Leikur hlutverk í myndinni King Arthur: Legend of the Sword í leikstjórn Guy Ritchie
Stórmyndin „King Arthur: Legend of the Sword“ verður frumsýnd hérlendis í dag. Myndin, sem er í leikstjórn Guy Ritchie, skartar stjörnum á borð við Charlie Hunnam, Jude Law, Eric Bana og Djimon Hounsou í helstu hlutverkum. Ævintýrið þekkta hefur hlotið blendin viðbrögð kvikmyndaunnenda. Myndin hefur til að mynda hlotið 7,2 í einkunn á kvikmyndavefnum IMDB, sem að þykir nokkuð gott, en aftur á móti fær hún aðeins 21% einkunn á Rottentomatoes.com sem þykir arfaslakt.
Myndin hefur hlotið mikla athygli vegna þeirrar staðreyndar að knattspyrnuhetjan David Beckham þreytir frumraun sína í alvöru hlutverki á hvíta tjaldinu. Leikur hann skylmingarkappann Trigger sem á samskipti við aðalsöguhetjuna á mikilvægum tímapunkti í myndinni.
Óhætt er að segja að aðdáendur virðast ekki vera hrifnir af frammistöðu Beckham. Daily Mail tók saman viðbrögð áhorfenda á Twitter og voru þau í meira lagi neikvæð. Meðal annars fullyrtu margir að þeir myndu ekki horfa á myndina aðeins útaf því að Beckham leikur hlutverk í henni.
Atriðið með Beckham er að sjálfsögðu komið á Youtube og nú geta lesendur DV dæmt. Á David Beckham framtíðina fyrir sér í leiklist?