Þvottabirnir geta borið með sér sníkjudýr sem er hættulegt fólki. Þetta sníkjudýr getur borist í fólk í gegnum saur þvottabjarna og berst víða um mannslíkamann og á endanum upp í heilann og veldur þá heilaskaða og getur orðið fólki að bana.
Þvottabirnir eru einnig góðir í að klifra og því stafar fuglum og eggjum þeirra hætta af þeim, bæði á jörðu niðri og uppi í trjám. Mikið er af þvottabjörnum í Þýskalandi en þar eru um 100.000 skotnir árlega.
Samkvæmt fréttum danskra fjölmiðla óttast dönsk yfirvöld nú að þvottabirnir nemi land fyrir alvöru í Danmörku. Fram að þessu hefur einn og einn þvottabjörn slæðst til Danmerkur en ekki að sjá að þeir hafi tekið sér bólfestu af alvöru ennþá. Um 20 þvottabirnir eru skotnir árlega um allt land en talið er að dýrin hafi verið gæludýr en hafi síðan verið sleppt laustum.
Á sunnanverðu Jótlandi, sem er landfast við Þýskaland, er ekið á nokkra þvottabirni árlega. Þeir hafa þá slæðst yfir landamærin og má vænta þess að sífellt fleiri fylgi í kjölfarið eftir því sem stofninn vex í Þýskalandi.