fbpx
Föstudagur 27.desember 2024
Fókus

Algjör Sveppi og svarthvíta grámyglan

Tómas Valgeirsson
Föstudaginn 6. september 2019 20:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sorgin getur gert sálinni allan fjandann, ekki síst þegar nátengdur einstaklingur fellur frá. Tilfinningasúpan getur slest í hinar furðulegustu áttir og hreinlega breytt manni í allt aðra manneskju. Því er engin ein rétt leið til að takast á við óvæntar aðstæður, en eins og áhorfendur fá að kynnast í Hvítum, hvítum degi stendur ekkillinn Ingimundur frammi fyrir tveimur ólíkum vegum. Þegar nýjar upplýsingar berast um líf og mögulega ástæðu fráfalls eiginkonunnar sígur vogarskálin hægt og bítandi í þyngri áttina, okkur til skemmtunar.

Það má segja að þessi mynd tikki í ákveðin box hjá staðalmynd íslenskrar kvikmyndagerðar. En ef svo er, þá tikka aðstandendur í boxin bæði með stolti með ýmislegt óvænt uppi í erminni. Annars höfum við hér brotinn einstakling í sveit, fortíðardrauga, fiskveiðar, einangrun, óútreiknanlegt veður, dýrðarinnar nekt til skrauts, náttúrufókus og landslag er nýtt til hins ítrasta. Myndin er einum alkóhólista frá því að ná fullu húsi, liggur við.

Heppilega tekur sagan nægilega ferskan vinkil á kaldan alvarleikann, með því að sjóða saman kómískt depurðardrama við lágstemmdan spennutrylli. Útkoman er kuldaleg, meingölluð en tilkomumikil og mikið óskaplega er stílblæti leikstjórans snoturt. Síðan þarf varla að hafa augun opin til að finna fyrir rembingslausum og minnisstæðum leik Ingvars E. Sigurðssonar.

Kaldhæðnin ríkjandi

Kvikmyndagerðarmaðurinn Hlynur Pálmason ber öll merki hæfileikamanns sem gæti komist í þungavigtina á ókomnum árum. Eins og sást einnig á fantagóðri leikstjórafrumraun hans, Vinterbrødre frá 2017, er ljóst að gegnumgangandi þráður liggur í dökkum húmor og sterkri beitingu á hvítum tónum og skuggum. Á móti vantar alls ekki hversu hart hann sækist í það að gera annan hvern ramma að listaverki. Það virðist líka vera sameiginlegur þráður í báðum myndum hans hvernig illviðri getur skorið á fjölskyldubönd á augabragði.

Í Hvítum, hvítum degi er nákvæmlega ekkert út á töku, hljóð, strengjatónlist eða almennan stíl að setja. Myndin er skotin á 35 millimetra filmu, sem gefur henni flotta áferð og eru mörg hver skot alveg stórfengleg. Auk þess er stórum senum oft leyft að spilast út í óslitnum tökum sem gefa andartökunum góðan svip.

Það hvernig Hlynur finnur kaldhæðnina í hversdagsleikanum og mjólkar undarlega kómík úr grafalvarlegum ágreiningi er undirstaða húmorsins. Á móti heldur leikstjórinn persónunum í ákveðinni fjarlægð frá áhorfendum en sækir samt sem áður í tilfinningalega geðhreinsun og tilheyrandi dramaþunga. Hvítur, hvítur dagur gengur samt ekki nægilega vel upp sem dökk dramedía og grámygluleg karakterstúdering.

Hvort í sínu lagi virkar á sinn hátt en þegar myndin hallast meira að kaldhæðni en tilfinningatengslum fara tónarnir að stangast á við hver annan, sem mótar úr því afspyrnu misjafna heild – og heldur innantóma – sem samsett er úr frábærum senum á milli. Hlynur er of fastur í abstraktismanum og því líklegri til að missa tök á mannlega þættinum – og trúverðugleiki framvindunnar víkur gjörsamlega fyrir ljóðrænni kyrrð.

