Þó rannsókn norsku lögreglunnar á hinu dularfulla hvarfi Anne-Elisabeth Hagen hafi engu skilað er lögregla ekki búin að leggja árar í bát í málinu.
Í morgun birti lögregla myndir af fótspori fyrir utan heimili Anne sem er eiginkona Tom Hagen, eins ríkasta manns Noregs. Anne var rænt í október í fyrra og hefur lítið sem ekkert heyrst frá mannræningjunum síðan.
Lögregla vonast til þess að myndbirtingin geti gagnast með einhverjum hætti við rannsókn málsins, en skórnir sem um ræðir eru númer 45 og af tegundinni Sprox. Telur lögregla ástæðu til að ætla að sá sem rændi Anne hafi verið í umræddum skó daginn örlagaríka í fyrra.
Á fréttamannafundi lögreglunnar í morgun kom fram að skórnir hafi verið seldir í 24 verslunum Spar Kjøps í Noregi á tímabilinu ágúst 2016 og fram í maí 2019. 1.500 skór af þessari tegund hafa selst í Noregi á umræddu tímabili. Það sem flækir ef til vill rannsóknina er að skórnir eru einnig seldir í öðrum löndum um allan heim.
Lögregla hefur hvatt þá sem keypt hafa skó af þessari tegund með reiðufé að hafa samband. Á fundinum í morgun kom fram að lögreglu hefði ekki tekist að tengja skófarið við neinn ákveðinn einstakling og því hafi verið ákveðið að leita til almennings.