fbpx
Þriðjudagur 26.nóvember 2024
Fókus

Skapmikil, hreinskilin og hugrökk – Varð upptekin af harmi sínum – Ríkti í 64 ár

Skapmikil, hreinskilin og hugrökk – Varð upptekin af harmi sínum – Ríkti í 64 ár

Kolbrún Bergþórsdóttir
Laugardaginn 10. júní 2017 18:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Viktoría Englandsdrottning sat í hásæti í 64 ár, styrkti stöðu konungdæmisins og varð í huga heimsbyggðarinnar tákn breska heimsveldisins. Þegar Alexandrína Viktoría fæddist þann 24. maí 1819 sagði faðir hennar, Játvarður hertogi af Kent og sonur Georgs III Englandskonungs: „Hugsið vel um hana því hún á eftir að verða drottning Englands.“ Faðir hennar lést þegar hún var einungis átta mánaða.

Hin unga Viktoría var afar smávaxin, þybbin og þótti ekki sérlega lagleg. Hún var lífsglöð og bjó yfir dágóðum skammti af persónutöfrum. Hún þótti vel greind og hafði stálminni. Hún hafði yndi af tónlist, sérstaklega ítölskum óperum, var með góða söngrödd og hafði hæfileika á myndlistarsviði. Hún átti alla tíð erfitt með að hemja skapsmuni sína og gat rokið upp af minnsta tilefni, en var venjulega fljót að jafna sig. Hún þótti bæði hugrökk og hreinskilin.

Einmanaleg æska

Viktoría hélt því alla tíð fram að hún hefði átt einmanalega æsku. Hún ólst upp hjá móður sem hún unni lítið, en sambandið batnaði mjög eftir því sem árin liðu. Viktoría átti ekki systkini og var að mestu án leikfélaga. Þessi vöntun á félagsskap gerði að verkum að hún þjáðist af feimni og naut sín ekki í margmenni.

Viktoría varð drottning átján ára gömul þegar föðurbróðir hennar, Vilhjálmur IV., lést. „Ég er einstaklingur sem þarf að styðjast við aðra manneskju til að finna frið og huggun,“ sagði hún eitt sinn. Hún fann föðurímynd, ráðgjafa, vin og hetju í forsætisráðherra sínum, Melbourne lávarði, sem var fjörtíu árum eldri en hún. Á tímabili var dagbók hennar meira og minna helguð honum. Sitthvað bendir til að hún hafi verið ástfangin af honum. Forsætisráðherranum þótti innilega vænt um drottninguna sem hann sagði vera falslausustu manneskju sem hann hefði kynnst. Hann taldist til frjálslyndra Vigga og Viktoría gerði stjórnmálaskoðanir hans að sínum.

Viktoría með sínum heittelskaða Albert og börnum.
Konungleg fjölskylda Viktoría með sínum heittelskaða Albert og börnum.

Engillinn Albert

Mesti áhrifavaldur í lífi Viktoríu var eiginmaður hennar, hinn þýski Albert prins. Þau giftust árið 1840. Tveimur árum eftir brúðkaupið sagði Viktoría að Albert væri fullkomnasta vera sem til væri. Eftir tveggja áratuga sambúð sagði hún við elstu dóttur sína: „Ég mun aldrei viðurkenna að nokkur kona hafi verið jafn hamingjusöm og ég er, því ég hvika ekki frá því að pabbi er ólíkur öllum sem lifa, hafa lifað eða eiga eftir að lifa.“

Stjórnmálamenn viðurkenndu Albert fljótlega sem nánasta ráðgjafa drottningar og áttuðu sig á því að besta aðferðin við að koma sér í mjúkinn hjá hennar hátign var að lofa Albert í hennar eyru. Albert var alvörugefinn, mikill mannúðarsinni og í nöp við kreddukenningar og þröngsýni.

Fyrsta barn Viktoríu og Alberts fæddist níu mánuðum eftir brúðkaupið og næstu sextán ár bættust átta börn í hópinn. Þegar börnin voru orðin níu varaði læknir drottningar hana við því að eignast fleiri börn. Drottningin fölnaði við fréttirnar og spurði: „Get ég þá ekki lengur skemmt mér í rúminu?“

Drottningin var ætíð þunglynd fyrir og eftir barnsburð. Hún var engin barnagæla og sagði um sín eigin börn: „Ég hef enga tilfinningu fyrir þeim fyrr en þau hafa orðið að litlum manneskjum, ljótt barn er afar ógeðfellt.“ Í annað sinn sagði hún: „Mér er ekki illa við börn en mér þykja kornabörn fremur andstyggileg.“

Eitt sinn, eftir að hafa heyrt sögu sem henni fannst ósmekkleg, sagði Viktoría: „Oss er ekki skemmt.“ Margir hafa dregið þá ályktun af þeim orðum að hún hefði verið fúllynd og þumbaraleg. Staðreyndin er hins vegar sú að glaðværð og fjör voru eðlislægir þættir í skapgerð hennar á yngri árum, en það breyttist smám saman. Þegar sorgin kvaddi dyra tók drunginn við.

