Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, fór mikinn í umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra á miðvikudagskvöld. Inga er annálað baráttukona þeirra sem verst eru settir í samfélaginu, hún er sjálf öryrki og leigir íbúð af Brynju, Hússjóði Öryrkjabandalagsins, á þingmannalaunum. Meðal þess sem Inga vakti máls á var léleg heilbrigðisþjónusta, en hún lenti í því á dögunum að bíða í 32 mínútur eftir sjúkrabíl uppi í Grafarholti þar sem hún býr. „Ef hann hefði verið tæpur hefði hann verið löngu dauður,“ sagði Inga um þann sem reiddi sig á svifaseina sjúkrabílinn. Inga lét til sín taka þegar sjúkrabílamál á landsbyggðinni voru í ólestri og nú er komið að höfuðborginni. Það er spurning hvort hún nái með rökfestu að leggja lóð sín á vogarskálarnar til að ná sínu fram eða hvort þurfi að skrúfa frá tárakirtlunum svo rödd hennar heyrist í málaflokknum.