Hópur fólks hefur síðustu vetur neyðst til að búa í húsbílum og hjólhýsum á tjaldsvæðinu í Laugardal vegna hás leiguverðs og íbúðaskorts á höfuðborgarsvæðinu. Tjaldstæðin sem ætluð eru til langtímaleigu eru afmörkuð og aðskilin frá því svæði sem er ætlað ferðamönnum. Nýverið tók gildi samningur um að Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur sæi um rekstur langtímasvæðisins en Farfuglar ses., sem hefur undanfarin ár annast rekstur tjaldsvæðisins, heldur áfram rekstri ferðamannasvæðisins. Við tjaldsvæðið stendur gistiheimilið Reykjavík City Hostel sem er á vegum Farfugla.
Með aðkomu ÍTR eru íbúar á tjaldsvæðinu í Laugardal, sem eru á samningi til langtímaleigu, þó misbjartsýnir en vongóðir um breytingar í hátterni og umsjón með svæðinu. Að sögn margra þeirra hefur ástandið lengi verið óboðlegt og til skammar.
DV átti samtal ýmsa einstaklinga vegna málsins; þar á meðal tvo fyrrverandi leigjendur á svæðinu, móður sem býr þarna enn og starfsmann á vegum Farfugla sem gegnir hlutverki varðar og gætir þess að fólk svindli sér ekki inn á svæðið. Eftir samtal við þessa einstaklinga er ljóst að fólk dvelur þarna af ólíkum ástæðum, flestir vegna erfiðra aðstæðna á leigumarkaði en aðrar ástæður voru einnig nefndar. Allir íbúar á tjaldsvæðinu höfðu rafmagn til að kynda upp hjá sér en virðast allir vera sammála um að slæmt aðgengi á salernið sé vandamál og almenn umgengni, bæði ungs fólks og ferðamanna.
Umræddir einstaklingar kusu allir að halda nafnleynd, vegna ólgu á milli leigutaka og forsvarsmanna Farfugla, en vörðurinn fullyrðir að reglulega komi upp mál vegna neytenda eiturlyfja og skemmdarverka á svæðinu. Vörðurinn er á vakt til klukkan 23.30 og því er ekkert eftirlit með svæðinu eftir þann tíma og fram til næsta morguns. Það sama gildir um þjónustuhúsið á tjaldsvæðinu, en þar er aðgengi að matsal og hjartastuðtæki, svo dæmi sé tekið.
Einn af fyrrverandi leigutökunum fyrrnefndu stendur í málaferlum við Farfugla og að sögn hans hefur það lengi tíðkast að fólk svindli sér inn á svæðið eftir miðnætti og komi sér burt næsta morgun áður en næsti vörður kemur á vakt, til að forðast næturgjald.
Annar heimildarmaður, sem kallar sig Grétar, segir það furðulegt að ekki sé búið að girða af tjaldsvæðið fyrir fólk í búsetu, í ljósi þess að ekkert eftirlit sé þegar utanaðkomandi ungmenni valda skemmdum á svæðinu, tjaldvögnum eða hjólhýsum. Slíkt kemur ítrekað fyrir og segir Grétar að helst þyrfti að girða af svæðið þar sem Farfuglar bera ekki ábyrgð á tjóninu. Grétar vill einnig meina að skortur á eftirliti leiði til þess að margir ferðamenn þverbrjóti skráða reglu um að það þurfi að vera að lágmarki fjögurra metra bil á milli tækja, meðal annars vegna brunavarna. Þetta hefur verið tilkynnt til Eldvarnareftirlitsins en ekkert verið gert í því, sem Grétar segir varða við lög.
Annar heimildarmaður sem rætt var við, sem kallar sig Róbert, segir umgengni ferðamanna og utanaðkomandi á tjaldsvæðinu vera ógeðfellda og salernisaðstöðu sérstaklega ekki vera óvinum bjóðandi, að Farfuglar sinni takmörkuðum þrifum. Þetta segir hann vera sérlega óþægilegt fyrir barnafólk í langtímaleigu, ekki síst þegar kaldur veturinn gengur í garð.
„Þegar hálkan er komin er enginn á vegum gistiheimilis sem saltar stéttirnar og því getur verið lífshættulegt að koma sér á klósettið þegar veturinn er sem verstur. Ekki bætir úr skák að það sé enginn hiti eða einangrun í salernishúsunum. Maður verður fárveikur af því að gera þarfir sína á morgnana um hávetur og það ætti ekki að vera svo dýrt að koma fyrir plexígleri eða einhverjum fjanda til að gera þetta boðlegra,“ segir Róbert. „Allan ársins hring er svæðið morandi í ferðafólki og er ómögulega hægt að skilja hvert peningarnir fara. Þeir fara ekki í þrifnað, utanumhald eða starfsfólk.“
Þá segir Róbert að leigutakar hafi ítrekað haft samband við Heilbrigðiseftirlitið en ekkert hefur bólað á svörum. „Það þýðir ekki annað en að ganga í sandölum um þetta svæði. Ef þú slysast til að ganga berfættur um klósett- eða sturtusvæðið ertu einfaldlega kominn í þá hættu að fá fótasveppi, eins og kom fyrir einn sem bjó með okkur,“ segir hann. „Umgengni ferðamanna er ekkert skárri heldur og það hefur margoft komið fyrir að fólk sé ríðandi þarna á klósettunum. Þetta er allt opið og eftir miðnætti vaktar þetta enginn.“
Í samningi leigutaka á langtímasvæðum kemur fram að ekki skuli bera erindi eða ábendingar upp við starfsfólk Farfugla. Grétar segir málið hins vegar snúnara og mega umræddir leigutakar ekki njóta aðgengis á veitingasvæði eða kaffihúsi gistiheimilisins yfirhöfuð. Þeim er neitað afgreiðslu.
