fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Eyjan

Vilhjálmur svarar Þorsteini: „Þegar menn eru komnir á þing þá kveður við annan tón!“

Ritstjórn Eyjunnar
Fimmtudaginn 5. september 2019 14:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eyjan fjallaði í gær um afstöðu Vilhjálms Birgissonar, formanns Verkalýðsfélags Akraness og varaforseta ASÍ, til Landsvirkjunar, sem hann segir þvinga raforkuverð til stóriðjunnar í hæstu hæðir í skjóli einokunar, sem þannig ógni atvinnuöryggi þúsunda starfsmanna þar sem stóriðjan hafi ekki efni á slíkum hækkunum.

Kveður við annan tón

Sagði hann þingmanninn Þorstein Víglundsson vera „lýðskrumara“ sem og flokk hans Viðreisn, fyrir að hafa ekki áhyggjur af þessari þróun, en Þorsteinn sagði árið 2011, þá framkvæmdastjóri Samáls, samtaka álfyrirtækja, að hátt raforkuverð væri að fæla orkufrekan iðnað frá og að Evrópusambandið íhugaði að heimila niðurgreiðslu orkuverðs til að sporna við þróuninni.

Síðan hefur Þorsteinn nefnt á þingmannsferli sínum að stóriðjan hafi í gegnum tíðina staðið undir arðsemi Landsvirkjunar og að Íslendingar hafi hagsmuni af því að hafa orkuverð hátt til stóriðjunnar og ítrekar Þorsteinn þá afstöðu í svarfærslu í gær.

Um það segir Vilhjálmur:

„Aumt er þetta svar þitt Þorsteinn, enda eruð þið í Viðreisn búin að stökkva um borð í lýðskrumsvagninn. Þar þykir það flott að vera á móti þessum „skítugu stóriðjum“ þar sem talað er um að verið sé að gefa raforkuna handa orkufrekum iðnaði. Þetta er argasta lýðskrum hjá þér Þorsteinn enda skrifar þú árið 2011 þegar þú klæddist Samálsfrakkanum að raforkufrekur iðnaður sé farinn að flýja hátt raforkuverð í Evrópu,“

segir Vilhjálmur í dag og bætir við:

„Það er lýðskrum að tala þegar menn voru í Samálsfrakkanum og á launaskrá hjá þeim, um að hátt raforkuverð gæti leitt til þess að þessi iðnaður lognist útaf og samanburður á raforku til stóriðju á Íslandi við önnur lönd standist fulla skoðun, en svo þegar menn eru komnir á þing þá kveður við annan tón! Þetta er lýðskrum!!“

Vill að Þorsteinn leiðrétti Þorgerði

Þá nefnir Vilhjálmur afstöðu formanns Viðreisnar til orkupakkans:

„…hún hélt því fram í ræðu um orkupakka 3 að, að orkupakki 3 lúti m.a. að því að því að stórnotendur geti ekki lengur í krafti einokunaraðstöðu fengið sjálfkrafa ódýrt rafmagn á kostnað þjóðarinnar ? Á kostnað þjóðarinnar segir formaðurinn þinn! Þú bentir réttilega á það að stóriðjan stendur undir arðsemi Landsvirkjunar og að ef almenningur á Íslandi væri að niðurgreiða raforkuverð til stóriðju hefði umtalsverð verðhækkun þurft að eiga sér stað á þessum tíma. Þorsteinn ef hverju leiðréttir þú ekki formanninn þinn? Og í ljósi þess að þú gerðir það ekki er þetta algert íslandsmet í lýðskrumi!“

Samanburður við sjávarauðlindirnar

Vilhjálmur spyr Þorstein, að fyrst afstaða hans til raforkumála sé með þessum hætti, hvort Viðreisn vilji þá ekki yfirfæra þá stefnu yfir í sjávarútveginn:

„Spurning hvort Viðreisn leggi ekki til að allur sjávarafli við Íslandsstrendur verði ekki boðin upp á markaði Evrópusambandsins til að kanna hvort við fáum ekki meira fyrir hann með því að selja aðgang að sjávarauðlindinni. Spurning hvort Viðreisn vilji láta flota Evrópusambandsins veiða allan aflann ef við fáum meira verð fyrir hann þannig? Skítt með atvinnuöryggi og lífsafkomu fólksins það er algjört aukaatriði hjá Viðreisn, bara tryggja hæsta verð og skítt með lífsafkomu almennings í þessu landi sem reiðir sig á að við nýtum okkar auðlindir til atvinnusköpunar!“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt