Að ráðast á orsök vandans er inntakið í grein þeirra Hallgríms Sveinssonar bókaútgefanda, Guðmundar Ingvarssonar, fyrrverandi stöðvarstjóra Pósts og síma á Þingeyri og Bjarna G. Einarssonar, fyrrverandi útgerðarstjóra KD á Þingeyri, í Morgunblaðinu í dag.
Vandamálið sem þeir félagar vilja leysa er umferðarteppan í Reykjavík, sem þeir líkja við neyðarástandi, enda hafi vandamálinu verið leyft að grassera í fjölda ára og rifja þeir upp 13 ára gamla grein úr Morgunblaðinu þar sem umferðinni er lýst sem mesta vanda höfuðborgarsvæðisins á þeim tíma. En þar sem Íslendingar séu eins og þeir eru, gerist lítið:
„Við Íslendingar erum sífellt að glíma við afleiðingar af öllum sköpuðum hlutum. En allt of oft dettur engum heilvita manni í hug að takast á við orsök vandamálanna. Skáldið okkar sagði sem svo að í hvert sinn sem komið væri að kjarna máls hlypu Íslendingar út og suður. Hver kannast ekki við það?“
Þeir félagar nefna að á Íslandi séu um 300 þúsund bílar, eða um einn bíll á mann. Þeirri þróun þurfi að snúa við:
„Okkur finnst að í stað þess að byggja endalaus samgöngumannvirki ætti að snarfækka ökutækjum í umferðinni strax. Þá væri tekið á raunverulegri orsök vandans.“
Segja þeir félagar að þetta eigi einkum við í Sæluborginni (Reykjavík) þar sem landsbyggðin þurfi fyrst og fremst að komast upp úr moldarvegunum og huga að þungaflutningum á landi með tilliti til sjóflutninga.
Leggja þeir til að ríkið greiði almenningi fyrir að keyra ekki bíla sína. Má segja að hugmynd þeirra sé eins konar öfug veggjöld, að veggjöldin leggist á ríkið en ekki almenning:
„Við leggjum til að ríkissjóður borgi mönnum fyrir að minnka akstur einkabíla eða aka þeim alls ekki. Með nútímarafrænni tækni ætti að vera hægt að framkvæma þetta auðveldlega. Það er nú fylgst með öðru eins þessa dagana. Hver bíll fengi upphafskvóta um áramót, t. d. 20 þús. km miðað við meðalakstur einhver ár aftur í tímann. Síðan keyrði hann aðeins 10 þús. km á árinu. Ríkiskassinn myndi þá greiða fyrir 10 þúsund km sem ekki voru eknir. Til dæmis 50-75 kr. pr. kílómetra. Þeir peningar myndu fara beint út í hagkerfið í stað þess að festast í steypu, stáli og malbiki og hvaðeina því tilheyrandi. Þetta eru að sjálfsögðu frumhugmyndir til umræðu. Á þeim geta verið ýmsar útfærslur með skynsemina að leiðarljósi.“
Þetta er nokkuð nýstárleg hugmynd, sem lítið hefur verið rædd hér á landi svo vitað sé til. Enda segja þeir félagar að hugmyndin sé geggjuð:
„Lýsingarorðið geggjaður er mjög vinsælt um þessar mundir. Og er rétt að spekingarnir að vestan slái nú fram rétt einni geggjaðri hugmyndinni til umhugsunar fyrir landsmenn og ráðamenn þeirra. Við höfum nokkra reynslu af slíkri hugmyndavinnu og er alveg ókeypis hjá okkur!“
Þeir Hallgrímur, Guðmundur og Bjarni nefna að þjóðhagslegur sparnaður yrði gífurlegur með slíkum aðgerðum og þörfin fyrir kostnaðarsöm samgöngumannvirki myndi minnka, sem og viðhald vega. Þá myndi umferðarslysum fækka og almenningur hefði meira til handanna. Þá væri hægt að fjölga strætisvögnum og ferðum, og hafa þær ókeypis. Sömuleiðis myndi ríki og sveitarfélög stuðla að ódýrari leigubílaþjónustu, og fella niður öll gjöld af reiðhjólum:
„En mesti ávinningurinn af þessari geggjuðu hugmynd er rúsínan í pylsuendanum: Það er auðvitað aðlögunin gegn komandi hörmungum sem allir vita hverjar eru. Um 95% sérfræðinga um heim allan eru sammála um að við séum á beinni leið til glötunar að óbreyttu. Ef unga fólkið fattar það ekki er vá fyrir dyrum, hvernig sem á er litið.“
Ljóst er að hugmyndir þeirra félaga að vestan ættu að eiga vel upp á pallborðið hjá borgarmeirihlutanum í Reykjavík, enda ríma þær að miklu leiti við stefnu hans um að minnka umferð.
Miðað við dæmi þeirra félaga fær hver bíll 20.000 kílómetra kvóta. Greitt yrði fyrir þá kílómetra sem ekki eru keyrðir og eru því afgangs.
Samkvæmt Samgöngustofu eru um 267 þúsund fólksbílar á götum landsins og er meðalakstur þeirra 12.700 kílómetrar á ári.
Miðað við þann kílómetrafjölda, þyrfti ríkið að greiða viðkomandi 635 þúsund krónur fyrir hina óeknu kílómetra, ef miðað er við 50 krónur per kílómetra.
Ef 50 þúsund manns tækju upp á þessu á einu ári, yrði kostnaðurinn fyrir ríkið tæpir 32 milljarðar.
Að sama skapi er áætlað að setja minnst 120 milljarða í bættar vegasamgöngur á næstu 15 árum á höfuðborgarsvæðinu og að almenningur greiði fyrir það að hluta með veggjöldum, en kostnaðurinn við að koma upp eftirlitskerfinu mun hlaupa á milljörðum króna einnig.
Það er peningur sem myndi sparast að mati þeirra félaga að vestan, þar sem færri bílar á götunum þurfa ekki öll þessi mannvirki.