Titill myndarinnar vísar í draumkennt mistur, þoku eða snjókomu þar sem himinn og jörð sameinast í eitt. Með náttúruna að vopni nýtir Hlynur jafnframt tækifærið til að daðra við yfirnáttúrulegar hugmyndir, sem þó virðast ekki eiga mikinn sess í sögunni nema í skilningi uppfyllingarefnis. Myndmálsbeiting og ljóðræn skot bjóða upp á ógrynni af symbólisma sem snýr að náttúrunni og þróun Ingimundar, en yfirnáttúrulegi þátturinn heldur ekki alveg flugi og kemur þá í staðinn tilgerðartónn sem myndin hefði annaðhvort átt að sleppa, eða keyra í botn.

Traustur samleikur og barnaefni Satans

Að frátöldu sorgarþemanu hefur Hvítur, hvítur dagur ýmislegt að segja um mannlegt eðli og hvatir, þrátt fyrir að gjörðir og ákvarðanir sumra persóna séu róbótum líkar. Við sjáum Ingimund ganga í gegnum sterka breytingu, trúverðuga í eðli sínu, en það er happa og glappa hvort áhorfandinn finni almennilega fyrir henni. Slík er fjarlægðin og kuldi frásagnarinnar nær lítið að styrkja tilfinningatengsl með þessu móti.

Í hlutverki Ingimundar verður að segjast að Ingvar selji harða skel manns sem er mögulega á barmi tímabærs taugaáfalls. Bestar eru þó senurnar með honum og afabarninu hans, Sölku, sem bera merki um ósvikinn mannúðleika, hlýju og sakleysi. Hin ellefu ára gamla Ída Mekkín, dóttir leikstjórans, rúllar í gegnum myndina með flottum tilþrifum og lætur fara vel um sig á móti gamla reynsluboltanum. Verst er þó að stúlkan hefur ekki úr miklu að moða sem eina kvenpersóna myndarinnar sem fær fleiri en þrjár setningar. Ef út í það er farið er illa farið með góðan lager af aukapersónum úr nánasta hring Ingimundar sem hefðu getað bætt miklu við heildina.

Oft er mikið hægt að segja með þögnum, endurtekningum og augnaráði – en afraksturinn kemur litlu til skila sem hefði ekki dugað álíka vel þótt korter hefði verið saxað af lengdinni. En með fullri virðingu fyrir meirihluta leikhópsins verður að segjast hreint út að skemmtikrafturinn Sveppi stelur algjörlega senunni með barnaefni sínu. Þarna bregður honum fyrir í litlu en bítandi gestahlutverki þar sem hann bókstaflega leikur sjálfan sig, með viðbættum og kærkomnum níhilisma sem gæfi lykilmarkhópi hans þrumandi raunveruleikaspark.

 

Í stuttu máli:

Þrælvel leikin og glæsilega útlítandi mynd þar sem sorg og abstrakt kaldhæðni er allsráðandi. En þótt tunnan sé fögur glymur furðu hátt í henni tómri.

 

 

Sjáðu þessa mynd ef þú kannt að meta …

Vinterbrødre (2017)

 

Undir trénu (2017)

 

Mýrin (2006)

 

Héraðið (2019)

 

Málmhaus (2013)

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Hvað eru Bessastaðakökur?

Hvað eru Bessastaðakökur?
Fókus
Fyrir 3 dögum

Björgvin fékk magnaða kveðju frá Jóni – „Ég felli bara tár við þessi skrif vinur“

Björgvin fékk magnaða kveðju frá Jóni – „Ég felli bara tár við þessi skrif vinur“
Fókus
Fyrir 6 dögum

Dennis Rodman með yfirlýsingu eftir að dóttir hans varpaði sprengju

Dennis Rodman með yfirlýsingu eftir að dóttir hans varpaði sprengju
Fókus
Fyrir 6 dögum

Jólakort ársins frá Vilhjálmi og Katrínu

Jólakort ársins frá Vilhjálmi og Katrínu