Yfir fimm þúsund friðarteikningar barna frá um 128 löndum voru til sýningar í hinu víðfræga hringleikahúsi Colosseum í Róm um síðustu helgi. Þar á meðal voru teikningar barna frá Íslandi. Tilefni sýningarinnar var alþjóðlegur friðardagur Sameinuðu þjóðanna þann 21. september. Verkefnið nefndist Litir friðar og er um að ræða heimsins stærstu og fjölþjóðlegustu sýningu á slíkum teikningum.
Það voru fulltrúar frá Friðarhlaupinu, Sri Chinmoy Oneness Home Peace Run, sem tóku á móti teikningum íslenskra barna og sendu áfram til Ítalíu. Friðarhlaupið er alþjóðlegt kyndilboðhlaup sem fer fram um allan heim. Tilgangur hlaupsins er að efla frið, vináttu og skilning milli manna og menningarheima. Yfir 100 lönd taka þátt í hlaupinu í öllum heimsálfum.
Friðarhlaupið er nú að taka saman teikningar fyrir sýninguna á næsta ári og heimsótti því grunnskólann í Þorlákshöfn síðastliðinn mánudag þar sem nemendur 6. bekkjar afhentu teikningar sínar í íþróttahúsinu.