Gamanmyndahátíð Flateyrar verður haldin í fjórða sinn dagana 19.-22. september. Þar verða sýndar gamanmyndir frá öllum heimshornum auk þess sem boðið verður upp á leiksýningar, uppistand, tónleika og matarveislur. Einnig gefst tækifæri til að gera gamanmynd á 48 stundum og sýna hana á hátíðinni.
Á umræddri hátíð verður haldin sérstök keppni þar sem hvert lið fær 48 klukkustundir til að fullgera gamanmynd frá hugmynd að frumsýningu. Hvert lið skipað þrjá þátttakendur og fær hver og einn ókeypis gistingu á Flateyri og þrjú hátíðararmbönd á Gamanmyndahátíðina. Liðum er þó heimilt að styðjast við fleiri aðstoðarmenn og leikara.
Á miðvikudaginn 18. september verður Arnór Pálmi Arnarson, leikstjóri og leiðbeinandi keppninnar, með örnámskeið í gamanmyndagerð, að því loknu verður þema ársins kynnt og klukkan byrjar að telja niður. Fullkláruðum gamanmyndum þarf að skila inn föstudagskvöldið 20. september. Arnór Pálmi verður liðunum innan handar bæði varðandi handritsgerð, tökur og klippingu á meðan á ferlinu stendur. Hann á að baki tvö Áramótaskaup ásamt sjónvarpsseríunum Hæ Gosa, Ligeglad og Ráðherranum sem er væntanlegur síðar á þessu ári.
Myndirnar verða að því loknu sýndar á Gamanmyndahátíðinni þar sem fyndnasta 48 stunda gamanmyndin verður verðlaunuð.