Kristján Markús Sívarsson, oft kenndur við Skeljagranda líkt og bróðir hans, Stefán Logi, hefur verið ákærður fyrir að koma barnsmóður sinni ekki til hjálpar þegar hún lést úr ofneyslu fíkniefna. Katrín Dröfn Bridde andaðist þann 24. janúar árið 2018 en DV fjallaði um andlát hennar stuttu síðar í samstarfi við fjölskyldu hennar.
RÚV greindi frá því í gærkvöldi að Kristján Markús hafi verið ákærður í málinu. Hann var þó ekki nafngreindur. DV óskaði eftir afrit af ákæru frá saksóknara en að sögn hennar hefur ekki enn tekist að birta honum ákæruna.
RÚV greinir frá því að Kristján Markús sé sakaður um að hafa brotið gegn 221. málsgrein hegningarlaga, sem kveður á um að það varði allt að tveggja ára fangelsi að koma manneskju í lífsháska ekki til hjálpar. Mjög sjaldgæft er að menn séu ákærðir slík brot.
Sjá nánar: Unga konan dó vegna eitrunar
Kristján Markús á að baki langan sakaferil. Þar meðal má nefna fjögur ár og níu mánuði dóm sem hann hlaut árið 2015 fyrir fimm ofbeldisbrot og þar af tvær frelsissviptingar. Hann var auk þess það sama ár dæmdur fyrir að hvetja unglingsstúlku til fíkniefnaneyslu. Ofan á þetta þá var hann yfirheyrður í skelfilegu máli árið 2014 en þá lést þáverandi kærasta hans úr ofneyslu fíkniefna í borginni Algeciras á Spáni. Hún var einungis rétt ríflega tvítug. Það mál endaði þó aldrei fyrir dómstólum eftir því sem DV kemst næst. Hún lést á litlu hóteli í Algeciras. Kristján Markús tilkynnti um andlát hennar, en hún var úrskurðuð látin á vettvangi.
DV fjallaði um andlát Katrínar í fyrra en þá var greint frá því að fjögur börn hennar væru nú foreldralaus. Þrátt fyrir hafa átt við áfengis- og fíkniefnavanda að stríða var hún sögð góð móðir. „Katrín var vinamörg og ótal margir sem minnast hennar á samskiptamiðlum með fallegum orðum. Á Facebook hafa tugir vina skrifað hjartnæmar minningargreinar. Vinirnir segja Katrínu hafa verið með hjarta úr gulli. Hún hafi ekki farið í manngreiningarálit, verið sterk og góð móðir, trygg og alltaf til staðar fyrir vinina,“ segir í frétt DV.