Fönkdrottning, amerískur frumbyggi og innlendar hetjur spila í kvöld
Tónlistarhátíðin Secret Solstice 2017 er um það bil að hefjast í Laugardalnum í Reykjavík en opnunartónleikarnir hefjast klukkan 17.30. Þá spilar bandaríski flautuleikarinn Joaquin JoaqoPelli Montoya á tónleikasviðinu Valhöll. JoaqoPelli sem kveðst eiga rætur að rekja jafnt til amerísku Sioux Lakota frumbyggjanna og basknesks rómafólks segist hafa leikið á yfir þúsund ayahuasca og peyote-athöfnum um allan heim á síðustu tveimur áratugum.
Seinna í kvöld koma svo fram heimsþekktir listamenn á borð við fönkdrottninguna Chaka Khan og djúphús-plötusnúðinn Kerri Chandler og svo innlendar hetjur á borð við Stuðmenn og SSSól.
Tónleikar fara svo fram á fimm tónleikasviðum alla helgina og á annað hundrað tónlistarmenn koma fram, meðal annars Rick Ross, Big Sean, Foo Fighters, The Prodigy, Richard Ashcroft, Anderson Paak, Dubfire, Unknown Mortal Orchestra og Rhye. Enn eru til armbönd á hátíðina og er hægt að kaupa þau á miðasölusíðunni Tix.is.
Hér fyrir neðan má heyra lagið Tell me something Good með hljómsveitinni Rufus og söngkonunni Chaka Khan, en lagið mun vafalaust óma í Laugardalnum síðar í kvöld.