Fyrirsætan Ísold Halldórudóttir hefur vakið mikla athygli, bæði hér heima og erlendis, og er ötul baráttukona fyrir líkamsvirðingu. Hún deilir öflugum skilaboðum sínum á Instagram.
Í nýjustu færslu sinni segir hún að vera opin og birta myndir af sér og líkama sínum sé eitthvað sem hún valdi sjálf.
„Ég er bara einhver. Ég gæti verið hver sem er, að gera hvað sem er en ég ákvað að gera þetta. Ég ákvað að vera hávær með líkama mínum, að vera stolt af honum á meðan ég sýni heiminum galla mína, óöryggi mitt, efasemdir mínar, erfiðleika mína og yfirþyrmandi tilfinningu að vilja vera fullkomin.
En ég er það. Ég er fullkomin með appelsínuhúð á lærunum. Ég er fullkomin með bólur á andliti mínu. Ég er fullkomin með fellingar á bakinu. Ég er fullkomin, því ég er fullkomlega ég sjálf,“
skrifar Ísold á Instagram.
https://www.instagram.com/p/B2PVdfWAMcO/
Eins og fyrr segir er Ísold ötul baráttukona fyrir líkamsvirðingu. Hún stofnaði myllumerkið #fatgirloncam á Instagram sem hefur notið mikilla vinsælda. Hún birtir undir myllumerkinni myndir af sjálfri sér þar sem hún fagnar líkama sínum eins og hann er. Í apríl tilnefndi hún sig sjálfa í Dazed100 keppnina á vegum fjölmiðlsins Dazzed.
„Ég tilnefni mig á hverjum degi því ég trúi á mig sjálfa og aðra sem líður eins og þeir passi ekki inn neins staðar. Ég lofa að búa ávallt til rými fyrir ykkur, standa með ykkur og vera hávær,“ sagði Ísold. Hún var einnig í viðtali við síðuna Dazeddigital í janúar þar sem hún ræddi um baráttuna, fordómana og erfiða æsku.