Vigdís Hauksdóttir, oddviti Miðflokksins í Reykjavík, birti í dag mynd af rykföllnum bíl í almennu bílastæðahúsi í Bryggjuhverfi. Segist hún hafa fengið ábendingu um að tveir bílar í eigu borgarinnar hafi staðið þar óhreyfðir á annað ár, íbúum til ama og óþæginda.
Samkvæmt ökutækjaskrá eru báðir bílarnir í eigu Eignarsjóðs Reykjavíkurborgar. Þeir eru báðir af gerðinni Volkswagen Up! og voru fyrst skráðir í febrúar og mars árið 2016.
„Ekki batnar ástandið í rekstri borgarinnar. Þessi bíll ásamt öðrum til hafa staðið í almennri bílageymslu/bílastæðishúsi í Bryggjuhverfinu í á annað ár íbúum til ama og óþæginda. Haldið ykkur nú – eigandi: Reykjavíkurborg …!!! Hvað er í gangi?“
Vigdís sagði við Eyjuna að þetta væri dæmi um óstjórnina sem ríkti í rekstri Reykjavíkurborgar, en tveir bílar eru á staðnum og virðast hafa verið óhreyfðir í langan tíma:
„Mér var bent á þetta af borgara, sem sagði þessa bíla hafa staðið þarna óhreyfðir í á annað ár. Þetta vekur furðu mína. Ég veit ekki hvað er í gangi hjá Reykjavíkurborg, þar sem það vantar pening út um allt og hvers vegna þessir bílar voru í fyrsta lagi keyptir þar sem notagildið er ekki meira en þetta,“
sagði Vigdís sem hyggst spyrja út í málið á fundi borgarráðs á fimmtudag:
„Maður hlýtur að spyrja sig hvernig eftirlitið er með eigum borgarinnar, hvort fleiri verðmæti standi ónotuð út um borg og bý, meðan það vantar fé í annan rekstur borgarinnar, eins og skólana. Þetta er með ólíkindum!“
Eignarsvið Reykjavíkurborgar leigir út bíla til ýmissa annarra sviða Reykjavíkurborgar, en ekki náðist í yfirmann hjá Eignarsjóði við vinnslu fréttarinnar, þar sem viðkomandi er í fríi. Fréttin verður uppfærð þegar svör hafa fengist.