Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins, skorar á Sjálfstæðismenn að gyrða sig í brók og berjast gegn yfirgangi ESB varðandi orkupakka 3 í Morgunblaðinu í dag. Gunnar Bragi segir að orkupakkamálið hafi alltaf verið á könnu Sjálfstæðisflokksins, þó svo flokkurinn kannist ekki við ábyrgðina.
Vísar hann til þess að frá 2013 hafi flokkurinn stýrt utanríkismálanefnd, verið í forystu í atvinnuveganefnd og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Þá hafi hann stýrt iðnaðarráðuneytinu frá 2013 og Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hafi verið formaður Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES í mörg ár áður en hann varð ráðherra.
Hann vitnar einnig í bréf sem hann fékk frá Birgi Ármannssyni, þáverandi formanni utanríkismálanefndar, árið 2015, sem kveður á um að skoðað verði hvort orkupakkinn samrýmist stjórnarskrá Íslands:
„Utanríkismálanefnd hefur, í samræmi við 2. gr. reglan um þinglega meðferða EES-mála, fjallað um svokallaðan þriðja orkupakka (tilskipun 2009/72/EB o.fol.) til mats á því hvort efnislegra aðlagana sé þörf. Málið er til umfjöllunar í vinnuhópi EFTA og var utanríkismálanefnd upplýst um málið með skeyti frá utanríkisráðuneyti dags. 5. mars 2014 ásamt fylgigöngum.
Tilskipunin hefur fengið efnislega umfjöllun í atvinnuveganefnd og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Utanríkismálanefnd ákvað í kjölfar álits nefndanna að taka málið til frekari skoðunar, þá sérstaklega útfærslu aðlagana og stjórnskipuleg álitaefni sem uppi eru í þeim efnum og hefur fengið sérfræðinga ráðuneyta á fundi vegna málsins.
Utanríkismálanefnd óskar eftir því að unnin verði greinargerð um það hvort þau drög að aðlögunartexta sem nú liggja fyrir og þær útfærslur sem þar er kveðið á um á grundvelli tveggja stoða kerfis EES-samningsins samrýmist stjórnarskrá.“
Um þetta segir Gunnar Bragi:
„Hinn 26. júní 2016 svarar utanríkisráðuneytið erindi Birgis en þá er utanríkisráðherra orðin Lilja Dögg Alfreðsdóttir. 20 september 2016 sendir þáverandi formaður utanríkismálanefndar, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Lilju Dögg Alfreðsdóttur utanríkisráðherra bréf þar sem hún segir að utanríkismálanefnd hafi lokið umfjöllun um málið. Guðlaugur Þór keyrir síðan málið áfram. Sjálfstæðismenn hafa þannig stýrt orkupakka 3 í gegnum þingið frá 2013 og til dagsins í dag. ESB mun krefjast enn meiri stjórnar á orkumarkaði Evrópu og þar með Íslandi með orkupakka 4. Vonandi gyrða sjálfstæðismenn sig í brók og koma með okkur í Miðflokknum að berjast gegn þessum yfirgangi ESB.“