fbpx
Sunnudagur 24.nóvember 2024
Eyjan

Oddný: „Um 5% landsmanna fá næstum jafn mikið og hin 95% samanlagt“

Ritstjórn Eyjunnar
Fimmtudaginn 12. september 2019 12:05

Oddný G. Harðardóttir.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, fór yfir helstu gagnrýni flokksins á fjárlagafrumvarpið í fyrstu umræðu á þingi í dag. Segir hún ekkert gert til að undirbúa harkalega niðursveiflu og spyr hvort búast megi við niðurskurði ef illa fer:

„Það eina sem við vitum um viðbrögð við verri hagspá er það sem fjármála- og efnahagsráðherra sagði aðspurður af fréttamanni RÚV eftir kynningu á frumvarpinu 6. september síðast liðinn, að afleiðingarnar kæmu fram bæði á gjalda og tekjuhliðinni og jafnvel verri afkomu. Hvaða merkir þetta herra forseti? Frekari niðurskurður í velferðarkerfinu? Ekkert er gefið upp um það en því hvorki játað né neitað.“

Vill aukna skattheimtu

Oddný segir ríkisstjórnina verja fjármagnseigendur fyrir verðbólgu:

„Engar breytingar eru boðaðar í tekjuskattskerfinu til að taka á ofurlaunum, enginn hugmynd um stóreignaskatt, engin breyting sem gefur aukinn arð af auðlindum okkar en það eru boðaðar breytingar á fjármagnstekjuskatti. En ekki til hækkunar heldur til lækkunar! Hugmynd ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur er að verja fjármagnseigendur fyrir verðbólgu. Slíkar trakteringar frá ríkisstjórninni fær almenningur ekki. Sú staðreynd er þekkt að um 5% landsmanna fá næstum jafn mikið og hin 95% samanlagt. Og eignir þeirra hafa vaxið jafnt og þétt undan farin ár.“

Bil fátækra og ríkra breikkar

Oddný segir einnig að frumvarpið komi verst niður á konum:

„Stjórnarflokkarnir lofuðu bættum kjörum lífeyrisþega en lífeyrisgreiðslur eru nú rétt innan við 250 þúsund krónur á mánuði og allir hljóta að vera sammála um að það eru lök kjör sem þarf að bæta. Einungis þeir sem búa einir ná 300 þúsund króna markinu með heimilisuppbót. Um 70% lífeyrisþega sem búa við lökust kjörin eru konur sem hafa unnið hlutastörf meðfram heimilisstörfum á árum áður eða verið heimavinnandi af einhverjum ástæðum. Meðal þeirra sem eru allra verst staddar eru konur af erlendum uppruna. Þessi hópur kvenna hefur unnið sér inn lítil eða jafnvel engin réttindi til greiðslna úr lífeyrissjóðum og hafa mjög takmörkuð efni og úrræði sér til framfærslu. Með fjárlagafrumvarpinu er lagt til að lífeyrisgreiðslur hækki aðeins um 3,5% um áramótin á meðan lægstu laun hækka meira, eða um 5,7% þremur mánuðum seinna. Bil á milli þeirra fátæku og ríku breikkar og ríkisstjórnin virðist hæst ánægð með þá þróun.“

Heilbrigðiskerfið þarf meira

„Það er fínt að byggja nýjan spítala en það er fráleitt að taka milljarðana sem settir eru í nýbyggingu og leggja þá við rekstrarfjárhæðir og stæra sig svo af því að aldrei hafi meira verið lagt til heilbrigðiskerfisins. Heilbrigðistofnarin út um landið eiga í rekstrarvanda, mismiklum þó og fer eftir aðstæðum á hverjum stað. Landspítalinn, sjúkrahúsið okkar allra, á við rekstrarvanda að stríða. Spítalinn ber halla frá fyrra ári inn á árið í ár og glímir einnig við vanda vegna of lágra framlaga í fjárlögum 2019. Fyrirsjáanlegt er að hallinn í ár verði tæpir fjórir milljarðar króna,“

sagði Oddný meðal annars.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: „Fake News“, „Fake Stories“, eru eitt stórfelldasta og hættulegasta vandamál okkar tíma

Ole Anton Bieltvedt skrifar: „Fake News“, „Fake Stories“, eru eitt stórfelldasta og hættulegasta vandamál okkar tíma
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?