Leiguverð á langtímasvæðum er 43 þúsund krónur á mánuði en við bætast 15 þúsund krónur ef maki fylgir með. Innifalið í þessu verði er notkun á plássi, rafmagni, salernis- og þvottaaðstöðu. Hins vegar kostar hver notkun á þvottavél og þurrkara – hvort um sig – 700 krónur hvert skiptið.
„Sum okkar eru ekki í góðri fjárhagsstöðu og samkvæmt þessum samningi höfum við rétt á því að stíga inn á svæðið þar sem okkur er sagt að greiða fyrir þvottinn. Að segja að þvottaaðstaða sé innifalin í verði er fáránlegt,“ segir ein móðirin sem búsett er á svæðinu.
Áður en Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkurborgar tók við svæðinu stóð til að loka fyrir langtímaleigu í kringum síðasta vetur. Samkomulag náðist við rekstraraðila tjaldsvæðisins um að langtímastæðin yrðu opin til 15. maí þegar rekstur fyrir ferðamenn hefst og sumargjaldskrá og hefðbundnar reglur um leigutíma taka gildi.
„Það átti að hrekja okkur út af svæðinu, en við högguðumst ekki. Þetta endaði með stríði og miklum leiðindum við forsvarsmenn Farfugla, sem á endanum sáu að við ætluðum ekki neitt. Á endanum fengum við endurnýjun á samningi yfir veturna en margir sem eru þarna enn hafa samt engan stað til að sækja á sumrin. Þau eiga að koma sér burt svo ferðamennirnir geti séð hvað Ísland er æðislegt. Forsvarsmenn Farfugla líta niður til fólksins sem leigir þarna, það er oft stimplað sem „hyskið í Dalnum“,“ segir Róbert.
DV ræddi í fyrrahaust við Einar Gunnar Birgisson, öryrkja á sextugsaldri, sem lenti illa í stríðinu svonefnda við forsvarsmenn Farfugla þegar til stóð að loka svæðinu síðasta vetur. Að sögn Einars eru hjólhýsi lausn sem borgaryfirvöld hafa litið fram hjá og þykir honum miður að fólk í hjólhýsagörðum sé oft álitið vera hyski. Einar segir fólk sem býr í hjólhýsum oft sett sem hliðstæðu við vandræðafólk, þetta svonefnda „trailer trash“.
Einar telur þessa staðalmynd yfirleitt litaða af svæðum þar sem ekki eru gerðar miklar kröfur til góðrar umgengni. Hann segir að hjólhýsagarðar þurfi að búa yfir sambærilegum umgengnisreglum og fjölbýlishús til að allt gangi upp og leyna þau mörg á sér víða um heim.
Róbert tekur undir þessi orð og segir að forsvarsmenn Farfugla geri lítið í eigin valdi til að betrumbæta ímynd fólks sem býr í tjaldvögnum og hjólhýsum. „Það er eins og þau vilji gera okkur að hyskinu með öllu aðgerðarleysinu. Þeirra hugarfar hefur einfaldlega verið: „Ef þér líkar þetta ekki, geturðu farið eitthvert annað,“ sem er ekki í boði fyrir suma. Hvað eigum við að gera?“
Þá ræddi DV við Þorstein Jóhannsson, framkvæmdastjóra Farfugla, sem þekkti vel til ástandsins og segir þrifþjónustuna hafa verið aðkeypta síðustu árin og verður notast við sömu þjónustu á næstunni.
„Það er mismunandi hvernig það er og fer eftir fjölda ferðamanna, eða jafnvel veðri, hvort verði fljótt skítugt. Þjónusturýmið hefur verið að miklu leyti lokað á veturna. Svo höfum við haft takmarkað aðgengi á salerni og sturtu fyrir langtímaleigjendur,“ segir Þorsteinn, sem staðfestir að veitingasvæði gistiheimilisins sé aðeins ætlað ferðamönnum og kúnnum, sé það ekki ætlað gestum og gangandi og eigi það einnig við um leigutaka á langtímasvæðum.
Í fyrrasumar var haldinn aukafundur í borgarráði, en þar voru meðal annars gerðar tillögur til að lækka gjöld á langtímaleigu hjólhýsa í Laugardalnum. Enn fremur var rætt um að koma upp nýju neyðarskýli fyrir haustið. Eyþór Arnalds, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, hefur lengi vonast til þess að breytingar verði gerðar í málefnum þessa hóps og segir niðurstöður fundarins hafa verið jákvæðar. Í samtali við DV segir Eyþór málið enn vera í vinnslu, en að á dagskrá sé að virða þessar kröfur fólks með betri salernisaðstöðu svo dæmi sé tekið, og sé þetta ákveðið neyðarúrræði. „Tjaldsvæðið í Laugardalnum er ákveðin birtingarmynd húsnæðisvandans,“ segir hann.
„Borgin hefur verið að taka þetta meira alvarlega. Fram að síðustu kosningum var eins og þetta kæmi borginni lítið við en niðurstaðan núna er sú að langtímaleigan fái að halda áfram og verði gjaldið ekki hækkað.“
Að sögn Eyþórs hefur húsnæðisvandi fólks aukist töluvert frá árum áður og virkilega þurfi að betrumbæta aðstæður í Laugardalnum á allan veg.
„Borgin tók ekki á þessum málum áður, en þeir flokkar sem hafa verið í minnihluta undanfarið telja þetta ástand vera mikið forgangsmál. Okkur þykir mikilvægt að leigutakar, sem hafa ekki önnur úrræði, fái að vera þarna allan ársins hring. Það hefur smám saman verið að breytast hjá borginni að ekki hafa þetta svæði eingöngu fyrir túristana.“