Öll þekkjum við einstaklinga sem eru öðrum snjallari að sjá hagnaðarvon við ólíkustu tækifæri. Þannig barst blaðinu frásögn manns sem beið í röð eftir kerru í Costco á dögunum.
Hann sá konu eina vera að klára að koma vörunum fyrir í bílnum sínum, gekk að henni og óskaði eftir kerrunni. Sú brosti út að eyrum þegar hún tilkynnti að verðið væri 1.500 krónur. Maðurinn hváði og sagði að það kæmi ekki til greina að hann borgaði uppsett verð.
„Ekkert mál, það eru aðrir til í það,“ sagði viðskiptakonan glúrna og arkaði á brott með kerruna.