Morðið á 11 ára þýskum dreng, Jakobi von Metzler, árið 2002 vakti mikla athygli á sínum tíma. Jakobi var rænt í Frankfurt 27. september, 2002, og mannræninginn, laganemi að nafni Magnus Gaäfgen, krafðist lausnargjalds af foreldrum hans. Faðir Jakobs, sem er af þekktri ætt bankamanna, samþykkti að greiða lausnargjaldið, eina milljón evra. Því fór þó fjarri að málið fengi farsælar lyktir, þrátt fyrir einlægan vilja foreldra Jaboks til þess.
Lögreglan fylgdist með þegar Magnus sótti lausnarféð. Ekki var að sjá að hann hygðist skila Jabobi heilu og höldnu til fjölskyldu sinnar, en þess í stað bókaði hann ferð í frí.
Lögreglan sá ekkert annað í stöðunni en að handtaka Magnus. Þegar þar var komið sögu var óvitað hvort Jakob væri lífs eða liðinn og meðan Magnus var í varðhaldi hótuðu tveir lögreglumenn honum alvarlegum líkamsmeiðingum ef hann gæfi ekki upp um dvalarstað Jakobs. Sögðu lögreglumennirnir að Magnus gæti ekki „ímyndað sér þann sársauka“ sem hann fyndi ef hann væri ekki samvinnuþýður.
Rannsóknarlögreglan lifði í þeirri veiku von að Jakob væri enn í tölu lifenda. Í kjölfar hótana um barsmíðar og sársauka upplýsti Magnus hvar Jakob var falinn. Ljóst varð að Jakob hafði verið dáinn þegar Magnus sótti lausnarféð.
Magnus, sem taldist til vina fjölskyldu Jakobs, hafði nauðgað Jakobi, hert að hálsi hans og að lokum drekkt honum heima hjá sér.
Í júlí, 2003, fékk Magnus lífstíðardóm og tekið fram að hann mundi ekki eiga möguleika á frelsi eftir 15 ár eins og venjan er með lífstíðarfanga; hann væri hættulegri en svo.
Árið 2005 kærði Magnus þýska ríkið. Sumir kunna að telja að með kærunni hafi hann bætt móðgun við meingjörð, því kæran varðaði hótanir áður nefndra tveggja lögreglumanna árið 2002.
Krafðist Magnus 10.000 evra fyrir pyntingar og ómannúðlega og niðurlægjandi meðferð. Ójá. Reyndar lagði hann einnig fram kæru vegna þess sem hann kallaði ósanngjörn réttarhöld og varanlegt sálrænt tjón vegna hótana um pyntingar. Úrskurðað var í málinu í Hesse-fylki og féll dómur þýska ríkinu í vil.
Magnus Gäfgen vildi þó ekki játa sig sigraðan og áfrýjaði dómnum. Við áfrýjunardómstól í Frankfurt, árið 2011, hafði Magnus betur að hluta til og úrskurðað að honum skyldu greiddar 3.000 evrur.
Þýska ríkið lagði málið fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, enda ekki ekki sátt við þau málalok. Þýska ríkið hafði ekki erindi sem erfiði því á þeim bæ voru menn þeirrar skoðunar að barnsmorðinginn hefði sætt „ómannúðlegri meðferð“. Bætur upp á 3.000 evrur skyldu því standa.
Í Schwalmstadt-fangelsinu í Hesse hefur Magnus stúderað lög og staðist upphafspróf í lögfræði. Hann hefur einnig tekið upp nýtt nafn; Thomas David Lukas Olsen. Að sögn sótti hann innblástur í uppdiktaða persónu, Olsen Egon, úr dönskum dægurkúltúr; kvikmyndunum um Olsen-gengið. Egon Olsen var leiðtogi gengisins.
Einnig hefur Magnus skrifað og fengið útgefna sjálfsævisögu sem á íslensku myndi heita Einn með Guði – Leiðin til baka.
Árið 2017 sótti Magnús um reynslulausn en kom bónleiður til búðar.