Helga María og Júlía Sif halda úti vinsælu vegan uppskriftarsíðunni veganistur.is. Nafnið á síðunni vísar til að þær séu vegan og systur, veganistur.
Uppskriftir þeirra njóta gríðarlega vinsælda meðal grænkera sem og annarra á Íslandi. Undirrituð hefur gert ófáar uppskriftir eftir systurnar og eru klassíska súkkulaðitertan og ofnbakaði nachos rétturinn í sérstöku uppáhaldi.
En nú ætla systurnar að taka næsta skrefið og gefa út uppskriftarbók. Þær stefna á að gefa hana út fyrir jólin. Upphaflega var planið að gefa bókina nokkrum dögum fyrir nýja árið í tilefni Veganúar 2020 en eftir að hafa fengið ótal eftirspurnar um að gefa út bókina fyrir jól ákváðu þær að láta slag standa.
„Við höfum fengið gríðarlega mikið af spurningum og það eru allir þyrstir í að fá bókina fyrir jól þannig við ætlum að bretta upp ermarnar og reyna að klára allt svo það geti orðið að veruleika og það er planið núna að bókin komi fyrir jól,“ segir Helga María.
Byrjuðu að deila myndum af mat
Veganistur urðu til árið 2014 og var fyrst Facebook-síða. Helga María segir að upphaflega hafi hugmyndin verið að deila myndum af matnum sem þær voru að borða. Fljótlega fóru þær að fá ótal óskir um uppskriftir og þær stofnuðu þá uppskriftarsíðuna veganistur.is sumarið 2016.
Grænkera lífsstíllinn hefur lengi verið hluti af lífi systranna en Helga María hefur verið vegan í átta ár og Júlía Sif í sjö ár. Vegan vörur voru mjög sjaldgæf sjón í matvöruverslunum fyrir átta árum en Helga María segir að það hafi haft sína kosti.
„Mér finnst það mjög jákvætt í dag að hafa orðið vegan þegar framboðið var svona lítið vegna þess að ég lærði rosalega mikið að elda frá grunni,“ segir Helga María.
https://www.instagram.com/p/BrqQr4rA6CB/
Hátíðarmatur þeirra sérgrein
Jólin 2016 byrjuðu uppskriftir systranna að slá gríðarlega í gegn.
„Fyrir jólin byrjuðum við á fullu að birta uppskriftirnar sem voru „veganæsaðar“ uppskriftir að því sem við borðuðum áður yfir hátíðarnar. Við gerðum uppskriftir að lakkrístoppum, alls konar smákökum, sveppasúpu, heitum brauðrétt, lagtertu og öðrum hátíðarmat. Þetta sló í gegn. Fólk elskaði að fá vegan útgáfu af mat sem það elskar og hefur borðað allt sitt líf. Það varð strax eiginlega okkar sérgrein og erum þekktar fyrir að gera vegan útgáfur af hefðbundnum mat sem fólk þekkir,“ segir Helga María.
Hvers konar uppskriftir má búast við að sjá í bókinni?
„Þetta verða alls konar uppskriftir. Mikill bakstur, aðalréttir og risastór hátíðarkafli til dæmis,“ segir Helga María.
https://www.instagram.com/p/B1cJlYZgQJ5/
Ekki bara grænkerar
„Umferðin á síðuna og Instagram hefur aukist með hverju árinu, einnig viðbrögðin og spurningarnar sem við fáum“ segir Helga María. En það eru ekki einungis grænkerar sem notast við uppskriftir systranna.
„Fólk sem á ættingja eða vini sem eru vegan er mjög stór mark- og leshópur hjá okkur. Ömmur og frændfólk sem er að fá vegan ættingja sína í mat og svona. Okkur finnst frábært hvað síðan okkar er aðgengileg,“ segir Helga María.
https://www.instagram.com/p/BvuZeRxgafN/
Hún segir fólk oft leita til þeirra þegar það er að gera vegan mat fyrir veislu, en fólk sem er ekki vegan á það til að mikla það fyrir sér hvernig það er að gera vegan köku.
„Markmið okkar hefur alltaf verið að gera einfaldar uppskriftir sem allir skilja sem innihalda ekki 30 hráefni og innihaldsefni sem enginn veit hvað er. Við viljum að fólk hafi gaman af því að fylgja uppskrift eftir okkur,“ segir Helga María.
Þú getur fylgst með systrunum á Instagram og á Veganistur.is