Fjárfestirinn í hlutverki lögregluþjóns í myndinni Ég man þig
„Það kom enginn annar til greina í hlutverkið. Heiðar er frábær leikari,“ segir leikstjórinn Óskar Þór Axelsson í samtali við DV. Í vikunni var myndin „Ég man þig“ í leikstjórn Óskars Þórs frumsýnd fyrir fullu húsi í Háskólabíói. Myndin er byggð á hrollvekjandi samnefndri skáldsögu Yrsu Sigurðardóttur. Í veigamiklu atriði í lok myndarinnar má greina fjárfestinn og hagfræðinginn Heiðar Guðjónsson í hlutverki lögreglumanns og var blaðamaður forvitinn að vita hvernig það kom til.
„Heiðar skilur einfaldlega út á hvað þetta gengur. Hann ofleikur aldrei og er bara eðlilegur í fasi fyrir framan myndavélina. Ef taka þarf atriðið upp aftur þá framkvæmir hann það möglunarlaust aftur og á nákvæmlega eins hátt,“ segir Óskar Þór.
Hann og Heiðar eru skólafélagar úr Verslunarskóla Íslands og voru báðir í námi á sama tíma í New York. „Við erum góðir vinir og ég fékk Heiðar alltaf til þess að leika í skólaverkefnunum mínum. Eitt sinn tók hann að sér hlutverk bankaræningja, með nælonsokk yfir andlitinu, og fór gjörsamlega á kostum,“ segir Óskar Þór og hlær.
Í nýju myndinni er Heiðar réttum megin við lögin en kvikmyndahlutverk hans hefðu getað verið fleiri. „Hann var í litlu hlutverki í myndinni „Svartur á leik“ sem ég leikstýrði. Þar var hann einnig mjög góður en að lokum fannst mér atriðið ekki passa í myndina og því var atriði Heiðars klippt út úr lokaútgáfunni,“ segir Óskar Þór.
Að hans sögn voru það þó ekki aðeins leiklistarhæfileikar Heiðars sem tryggðu honum hlutverkið. „Hann er mikill útivistarmaður og því vissi ég að hann væri meira en til í að heimsækja tökustað myndarinnar á Hesteyri. Síðan er hann bara afar samvinnuþýður, hann er fyrsti maður á vettvang ef að færa þarf til ljós eða færa tökubúnað milli staða,“ segir Óskar Þór.
Hann var í skýjunum með viðtökurnar á frumsýningu myndarinnar. „Þetta var í fyrsta skipti sem ég sýndi öðrum myndina og það er auðvitað alltaf stressandi. Ég var hins vegar snortinn yfir viðbrögðum áhorfenda. Sérstaklega var ánægjulegt að hitta Yrsu og heyra að hún var ánægð,“ segir Óskar Þór.