fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Eyjan

Þorsteinn segir samgöngusáttmálann hanga í lausu lofti – „Kjósendum sýnd innistæðulaus ávísun“

Ritstjórn Eyjunnar
Þriðjudaginn 1. október 2019 17:30

Þorsteinn Pálsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra Sjálfstæðisflokksins og einn stofnenda Viðreisnar, segir samgöngusáttmálann vera skynsama og hófsama stefnu um uppbygginguna sem framundan er á höfuðborgarsvæðinu í pistli á Hringbraut.

Hann segir hinsvegar að sáttmálinn lýsi ekki miklum stórhug þar sem hann sé gerður til 15 ára og þá gagnrýnir hann fjármögnun verkefnisins sem hann segir hanga í lausu lofti:

„Gallinn við þessa gjöf Njarðar er aftur á móti sá að engar ákvarðanir hafa verið teknar um fjármögnun veigamikils hluta hennar. Í stað þess er kjósendum sýnd innistæðulaus ávísun. Raunverulegar ákvarðanir um fjármögnun á að taka síðar. Þar til sú stund rennur upp er sáttmálinn bara sameiginleg viljayfirlýsing. Framkvæmd stefnunnar hangir í lausu lofti jafn lengi og fjármögnunin hangir í lausu lofti.“

Merkileg pólitísk hlið

Þorsteinn segir ekkert liggja fyrir um að innan ríkisstjórnarflokkanna sé neitt samkomulag um leiðir til að fjármagna uppbyggingahugmyndirnar í sáttmálanum og segir það óábyrgt verklag. Það stangist á við kjarasamninga.

Þorsteinn nefnir einnig að það sé ekki allskostar rétt að Sjálfstæðisflokkurinn sé að fjármagna kosningaloforð Samfylkingarinnar, líkt og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, hélt fram. Það sé ekki tekið á því í áætluninni. Hinsvegar sé verið að viðurkenna hugmyndafræði Samfylkingarinnar, sem studd sé af sjálfstæðismönnum í meirihlutum nágrannasveitarfélaganna, en ekki minnihlutans í Reykjavík og af Morgunblaðinu.

„Með þessu samkomulagi er málefnagrundvellinum kippt undan minnihluta sjálfstæðismanna í borgarstjórn Reykjavíkur sem helst hefur byggst á því að vera á móti borgarlínu. Það er merkileg pólitísk hlið á málinu.“

Armslengdarfjarlægð

Þorsteinn nefnir að samkomulagið geri ráð fyrir því að stofnað verði sérstakt félag um framkvæmdirnar:

„Það fær heimildir til lántöku og gjaldtöku. Engin lýsing fylgir þó hvernig pólitískri og fjármálalegri ábyrgð þessa félags verður háttað. Þetta er alvarleg brotalöm. Félag sem stofnað var um Hvalfjarðargöngin stóð sig vel. En það eru líka önnur og nýlegri dæmi sem ekki er unnt að horfa framhjá. Um jafn mikilvæga og þarfa framkvæmd eins og Vaðlaheiðargöng var stofnað gervifélag þar sem pólitískri ábyrgð þáverandi fjármálaráðherra var komið fyrir í armslengdarfjarlægð,“

segir Þorsteinn og nefnir í lokin að það sé kannski ekki ætlunin að félagið verði gervifélag án ábyrgðar, en…:

„…það vantar eitthvað í samkomulagið til þess að sannfæra fólk um að þetta verði öðruvísi.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Í gær

Þorsteinn Pálsson leiðréttir Össur: Nei, Össur, það er ekki Viðreisn heldur Samfylkingin sem hallar sér til hægri

Þorsteinn Pálsson leiðréttir Össur: Nei, Össur, það er ekki Viðreisn heldur Samfylkingin sem hallar sér til hægri
Eyjan
Í gær

Segir fund með Grindvíkingum sláandi – „Það er orðið svo þreytt að segja að hugur manns sé hjá þeim“

Segir fund með Grindvíkingum sláandi – „Það er orðið svo þreytt að segja að hugur manns sé hjá þeim“