bíl fyrir utan sjoppuna og stefna þannig lífi fólks í bílnum í hættu. Rafal var sakfelldur fyrir að stefna lífi og heilsu annarra í augljósan háska með því að hleypa af skotvopni.
Móðir Nabakowski-bræðra, sem eru um þrítugt, ræddi við DV í ágúst og sagði hún þá góða drengi sem þyrftu að hlusta á mömmu sína. „Synir mínir myndu aldrei gera neitt þessu líkt ef þeir væru ekki undir áhrifum. Eiturlyfin hafa gert það að verkum að þeir hugsa ekki rökrétt. Ég vona innilega að þessi harmleikur verði til þess að þeir hugsi sinn gang, fari í meðferð eins og ég hef svo margsinnis beðið um. Þeir þurfa að hlusta á mömmu sína og snúa við blaðinu,“ segir móðir þeirra þá.
Jón Trausti var nokkuð í fréttum hér á landi fyrir nokkrum árum, meðal annars í tengslum við umræðuna um mótorhjólasamtökin Outlaws og Black Pistons. Hann flutti til Noregs á sínum tíma og hafði búið þar í allmörg ár, en samkvæmt heimildum DV hafði hann verið hér á landi í nokkra mánuði áður en atvikið átti sér stað í gærkvöldi .
Í viðtali við DV árið 2011 sagði Jón Trausti að hann hefði stofnað Black Pistons MC hér á landi, en um var að ræða opinberan stuðningsklúbb Outlaws MC. Þar áður var hann forsvarsmaður mótorhjólasamtakanna Fáfnis sem stofnaði til tengsla við Hells Angels.
Jón Trausti var til umfjöllunar í DV árið 2004, en hann var einn þriggja manna sem réðust inn á ritstjórnarskrifstofur DV í október það ár. Tók Jón Trausti annan fréttastjóra blaðsins, Reyni Traustason, hálstaki. Jón Trausti var sumarið 2005 dæmdur í tveggja mánaða fangelsi vegna árásarinnar á Reyni. Hann hefur hlotið fleiri refsidóma vegna ofbeldisbrota.
Fréttin verður uppfærð.