Daily Mail hefur birt mynd af Ólafi Ragnari Grímssyni, fyrrverandi forseta Íslands, og Dorrit Moussaieff, með vinkonum Jeffrey Epstein. Myndin var tekin í boði sem kampavínsfyrirtækið Dom Perignon hélt. Fréttablaðið vakti athygli okkar á þessu. Meginviðfangsefni fréttar Daily Mail eru tengsl Epsteins við Katherine Keating, dóttur Paul Keating, fyrrverandi forsætisráðherra Ástralíu.
Á myndinni má einnig sjá Ghislaine Maxwell, fyrrverandi kærustu Epsteins. Hún er sögð vera í felum núna og er grunuð um hlutdeild í saknæmu atferli Epsteins en hann var ákærður fyrir víðtæka kynferðislega misnotkun og mansal á börnum. Maxwell er næstlengst til hægri á myndinni, við hliðina á Dorrit. Hins vegar er dreginn hringur utan um andlit Katherine Keating á myndinni.
Epstein framdi sjálfsvíg í fangaklefa sínum fyrir skömmu. Hann hélt kynlífsveislur þar sem kornungar stúlkur voru misnotaðar. Hann á marga fræga vini sem reyna nú allt hvað getur að sverja af sér tengsl við hann. Meðal þeirra eru Andrew Bretaprins.
Talið er að andlát Epsteins ýti undir ákefð yfirvalda til að hafa hendur í hári Maxwell og ákæra hana fyrir hlutdeild í glæpunum.