Svartklædd drottning

Hinn heittelskaði Albert veiktist alvarlega árið 1961. Hirðlæknar hans vissu ekki hvað olli veikindum hans, en eins og einhver sagði þá voru þeir svo vanhæfir í starfi að þeir hefðu ekki einu sinni getað sinnt veikum ketti. Þegar Albert lést þetta sama ár varð Viktoría svo harmi lostinn að menn óttuðust um geðheilsu hennar. Síðar trúði hún einni dætra sinna fyrir því að hún hefði íhugað að fyrirfara sér. Þau fjörtíu ár sem hún átti eftir ólifað klæddist hún nær eingöngu svörtu. Hvert sem hún fór bar hún með sér úr Alberts, lykla hans og vasaklút. Hún var svo upptekin af harmi sínum að hún sinnti ekki lengur skyldum sínum. Bresk dagblöð voru óspör á að kvarta undan því að drottningin væri á launum við að gera ekki neitt.

Drottningin bjó yfir myndlistarhæfileikum.
Sjálfsmynd frá yngri árum Drottningin bjó yfir myndlistarhæfileikum.

Drottningin eignaðist síðan óvæntan vin í þjóni sínum, John Brown. Einstaklega kært var á milli þeirra og svo mjög að börnum drottningar var í nöp við hann og slúðrað var um ástarsamband þeirra í milli. Skömmu eftir dauða Brown lét drottningin gera af honum styttu í fullri líkamsstærð.

Forsætisráðherrann Disraeli var fyrir utan Albert prins og Melbourne lávarð helsti áhrifavaldur í lífi drottningar. Það var ekki síst vegna stuðnings hans sem hún fór aftur að sinna skyldu sinni sem þjóðhöfðingi. Saman efldu þau breska heimsveldið og voru samhent í að móta breska heimsvaldastefnu. Drottningin dáði Disraeli en að sama skapi var henni í nöp við helsta andstæðing hans, umbótasinnann Gladstone. Þau Disraeli deildu þessari andúð en Disraeli kallaði Gladstone: „Einu mistök Guðs“.

„Hann talar yfir mér eins og ég sé almennur borgarafundur,“ sagði drottningin um Gladstone. Hann stóð drottninguna margsinnis að því að beita sér gegn ýmsum málum sem flokkur hans beitti sér fyrir. Við dóttur sína sagði Viktoría á efri árum: „Gladstone var greindur maður og ákaflega hæfileikaríkur en hann gerði ekkert til að halda uppi merki og heiðri Stóra-Bretlands.“

Hún þótti bæði hugrökk og hreinskilin.
Viktoría á eftir árum Hún þótti bæði hugrökk og hreinskilin.

Sá yfir landamærin

Þegar Viktoría hafði ríkt í 60 ár skrifaði hún í dagbók sína: „Í dag er dagurinn sem ég hef ríkt lengur en nokkur enskur þjóðhöfðingi.“ Hátíðahöldin voru stórbrotin og drottningin var mjög hrærð. „En hvað fólk er vingjarnlegt,“ sagði hún.

Síðustu árin sem Viktoría lifði þjáðist hún af gigt og sjón hennar hrakaði mjög. Hún taldi þó ekki eftir sér að sitja við meðan Búastríðið geisaði og prjóna trefla handa breskum hermönnum. „Mér finnst ég vera að gera eitthvað fyrir þá, þrátt fyrir að framlagið sé ósköp lítið,“ sagði hún afsakandi.

Hún hafði eitt sinn sagt dóttur sinni að það yrði mikil blessun að deyja umkringd börnum sínum. Seinna skipti hún um skoðun og sagði það skelfilega tilhugsun að hafa ættingja sína sveimandi yfir sér eins og hrægamma. Þegar kom að því að kveðja árið 1901, komu börn hennar að sjúkrabeði hennar. Að sögn Helenar, dóttur hennar, reis hún upp í rúmi sínu, horfi í átt að glugganum og kallaði „Albert!“ Helena sagðist vera viss um að móðir sín hefði séð yfir landamærin og hitt aftur sinn heittelskaða Albert.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Skipulögð brotastarfsemi mikið áhyggjuefni

Skipulögð brotastarfsemi mikið áhyggjuefni
Fókus
Fyrir 2 dögum

Endaði á spítala og í hjólastól eftir atriði í klámmynd – Mætt fyrir framan myndavélarnir degi seinna

Endaði á spítala og í hjólastól eftir atriði í klámmynd – Mætt fyrir framan myndavélarnir degi seinna
Fókus
Fyrir 3 dögum

Dularfull eftirlýsing lögreglunnar á Norðurlandi vestra vekur athygli – „Ætlið þið að vera með skemmtiatriði hjá þeim sem svara?“

Dularfull eftirlýsing lögreglunnar á Norðurlandi vestra vekur athygli – „Ætlið þið að vera með skemmtiatriði hjá þeim sem svara?“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Gleymið Bjarna og kökuskreytingunum – nú er það Bjarnapitsa – „Sjáið drenginn, hann á ekkert að vera að vinna á þingi“

Gleymið Bjarna og kökuskreytingunum – nú er það Bjarnapitsa – „Sjáið drenginn, hann á ekkert að vera að vinna á þingi“
Fókus
Fyrir 5 dögum

„Maður þarf bæði að leyfa henni að vera og fara, sorginni“

„Maður þarf bæði að leyfa henni að vera og fara, sorginni“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Prestur rekinn eftir að hafa hleypt Sabrinu Carpenter inn í kirkjuna

Prestur rekinn eftir að hafa hleypt Sabrinu Carpenter inn í kirkjuna