fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Eyjan

Nærri helmingur sjúklinga verður fyrir skaða í heilbrigðiskerfinu – Segir hægt að koma í veg fyrir 80% mistaka

Ritstjórn Eyjunnar
Þriðjudaginn 17. september 2019 12:13

Guðbjörg Pálsdóttir, formaður FÍH

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Yfir  10.000 óvænt atvik voru skráð í heilbrigðisþjónustu á Íslandi í fyrra. Alma Möller, landlæknir sagði við Rás 2 í morgun að erfitt hafi reynst að tryggja öryggi í heilbrigðisþjónustu en talið er að um 10% sjúklinga á sjúkrahúsum á Vesturlöndum verði fyrir einhvers konar atviki:

„Við skilgreinum atvik þannig að það er eitthvað sem fer úrskeiðis við meðferð, hvort sem það veldur skaða eða ekki. Bara ef það hefði getað skaðað hann þá viljum við skoða hann líka,“

sagði landlæknir.

Árið 2018 voru um 4.300 atvik skráð á Landspítala, tæplega 600 á sjúkrahúsinu á Akureyri og 5.300 á öðrum heilbrigðisstofnunum, en samkvæmt landlækni getur gríðarlega margt farið úrskeiðis:

„Algengustu atvikin skráð hérlendis eru byltur, þegar sjúklingur dettur og slasar sig eða slasar sig ekki. Önnur algeng atvik eru sýkingar, atvik tengd lyfjagjöf og legusár. Svo auðvitað allt mögulegt annað eins og atvik tengd skurðaðgerðum, atvik tengd greiningu sjúkdóma – fólki hefur yfirsést eitthvað á röntgen mynd og svo framvegis. Það er gríðarlega margt sem getur farið úrskeiðis.“

sagði Alma.

Tölfræðin ekki upplífgandi

Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, segir í grein sinni í Morgunblaðinu í dag að koma megi í veg fyrir mikinn meirihluta þeirra mistaka sem sjúklingar verði fyrir í heilbrigðiskerfinu, með réttri forgangsröðun og auknu öryggi.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) hefur komið á árlegum alþjóðlegum degi  sem tileinkaður er öryggi sjúklinga, en sá dagur er í dag. Guðbjörg bendir á að settar hafi verið fram 10 staðreyndir um öryggi sjúklinga:

„Kemur þar m.a. fram að í dag er talið að fjórir af hverjum tíu sjúklingum verði fyrir skaða innan heilbrigðiskerfisins. Til samanburðar er áætlað að á sama tíma og einn af hverjum 3 milljónum eigi á hættu að deyja í flugi, er hlutfallið 1 á móti 300 hjá sjúklingi sem verður fyrir mistökum í meðferð í heilbrigðiskerfinu. Talið er að hægt sé að koma í veg fyrir allt að 80% mistaka, sé öryggi sjúklinga aukið,“

segir Guðbjörg og nefnir að algengast sé að mistök við lyfjagjöf valdi alvarlegum skaða, jafnvel dauða. Slík mistök megi yfirleitt rekja til þreyti í starfi, slæms starfsumhverfis og skorts á starfsfólki.

Þess má geta að tölur Guðbjargar eru aðrar en á heimasíðu landlæknis. Þar er talað um að 10% sjúklinga á sjúkrahúsum á Vesturlöndum verði fyrir einhverskonar atviki og að koma megi í veg fyrir 50% þeirra.

Ófremdarástand

Síðustu daga hefur mikið álag verið á Bráðamóttöku Landspítalans og hefur pistill Elínar Tryggvadóttur hjúkrunarfræðings vakið mikla athygli, þar sem martraðarástandi er lýst og öryggi sjúklinga sagt í hættu, þar sem bráðamóttakan hafi verið óstarfhæf. Kemur pistill Elínar í kjölfar mikillar umfjöllunar síðustu mánuði um erfiða stöðu heilbrigðiskerfisins, skorti á hjúkrunarfræðingum og ónógu plássi fyrir sjúklinga.

Sjá nánar: Elín Tryggvadóttir hjúkrunarfræðingur:„Á spítalanum er búið að loka 20-30 plássum vegna þess að ekki fást hjúkrunarfræðingar til starfa“

Hvað er til ráða ?

Guðbjörg segir lausnina liggja fyrir:

„Dr. Tedros Adhanom, yfirmaður Alþjóðaheilbrigðismálastofnunar, telur hjúkrunarfræðinga vera mikilvægustu stéttina í heilbrigðiskerfinu enda er hún, ásamt ljósmæðrum, helmingur alls heilbrigðisstarfsfólks í heiminum. Örugg mönnun hjúkrunarfræðinga bjargar mannslífum og er auk þess fjárhagslega hagkvæm. Þess vegna þarf að fjölga hjúkrunarfræðingum, halda þeim sem fyrir eru í starfi og fá þá sem hætt hafa að starfa við hjúkrun aftur til starfa.“

Boltinn hjá stjórnvöldum

Guðbjörg bendir á stefnu stjórnvalda í þessum málaflokki en nefnir að einnig þurfi ráðamenn að fylgja henni eftir:

„Fram kemur í nýrri metnaðarfullri heilbrigðisstefnu fyrir íslenskra heilbrigðisþjónustu til ársins 2030 hvernig auka eigi gæði þjónustunnar og að mikilvægt sé að mönnun samræmist umfangi heilbrigðisþjónustunnar til að tryggja gæði og öryggi hennar. Við höfum því skýra stefnu til að vinna eftir og aðgerðaáætlun til næstu fimm ára. Einnig þarf sterka forystu ráðamanna sem forgangsraða öryggi sjúklinga efst á oddinn, gögn sem sýna fram á bætt öryggi, vel menntað og hæft starfsfólk og virka þátttöku sjúklinga í sinni eigin umönnun. Allir þessir þættir geta stuðlað að verulegum úrbótum í öryggi sjúklinga og er það hlutverk yfirvalda, heilbrigðisstarfsfólks, sjúklinga og aðstandenda að sameinast í því verkefni.“

Lokað er fyrir athugasemdir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt