Tveir menn voru handteknir fyrir að kveikja í bandaríska fánanum við Sæbraut snemma í eftirmiðdaginn. Með þessu voru mennirnir væntanlega að mótmæla komu Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, hingað til lands.
Alexandra Briem, borgarfulltrúi Pírata, gerir alvarlegar athugasemdir við handtökuna og spyr hvort fólki sé ekki leyfilegt að mótmæla. Hún minnir á að rétturinn til að mótmæla sé varinn í bandarísku stjórnarskránni. Færsla hennar á Facebook um málið er svohljóðandi:
Síðan hvenær er fólk handtekið fyrir að mótmæla?
Meira að segja í Bandaríkjunum er stjórnarskrárvarinn réttur til tjáningar, meira að segja mótmælum með fánabrennum, eins og var staðfest af þarlendum hæstarétti 1969. Þó er hægt að kæra fyrir ógætilega meðferð elds, en það hlýtur að teljast augljós fyrirsláttur ef það er notað til að koma í veg fyrir tjáninguna, á stað þar sem ekki er hægt að tala um raunverulega hættu á að eldurinn dreifi úr sér. (og þó svo ætti að kæra fyrir það, þá mætti alveg gera það eftir mótmælin en ekki nota það til að stoppa þau.)