Útbreiddur misskilningur að þær geri meira gagn en heitt vatn og venjulegar sápur
Bakteríudrepandi sápur gætu verið skaðlegar þunguðum konum og börnum þeirra. Þetta er samkvæmt niðurstöðum skýrslu sem rúmlega tvö hundruð vísindamenn lögðu nafn sitt við og birtust í tímaritinu Environmental Health Perspectives.
Samkvæmt skýrslunni eru bakteríudrepandi sápur ófærar um að þjóna tilgangi sínum og drepa hættulegar bakteríur sem geta valdið sjúkdómum eða veikindum. Segja vísindamenn að heitt vatn og venjulegar handsápur geri engu minna gagn og jafnvel meira gagn.
Þá kemur fram í skýrslunni að margar bakteríudrepandi sápur innihaldi efni sem geta verið skaðleg þunguðum konum og börnum þeirra. Efni í sápunum, tríklósan þar á meðal, geti komið af stað ójafnvægi í hormónastarfsemi líkamans og hætta sé á að þessi sömu efni komist með brjóstamjólk til barnanna. Þar að auki geti bakteríudrepandi sápur stuðlað að auknu sýklaónæmi.
Barbara Sattler, prófessor við University of San Francisco og ein þeirra sem kom að skýrslunni, sagði að það væri útbreiddur misskilningur að bakteríudrepandi sápur veiti meiri vörn en venjulegar sápur í bland við heitt vatn.
Í fyrrahaust bönnuðu bandarísk yfirvöld nítján efnissambönd sem gjarnan má finna í bakteríudrepandi sápum. Ástæðan var sú að framleiðendum hafði ekki tekist að sýna fram á að þau væru örugg til notkunar eða hefðu þá eiginleika sem auglýstir voru.