Tor Arne Berg mun taka við stöðu forstjóra Alcoa Fjarðaáls um mánaðamótin september-október. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Alcoa.
Frá árinu 2017 er Tor Arne búinn að starfa sem forstjóri Lista í Noregi og þar á undan stýrði hann starfsemi steypuskála í Evrópu og Ástralíu. Í því starfi var hann m.a. yfirmaður framkvæmdastjóra steypuskála hjá Fjarðaáli. Tor Arne hefur starfað hjá Alcoa frá árinu 2011 og unnið fjölbreytt störf fyrir fyrirtækið. Meðal annars hefur hann verið framkvæmdastjóri steypuskála hjá Lista, svo og framkvæmdastjóri innkaupa þar. Hann mun yfirgefa stöðu sína sem forstjóri Lista þegar hann gengur til liðs við Fjarðaál.
Magnús Þór Ásmundsson óskaði eftir að láta af störfum hjá Alcoa Fjarðaáli í júlí. Hann hafði starfað hjá Fjarðaáli frá árinu 2009, fyrst sem framkvæmdastjóri framleiðsluþróunar, síðan sem forstjóri móðurfélagsins Alcoa á Íslandi frá 2012 og jafnframt sem forstjóri Alcoa Fjarðaáls á Reyðarfirði frá 2014.
Smári Kristinsson, framkvæmdastjóri álframleiðslu, er við stjórnvölinn þangað til Berg tekur við.
Sjá einnig: Magnús Þór lætur af störfum hjá Fjarðaáli