Fréttablaðið skýrir frá þessu. Haft er eftir Geir Gestssyni, lögmanni þrotabúsins, að ekki liggi ljóst fyrir hvort það muni höfða fleiri dómsmál á hendur Magnúsi.
Hin meintu fjársvik hans eru enn til rannsóknar hjá embætti héraðssaksóknara.
Fréttablaðið segir að nýjasta stefnan snúi að málefnum fyrirtækisins Stakksbrautar 9 sem Sameinað silíkon hf. yfirtók í byrjun desember 2014. Tveimur vikum síðar lét Magnús fyrirtækið greiða 77 milljóna króna reikning frá hollensku fyrirtæki, Silicon Mineral Ventures. Í stefnunni kemur fram að reikningurinn sé falsaður og að peningarnir hafi verið notaðir til að greiða upp lán Tomahawk Development á Íslandi hf. við Silicon Mineral Ventures sem var í eigu Magnúsar. Magnús er einnig sagður hafa látið Stakksbraut 9 greiða rúmlega milljarð inn á reikninga hollenska fyrirtækisins Pyromet Engineering í 26 greiðslum. Hollenska fyrirtækið var stofnað skömmu fyrir fyrstu millifærslunar og slitið rétt eftir þá síðustu.
Fréttablaðið segir að í stefnunni komi fram að engin bókhaldsgögn fyrir Stakksbraut 9 hafi fundist og er því haldið fram að Magnús hafi látið farga þeim. Einnig kemur fram að hann fari huldu höfði til að forðast kröfuhafa sína. Blaðið segir að hann fari þó alls ekki huldu höfði á samfélagsmiðlum þar sem hann birti myndir af ferðalögum sínum og unnustu sinnar, þar á meðal til Íslands. Magnús er einnig sagður stunda umfangsmikla útleigu á einbýlishúsi sem hann á í Kópavogi án þess að hafa sótt um tilskilin leyfi fyrir þeirri starfsemi.