Eitt helsta ágreiningsmálið í viðræðunum felur í sér kröfu um styttingu vinnuvikunnar. Reykjavíkurborg hefur lýst því yfir að tilraunaverkefni á þessu sviði hafi skilað jákvæðum árangri. Engu að síður hefur ekki náðst viðunandi árangur í samtali þar um milli deiluaðila. Þá hefur Eflingu ekki tekist að koma að ýmsum öðrum þáttum í kröfugerð sinni.
„Við erum með öfluga, fjölmenna og samhenta samninganefnd skipaða fólki með mikla starfsreynslu hjá borginni. Hún var einróma sammála því að vísa viðræðum, af þeirri einföldu ástæðu að kröfugerðin okkar sem skrifuð var með almennum félagsmönnum fæst í raun ekki rædd,“ sagði Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar. „Okkur þykir miður að hafa ekki skynjað raunverulegan samningsvilja frá borginni í þessum viðræðum. Með því að vísa vonumst við til að breyta því.“